Efnahagsmál - 

06. nóvember 2019

Áframhald á vaxtalækkunum Seðlabankans

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áframhald á vaxtalækkunum Seðlabankans

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur lækkað stýrivexti úr 3,25% í 3%. Hafa stýrivextir bankans nú lækkað um 1,5% á síðustu fimm vaxtaákvörðunarfundum frá því í maí sl. Aukinn slaki mælist nú í efnahagslífinu, störfum fækkar og atvinnuleysi eykst – vaxtalækkun bankans er því rökrétt og mikilvægt skref til að styðja við íslenskt atvinnulíf í því krefjandi rekstrarumhverfi sem við blasir.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur lækkað stýrivexti úr 3,25% í 3%. Hafa stýrivextir bankans nú lækkað um 1,5% á síðustu fimm vaxtaákvörðunarfundum frá því í maí sl. Aukinn slaki mælist nú í efnahagslífinu, störfum fækkar og atvinnuleysi eykst – vaxtalækkun bankans er því rökrétt og mikilvægt skref til að styðja við íslenskt atvinnulíf í því krefjandi rekstrarumhverfi sem við blasir.

Verkefnið framundan að milda efnahagslægðina
Seðlabankinn birti samfara vaxtaákvörðun í morgun nýja þjóðhagsspá bankans. Í spánni er gert ráð fyrir að hagvöxtur á seinni hluti ársins verði heldur lakari en áður hafði verið spáð og þá er einnig útlit fyrir minni hagvöxt á árinu 2020 en áður hafði verið spáð. Breyttar horfur í efnahagsmálum reyna nú á þanþol margra fyrirtækja sem á sama tíma þurfa að standa straum af auknum launakostnaði.

Hagkerfið kólnar og mikilvægt að í umræðu um hið peningalega aðhald séu allir mælikvarðar teknir til skoðunar þannig að tryggt sé að hagkerfið sé ekki kælt of hratt og of mikið í miðri niðursveiflu. Hrein ný útlán bankakerfisins til fyrirtækja hafa dregist hratt saman saman. Það er áhyggjuefni og gæti haft veruleg áhrif á fjárfestingu og nýsköpun í landinu og stuðlað að enn dýpri niðursveiflu en ella.

Háar kröfur um eiginfjárauka í bankakerfinu hafa áhrif á útlánageta bankanna og leiðir til þess að útlánavextir eru hærri en ella. Ákveðið hefur verið að hækka eiginfjárauka þriggja stærstu viðskiptabankanna enn frekar í tveimur skrefum, fyrri hækkunin kom fram í maí sl. og sú seinni verður í febrúar á næsta ári. Er þessi hækkun óheppilega tímasett í miðri niðursveiflu þar sem hún dregur enn frekar úr útlánagetu bankanna og versna þar með vaxtakjör sem viðskiptavinum bjóðast.

Síðustu ár hafa verið einstaklega hagfelld fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Nú eru blikur á lofti, óvissa ríkir í innlendum þjóðarbúskap og á heimsvísu. Á tímamótum sem þessum reynir á hagstjórnina.  Stýrivaxtalækkanir Seðlabankans það sem af er ári eru mikilvægar þar sem þær draga úr fjármagnskostnaði heimila og fyrirtækja, styðja við fjárfestingu og nýsköpun og draga því úr áhrifum niðursveiflunnar. Af þessu sögðu fagna Samtök atvinnulífsins að áfram sé haldið í vaxtalækkunarferlinu.

Samtök atvinnulífsins