Afnám stimpilgjalda (1)

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til breytinga á lögum um stimpilgjald. Flutningsmaður er Margrét Frímannsdóttir. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stimpilgjald óþinglýstra skjala lækki í jöfnum áföngum þar til það verði fellt niður frá árinu 2007 og að stimpilgjald þinglýstra skjala lækki niður í raunkostnað við þá þjónustu sem veitt er við stimplunina.

Í umsögn um frumvarpið taka Samtök atvinnulífsins undir þá stefnumörkun sem í frumvarpinu felst og harma að stjórnvöld hafi ekki hrundið í framkvæmd þeirri endurskoðun á umræddum lögum sem boðuð var í upphafi yfirstandandi þings.

Samtök atvinnulífsins leggja þunga áhersla á afnám stimpilgjalda af útgáfu og viðskiptum með viðskiptabréf. Helstu rök samtakanna fyrir afnámi stimpilgjaldsins eru:

  • Úrelt skattform

    Stimpilgjöld eru sem næst úrelt í helstu viðskiptalöndum okkar.  Íslensk fjármálafyrirtæki starfa í alþjóðlegu umhverfi og er afar mikilvægt að þau sæti ekki sérstökum samkeppnishindrunum sem gera þeim ókleift að þjóna fyrirtækjum á íslenskum markaði jafnvel og erlendir keppninautar. Áhrif stimpilgjaldsins eru m.a. að hérlend fyrirtæki leita til annarra landa með lántökur.

  • Margsköttun

    Skatturinn stimpilgjald hefur í för með sér margsköttun sama skattandlags. Þetta gerist þegar verið er að endurfjármagna eldri lán. Gjaldið hleðst upp í viðskiptaferlinu og torveldar uppbyggingu virks verðbréfamarkaðar hérlendis.

  • Skekkir samkeppnisstöðu

    Stimpilgjald á verðbréf bitnar mun harðar á minni fyrirtækjum en þeim stærri, þar sem síðastnefndu fyrirtækin leita í auknum mæli til útlanda eftir lántökum vegna betri lánskjara þar. Möguleiki erlendra samkeppnisaðila til að bjóða betri kjör er augljóslega meiri þegar engin stimpilgjöld bætast við lántökukostnaðinn.

Ljóst er af framansögðu að stimpilgjaldið er afar skaðlegur skattur og brýnt að hann verði felldur brott sem fyrst.  Það geta þó staðið rök til þess, út frá tekjuáhrifum fyrir ríkissjóð, að skatturinn verði felldur brott í áföngum. Umrætt frumvarp gerir ráð fyrir því að afnámið eigi sér stað á fimm árum.  Spurning er hvort hér sé ekki um of langan tíma að ræða í ljósi þess tjóns sem skatturinn veldur og því ástæða til þess að áfangarnir verði fáir og stórir.

Sjá umsögn SA (pdf-skjal).