Efnahagsmál - 

08. Maí 2008

Afstýrum kreppu og atvinnuleysi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Afstýrum kreppu og atvinnuleysi

Gengislækkun krónunnar og mikil hækkun á verðlagi í kjölfarið hafa skapað nýjar og lakari forsendur fyrir íslenskt atvinnulíf, heimilin og þjóðarbúið allt. Mikilvægasta verkefnið framundan er að vinna þannig úr vandanum að stöðugleiki og atvinna haldist eftir því sem frekast er kostur. Brjótast þarf út úr því umsátursástandi sem ríkir um íslenskan fjármálamarkað og tryggja atvinnulífinu aðgang að erlendu lánsfé á eðlilegum kjörum. Gengislækkunin má ekki setja í gang nýja verðbólguskrúfu með víxlhækkunum launa og verðlags heldur verður að byggja lífskjör þjóðarinnar upp á nýjan leik á traustum grunni. Mestu máli skiptir að hjól atvinnulífsins fái að snúast þannig að atvinna haldist. Þannig verða lífskjörin best tryggð og forsenda sköpuð til að ná því til baka sem tapast hefur og hefja nýja sókn til bættra lífskjara.

Gengislækkun krónunnar og mikil hækkun á verðlagi í kjölfarið hafa skapað nýjar og lakari forsendur fyrir íslenskt atvinnulíf, heimilin og þjóðarbúið allt. Mikilvægasta verkefnið framundan er að vinna þannig úr vandanum að stöðugleiki og atvinna haldist eftir því sem frekast er kostur. Brjótast þarf út úr því umsátursástandi sem ríkir um íslenskan fjármálamarkað og tryggja atvinnulífinu aðgang að erlendu lánsfé á eðlilegum kjörum. Gengislækkunin má ekki setja í gang nýja verðbólguskrúfu með víxlhækkunum launa og verðlags heldur verður að byggja lífskjör þjóðarinnar upp á nýjan leik á traustum grunni. Mestu máli skiptir að hjól atvinnulífsins fái að snúast þannig að atvinna haldist. Þannig verða lífskjörin best tryggð og forsenda sköpuð til að ná því til baka sem tapast hefur og hefja nýja sókn til bættra lífskjara.

Gengislækkun krónunnar sýnir skipbrot vaxtastefnu Seðlabankans. Eftir kjarasamningana 17. febrúar spáði bankinn tveggja stafa verðbólgu á grundvelli þess að kjarasamningarnir myndu hafa í för með sér launaskrið og að hækkanir á lágmarkstöxtum myndu flæða yfir allan vinnumarkaðinn. Staðreyndin er hins vegar sú að samningarnir hafa haldið, fyrirtæki lögðu áherslu á að framkvæma samningana rétt og gæta mikils aðhalds í launamálum og starfsmannamálum. Vaxtastefna Seðlabankans steytti hins vegar á skeri þegar gengi krónunnar lækkaði niður úr öllu valdi og nú hafa líkur aukist á því að verðbólguspá bankans rætist.

Atvinnulífið gat lengi vel vikið sér undan hinum háu vöxtum á lánum í krónum með því að taka erlend lán og því komu vaxtahækkanir Seðlabankans fram í miklum óstöðugleika í gengi krónunnar en hafa sáralítil áhrif haft á verðbólguna. Nú þegar aðgangur atvinnulífsins að erlendu lánsfé hefur takmarkast svo mjög stendur atvinnulífið frammi fyrir svimandi háum vöxtum á öllum mörkuðum auk þess sem bankarnir halda mjög að sér höndum við lánveitingar. Ástandið í atvinnulífinu fer hratt versnandi, ekki er lagt í ný verkefni og aðhaldi beitt á öllum sviðum. Hin hefðbundna sumarsveifla með ferðamennskunni og sumarfríum mun þó draga úr sýnileika ástandsins næstu mánuði, en þegar uppsagnarfrestum og sumarfríum lýkur og ferðamennirnir farnir til síns heima blasir raunveruleikinn við.

Til þess að koma í veg fyrir mikinn samdrátt í atvinnulífinu og atvinnuleysi þarf atvinnulífið aðgang að erlendu lánsfé á eðlilegum kjörum. Það er hin raunverulega vaxtalækkun sem skilar árangri. Brýnt er að fjármálafyrirtækin og ríkisstjórnin vinni saman að þessu máli. Íslensku bankarnir hugsa eðlilega um að halda samkeppnisstöðu sinni á erlendum mörkuðum og það er mjög mikilvægt fyrir alla að þeir nái árangri í því. En staða bankanna á erlendum mörkuðum þarf að batna svo að þeir geti fjármagnað áframhaldandi vöxt íslensks atvinnulífs. Seðlabankinn ætti líka að lækka vexti samhliða til þess að efna ekki til nýrrar stórrar gengissveiflu, fyrst með ótæpilegri hækkun gengisins og nýrri lækkun í kjölfarið.

Verðbólgan á næstu mánuðum mun væntanlega geta hjaðnað hratt. Mánaðarlegar hækkanir munu verða litlar á síðari hluta ársins ef gengið lækkar ekki enn frekar. Meðan aðgangurinn að erlendum fjármagnsmörkuðum er takmarkaður dregst eftirspurnin í efnahagslífinu saman og það verður sífellt þyngra að koma verðhækkunum fram. Því þurfa fyrirtæki að vanda vel til verðákvarðana og gæta hófs í hækkunum ekki síður en aðhalds í kostnaði. Það besta væri að gengið hækkaði nokkuð á ný með betri aðgangi að erlendu lánsfé. Þá skapast líka forsendur fyrir verðstöðugleika á síðari hluta ársins og þá helst atvinnan og grunnurinn undir lífskjörin verður eins traustur og mögulegt er við þessar erfiðu aðstæður.

Sé litið til lengri tíma er ljóst að kostnaðarhækkanir, þ.m.t. launahækkanir, verða að vera hóflegar og samræmast stöðugleika fram á veginn. Það er ekki hægt að bæta fyrir skellinn sem atvinnulífið og heimilin hafa fengið nema með þolinmæði og taka eitt skref í einu. Fyrst að ná því sem tapast hefur og svo að byggja upp nýja sókn. 

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins