22. júlí 2022

Áform um rýni á erlendum fjárfestingum ekki tímabær

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áform um rýni á erlendum fjárfestingum ekki tímabær

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra hafa tekið til umsagnar áform um lagasetningu um rýni á erlendum fjárfestingum vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Um er að ræða mikilvæga löggjöf um grundvallarhagsmuni fullvalda ríkis sem samtökin fagna.

Samtökin gera hins vegar alvarlegar athugasemdir við áformin í núverandi mynd, sem snúa að því að skortur er á samhengi við þá löggjöf sem þegar er til staðar á réttarsviðinu og takmarkar verulega eignarhald erlendra aðila í íslenskum fyrirtækjum. Þá virðast áformin gera ráð fyrir að gengið verði lengra en í öðrum löndum þegar kemur að sambærilegri löggjöf án þess að það sé rökstutt með nokkrum hætti. Ennfremur er hvergi að finna efnislegt mat á mögulegum efnahagslegum áhrifum frumvarpsins. Þau eru að öllum líkindum veruleg og til þess fallin að hamla erlendri fjárfestingu enn frekar en núverandi regluverk, sem er afar strangt í alþjóðlegum samanburði.

Kostir beinnar erlendrar fjárfestingar eru ótvíræðir - hún er til þess fallin að auka framleiðni, áhættudreifingu, þekkingu og fjölbreytni í atvinnulífinu. Rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif beinnar erlendrar fjárfestingar á hagvöxt. Því er miður að hlutfall beinnar erlendrar fjárfestingar af landsframleiðslu skuli mælast afar lágt á Íslandi í samanburði þjóða. Ísland skipar 61. sæti af 63 hvað varðar beina erlenda fjárfestingu í úttekt IMD háskólans og hafa umsvif hennar jafnframt dregist saman á umliðnum árum. Þá hefur OECD bent á að Ísland er með einna ströngustu reglurnar þegar kemur að erlendri fjárfestingu, langt yfir meðaltali OECD, og hafa yfirvöld verið hvött til að draga úr hömlum.

Af þessu ætti að vera ljóst að áður en unnt er að leggja fram frumvarp um rýni á erlendum fjárfestingum þarf að fara fram heildstæð skoðun á því regluverki sem þegar er til staðar þar sem einnig er lagt mat á efnahagslegar afleiðingar regluverksins. Tryggja þarf að ný og heildstæð löggjöf verði í samræmi við stefnu yfirvalda um erlendar fjárfestingar. Þrátt fyrir verðug markmið laganna má það ekki verða hliðarafurð að við fórnum meiri hagsmunum fyrir minni og mögulega lokum á eða þrengjum fyrir fjárfestingar sem eru mikilvægar fyrir íslenska hagsmuni til framtíðar.

Lesa má umsögn Samtakanna í heild sinni hér

Samtök atvinnulífsins