Efnahagsmál - 

03. Maí 2001

Afnám stimpilgjalda

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Afnám stimpilgjalda

Innheimta stimpilgjalda hefur á undanförnum árum verið á hröðu undanhaldi hjá öðrum ríkjum, en gjöldin geta leitt til tvísköttunar og jafnvel margsköttunar. Íslensk fyrirtæki starfa nú í alþjóðlegu umhverfi og afar mikilvægt er að þau sæti ekki sérstökum samkeppnishindrunum. Hlutfall stimpilgjalda af heildarskatttekjum ríkissjóðs hefur farið lækkandi á síðustu árum og Samtök atvinnulífsins leggja til að þau verði afnumin, enda um úrelta skattheimtu að ræða og alvarlega samkeppnishindrun hvað snertir útgáfu og viðskipti með viðskiptabréf.

Innheimta stimpilgjalda hefur á undanförnum árum verið á hröðu undanhaldi hjá öðrum ríkjum, en gjöldin geta leitt til tvísköttunar og jafnvel margsköttunar. Íslensk fyrirtæki starfa nú í alþjóðlegu umhverfi og afar mikilvægt er að þau sæti ekki sérstökum samkeppnishindrunum. Hlutfall stimpilgjalda af heildarskatttekjum ríkissjóðs hefur farið lækkandi á síðustu árum og Samtök atvinnulífsins leggja til að þau verði afnumin, enda um úrelta skattheimtu að ræða og alvarlega samkeppnishindrun hvað snertir útgáfu og viðskipti með viðskiptabréf.

Skattahópur Samtaka atvinnulífsins hefur nýlokið við gerð ítarlegrar skýrslu þar sem lagðar eru fram rökstuddar tillögur til úrbóta á starfsskilyrðum fyrirtækja. Skýrslan er hluti af umfangsmiklu málefnastarfi SA undanfarna mánuði og verður kynnt á aðalfundi SA þann 15. maí nk. Þar er m.a. fjallað um ítarlega um stimpilgjöld.

Samkvæmt núgildandi lögum eru ýmis íslensk skjöl stimpilgjaldsskyld. Öll verðbréf eru stimpilgjaldsskyld óháð því hvort þau teljast markaðsverðbréf eða ekki. Fjárhæð stimpilgjalds er mismunandi eftir tegund skjals, en er almennt á bilinu 0,5-2%.

Ljóst er að allt aðrar forsendur eru uppi nú hvað varðar verðbréfaviðskipti en þegar lögin voru upphaflega sett á árinu 1921. Íslensk fjármálafyrirtæki starfa nú í alþjóðlegu umhverfi og afar mikilvægt er að þau sæti ekki sérstökum samkeppnishindrunum sem gera þeim ókleift að þjóna fyrirtækjum á íslenskum markaði jafnvel og erlendir keppninautar. Hérlend fyrirtæki hafa á undanförnum árum leitað í auknum mæli til annarra landa við lántökur, meðal annars vegna stimpilgjalda.

Stimpilgjaldaformið getur leitt til tvísköttunar og jafnvel margsköttunar, t.d. þegar verið er að endurfjármagna eldri lán. Slíkt gjald hleðst upp í viðskiptaferlinu og torveldar uppbyggingu virks verðbréfamarkaðar hérlendis. Þess konar tvísköttun eða margsköttun var einmitt ein meginröksemdin fyrir afnámi söluskatts á Íslandi árið 1988.

Stimpilgjald á verðbréf bitnar mun harðar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum en þeim stærri, þar sem síðastnefndu fyrirtækin leita í auknum mæli til útlanda eftir lántökum vegna betri lánskjara þar. Möguleiki erlendra samkeppnisaðila til að bjóða betri kjör er augljóslega meiri þegar engin stimpilgjöld bætast við lántökukostnaðinn.

Hlutfall stimpilgjalda af heildarskatttekjum ríkissjóðs hefur farið lækkandi á síðustu árum. Þannig nam þetta hlutfall 1,5% á síðasta ári og hefur lækkað um eitt prósentustig frá árinu 1990  þegar það nam 2,5%.1 Skýringarinnar má m.a. leita í meiri veltu í þjóðfélaginu og því hafa tekjur ríkissjóðs af öðrum sköttum hækkað hlutfallslega meira.

Samtök atvinnulífsins leggja til að stimpilgjöldin verði afnumin, enda um úreltan skattstofn að ræða og alvarlega samkeppnishindrun hvað snertir útgáfu og viðskipti með viðskiptabréf.


 

______________________________

1  Við slíkan samanburð þarf að hafa í huga að þann 1. janúar 1998 tóku gildi lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, en frá þeim tíma var ársreikningur ríkisins gerður upp á rekstrargrunni. Tölur fyrir árið 2000 eru ekki endanlegar, en árið 1999 nam hlutfallið 1,6%.

Samtök atvinnulífsins