Efnahagsmál - 

03. maí 2011

Aftur sest að samningaborðinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aftur sest að samningaborðinu

Aðilar vinnumarkaðarins hittast í dag kl. 15 hjá ríkissáttasemjara til að ræða möguleikann á að ljúka gerð nýs kjarasamnings á almennum vinnumarkaði. Framkvæmdastjórn SA lýsti því yfir sl. föstudag að samtökin telji mikilvægt að skapa fyrirtækjum landsins starfsöryggi og frið. Því var ákveðið að láta reyna á vilja ASÍ og landssambandanna til að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings.

Aðilar vinnumarkaðarins hittast í dag kl. 15 hjá ríkissáttasemjara til að ræða möguleikann á að ljúka gerð nýs kjarasamnings á almennum vinnumarkaði. Framkvæmdastjórn SA lýsti því yfir sl. föstudag að samtökin telji mikilvægt að skapa fyrirtækjum landsins starfsöryggi og frið. Því var ákveðið að láta reyna á vilja ASÍ og landssambandanna til að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings.

Undanfarna mánuði hafa Samtök atvinnulífsins og ASÍ og landssambönd þess unnið að gerð þriggja ára kjarasamnings sem byggir á atvinnuleiðinni. Með henni er sköpuð ákveðin framtíðarsýn þar sem áherslan er lögð á hagvöxt, öruggt og tryggt starfsumhverfi fyrir allar atvinnugreinar, aukningu kaupmáttar og að draga úr atvinnuleysi.  Til þess að ná þessu fram var aðkoma ríkisstjórnarinnar nauðsynleg.

Þegar viðræðum um kjarasamning var slegið á frest fyrir páska lá fyrir grunnur að kjarasamningi aðila en út af stóðu nokkur mál sem ræða þurfti nánar við ríkisstjórnina. Á fimmtudagskvöld í síðustu viku bárust ný drög að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Að mati SA var þar komið að nokkru til móts við sjónarmið samtakanna um auknar framkvæmdir í hagkerfinu auk þess sem sett var fram ákveðin bókun um meðferð frumvarps um sjávarútvegsmál.

Því ákvað framkvæmdastjórn SA í kjölfarið að leita eftir því við samningsaðila að ljúka gerð kjarasamnings.

SA telja að atvinnuleiðin sé best til þess fallin að ná þjóðinni út úr kreppunni og skapa grundvöll að nýrri sókn í atvinnumálum, auknum kaupmætti og því að unnt verði að draga úr atvinnuleysinu.

Samtök atvinnulífsins