Efnahagsmál - 

09. október 2018

Áframhald á útþenslu ríkisins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áframhald á útþenslu ríkisins

Afgangur af rekstri ríkissjóðs er áætlaður 29 milljarðar á næsta ári sem er um 1% af vergri landsframleiðslu. Áfram treystir ríkið á mikinn hagvöxt og afgangurinn er naumur með hliðsjón af hröðum vexti tekjustofna ríkissjóðs, sem náð hafa sögulegum hæðum. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjárlagafrumvarpið 2019.

Afgangur af rekstri ríkissjóðs er áætlaður 29 milljarðar á næsta ári sem er um 1% af vergri landsframleiðslu. Áfram treystir ríkið á mikinn hagvöxt og afgangurinn er naumur með hliðsjón af hröðum vexti tekjustofna ríkissjóðs, sem náð hafa sögulegum hæðum. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjárlagafrumvarpið 2019.

Ábyrgt væri að halda aftur af útgjaldavexti á uppgangstímum og búa í haginn fyrir niðursveiflu. Það eru því vonbrigði að stjórnvöld skuli ekki sýna meira aðhald í fjárlagafrumvarpinu. Útgjöld eiga áfram að vaxa og aukast um 100 milljarða króna á fjórum árum verði frumvarpið samþykkt óbreytt.

Blikur á lofti
Töluverð óvissa er nú í efnahagslífinu og vísbendingar um að hægt hafi á vexti hagkerfisins. Minni hagvöxtur en áætlað er mun draga úr vexti tekna ríkissjóðs. Útgjöld breytast hægar en tekjur. Í síðustu niðursveiflu vörðuðu skattahækkanir leiðina að hallalausum ríkisrekstri. Sú leið verður ekki endurtekin í næstu niðursveiflu þar sem skattar á Íslandi eru mun hærri en áður og meðal þeirra hæstu í heiminum. 

Milljarður á viku
Ríkisútgjöld munu aukast um 57 milljarða á árinu 2019, eða um rúmlega einn milljarð á viku. Ríkisútgjöld á hvern Íslending hafa aldrei verið meiri, mælt á föstu verðlagi, og eru opinber umsvif ein þau mestu meðal þróaðra ríkja. Af hverjum 100 krónum sem verða til í hagkerfinu er 38 krónum ráðstafað af hinu opinbera og ljóst að vandinn í opinberum rekstri liggur í skorti á forgangsröðun en ekki á fjármagni. Í fjárlagafrumvarpinu er fyrst og fremst lögð áhersla á aukningu útgjalda. Það er ekki góð stefna. Eftir mikla útgjaldaþenslu undanfarinna ára er fremur þörf á forgangsröðun, þ.e. að fjármunir séu fluttir milli málaflokka í stað þess að auka útgjöld til þeirra allra. SA hvetja stjórnvöld til að taka upp útgjaldareglu sem setur vexti útgjalda þrengri skorður.

Mikilvægur árangur í niðurgreiðslu skulda
Þrátt fyrir mikinn útgjaldavöxt hefur mikill árangur náðst í lækkun skulda ríkissjóðs. Fyrir sjö árum voru skuldirnar þrefalt hærra hlutfall af landsframleiðslu en gangi áform stjórnvalda eftir mun skuldaviðmið nást á næsta ári. Ríkissjóður er þannig mun betur í stakk búinn til að takast á við áföll eftir þessa miklu lækkun skulda.

90 milljarða króna útgjaldaloforð í stjórnarsáttmála fylgt eftir
Stjórnarsáttamáli ríkisstjórnarinnar kvað á um aukningu útgjalda til margvíslegra verkefna og endurspeglast þær áherslur í fjárlagafrumvarpinu. SA áætluðu gróflega að ríkisútgjöld myndu aukast um 90 milljarða króna á ári, þ.e. varanleg útgjöld og einskiptisútgjöld, þegar allt yrði komið til framkvæmda. Það stefnir í að 70% af þeim útgjöldum sem lofað var í stjórnarsáttmálanum verði komin fram strax á árinu 2019.

100 milljarða skattahækkun
Tekjur ríkissjóðs hafa aukist mikið undanfarin ár. Skatttekjur á hvern Íslending munu slá fyrri met á næsta ári. Skattahækkanir fyrri ára standa að mestu óhreyfðar og aðrir skattar hafa bæst við. Að mati SA munu skattahækkanir síðustu ára skila ríkissjóði rúmlega 100 milljörðum króna árlega í viðbótartekjur. Það jafngildir heildarframlagi ríkisins til sjúkrahúsaþjónustu. Fyrirhuguð lækkun tryggingagjalds er fagnaðarefni en aðeins dropi í hafið. Ísland verður eftir sem áður háskattaríki í alþjóðlegum samanburði og það ætti að vera forgangsmál að draga til baka þær skattahækkanir  sem gripið var til í kjölfar bankahrunsins.

Jákvæðar hliðar frumvarpsins
Launakostnaður er mjög hár á Íslandi og styður lækkun tryggingagjalds við fyrirtæki í því krefjandi rekstrarumhverfi. Stjórnvöld boða einnig aðgerðir til að mæta kröfum á vinnumarkaði, þ.e. hækkun persónuafsláttar og barnabóta. Það er jákvætt. Þá er mikilvægt að skuldir ríkissjóðs verði lækkaðar áfram sem dregur úr vaxtagreiðslum, en þær hafa verið mjög íþyngjandi síðustu ár.

Neikvæðar hliðar frumvarpsins
Vöxtur útgjalda er of mikill. Stjórnvöld ættu fremur að draga úr útgjöldum en að auka þau ár frá ári. Erfitt verður að ráðast í niðurskurð í næstu niðursveiflu og því mikilvægt að bregðast tímanlega við. Beita þarf forgangsröðun og færa fjármuni milli málaflokka ef fé skortir til þarfra verkefna. Það veldur vonbrigðum að ekki sé skapað meira rými til skattalækkana til hagsbóta fyrir heimili og fyrirtæki.

Frekari hækkun á kolefnisgjaldinu er boðuð í fjárlagafrumvarpinu en gjaldið hefur frá árinu 2017 hækkað um 65%. Hækkun kolefnisgjalds er skattahækkun eins og hver önnur sett í búning græns skatts. Eðlilegt er að samfara hækkun kolefnisgjalds lækki gjöld og skattar á umhverfisvæna starfsemi samsvarandi, ef markmiðið er það eitt að draga úr mengun. Á síðasta ári var fjármagnstekjuskattur hækkaður en um leið lofað að endurskoða skattstofninn. Hvergi er minnst á slíka endurskoðun í fjárlagafrumvarpinu. Þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp var lágt skatthlutfall rökstutt með breiðum skattstofni. Nú er skattstofninn enn breiður en skatthlutfallið hefur tvöfaldast. 

Sjá nánar:

Áframhald á útþenslu ríkisins – umsögn SA um fjárlagafrumvarp 2019 (PDF)

Samtök atvinnulífsins