Efnahagsmál - 

31. desember 2008

Afleitar aðstæður en von um bjartari tíð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Afleitar aðstæður en von um bjartari tíð

Eins og vænta mátti staðfestir ársfjórðungsleg könnun meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og framtíðarhorfum að aðstæður í efnahagslífinu eru afleitar og verri en áður hefur komið fram í sambærilegum könnunum. Könnunin fór fram 24. nóvember til 2. desember 2008. Stjórnendur 99% fyrirtækja sem svöruðu könnuninni töldu að aðstæður í efnahagslífinu væru þá mjög (73%) eða frekar (26%) slæmar og einungis um 1% álitu aðstæður hvorki góðar né slæmar. Ekkert fyrirtæki taldi aðstæður vera góðar. Í öllum atvinnugreinum kemur hins vegar fram jákvæðara mat þegar litið er sex mánuði fram í tímann, en um fjórðungur fyrirtækjanna telur að aðstæður verði þá nokkuð betri, jafnvel þótt röskur meirihluti (54%) telji að þær verði verri. Um 96% fyrirtækjanna telja framboð á starfsfólki nú vera nægjanlegt.

Eins og vænta mátti staðfestir ársfjórðungsleg könnun meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og framtíðarhorfum að aðstæður í efnahagslífinu eru afleitar og verri en áður hefur komið fram í sambærilegum könnunum. Könnunin fór fram 24. nóvember til 2. desember 2008. Stjórnendur 99% fyrirtækja sem svöruðu könnuninni töldu að aðstæður í efnahagslífinu væru þá mjög (73%) eða frekar (26%) slæmar og einungis um 1% álitu aðstæður hvorki góðar né slæmar. Ekkert fyrirtæki taldi aðstæður vera góðar. Í öllum atvinnugreinum kemur hins vegar fram jákvæðara mat þegar litið er sex mánuði fram í tímann, en um fjórðungur fyrirtækjanna telur að aðstæður verði þá nokkuð betri, jafnvel þótt röskur meirihluti (54%) telji að þær verði verri. Um 96% fyrirtækjanna telja framboð á starfsfólki nú vera nægjanlegt.

Aðstæður í efnahagslífinu

Niðurstöður úr könnuninni má draga saman í vísitölu efnahagslífsins*, sem sýnir mat fyrirtækja á núverandi efnahagsástandi og horfum eftir sex mánuði. Til samanburðar eru á eftirfarandi mynd sýndar niðurstöður um sama efni úr fyrri könnunum. Lægsta gildi vísitölunnar er 0, þegar allir telja aðstæður verri en hæst 200, þegar allir telja þær betri. Jafnvægi er við gildið 100, þegar jafn margir telja aðstæður betri og þeir sem telja þær verri.

Myndin sýnir að aðstæður í efnahagslífinu hafa farið versnandi raunar allt frá haustinu 2007 og sérstaklega frá því í mars 2008. Samkvæmt framangreindri mælingaraðferð hafði vísitala efnahagslífsins miðað við núverandi aðstæður þegar lækkað niður í 4 í júní 2008. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins í haust mælist þessi vísitala í könnuninni að þessu sinni í lægsta mögulega gildi eða 0. Eru ekki dæmi um svo óhagstæða niðurstöðu í fyrri könnunum um sama efni, en sambærilegar upplýsingar liggja fyrir allt frá september 2002.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu


Þar sem mat á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu í heild er í sögulegu lágmarki, kemur ekki á óvart að lítil munur er á þessu mati þegar horft er til skiptingar eftir atvinnugreinum, eins og eftirfarandi mynd sýnir.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu


Á hinn bóginn eru aðstæður sem fyrr sagði ekki að öllu leyti álitnar jafn slæmar þegar horft er sex mánuði fram í tímann, þar sem um fjórðungur fyrirtækjanna telja að aðstæður verði þá betri en nú enda þótt röskur meirihluti (54%) telji að þær verði verri. Vísitala efnahagslífsins þegar horft er sex mánuði fram í tímann sýnir því áþekka niðurstöðu og undanfarin misseri og staðfestir að í sumum þátttökufyrirtækja er þess vænst að rofa muni til í rekstri næsta hálfa árið.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu


Myndin hér að framan sýnir að þegar litið er sex mánuði fram í tímann örlar á jákvæðum horfum í öllum atvinnugreinum. Útlitið er þó hvað best í sjávarútvegi og iðnaði, enda er líklegt að veik staða íslensku krónunnar muni áfram örva tekjustreymi útflutningsgreina þótt hún leggist jafnframt þungt á greiðslubyrði þeirra fyrirtækja sem hvað mest eru skuldsett í erlendum gjaldmiðlum.

Staða og horfur á vinnumarkaði

Í niðurstöðu könnunarinnar birtist að sjálfsögðu sú gjörbreytta staða sem orðið hefur á íslenskum vinnumarkaði undanfarna mánuði, sérstaklega í kjölfar hruns fjármálakerfisins í októbermánuði. Einungis hjá um 4% þeirra fyrirtækja sem svöruðu könnuninni er að finna skort á vinnuafli en hjá um 96% fyrirtækjanna var framboð vinnuafls nægjanlegt eða meir en það. Staðan er áþekk á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Það er einkum í þjónustustarfsemi sem ennþá er að finna skort á starfsfólki. Í samsvarandi könnun fyrir ári síðan taldi um 42% fyrirtækjanna sig skorta starfsfólk.

Ráðningaráform á næstu sex mánuðum eru jafnframt í sögulegu lágmarki. Einungis tæplega 8% fyrirtækjanna ráðgera fjölgun starfsfólks næstu sex mánuði, um 39% telja að starfsmannafjöldi muni verða óbreyttur, en röskur helmingur (53%) telja að starfsmönnum muni fækka. Það er einkum í sjávarútvegi sem búist er við að starfsmönnum muni fjölga, en 28% fyrirtækja þar ráðgera að fjölga starfsfólki og önnur fyrirtæki í atvinnugreininni búast við óbreyttum starfsmannafjölda.

Fróðlegt er að skoða þróun vinnumarkaðarins undanfarin sex ár eða svo eins og fram kemur í ráðningaráformum fyrir næstu sex mánuði í könnunum frá september 2002 til desember 2008.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu


Myndir sýnir með skýrum hætti þá breytingu sem orðið hefur á vinnumarkaði undanfarið ár. Áform um ráðningar næstu sex mánuði hafa dregist saman um leið og fyrirtæki hafa í vaxandi mæli þurft að fækka í starfsliði sínu, en sem fyrr sagði blasir slík staða nú við röskum helmingi þátttökufyrirtækja. Ætla má þó að staðan væri ennþá verri ef ekki hefði komið til þess að í miklum mæli hefur verið dregið úr vinnu með því að fella niður yfirvinnu og/eða með samningum um lækkað starfshlutfall.

Innlend eftirspurn næstu sex mánuði

Um 56% fyrirtækja í könnuninni telja að innlend eftirspurn muni minnka nokkuð (36%) eða mikið (20%) á næstu sex mánuðum, um 31% búast við óbreyttri eftirspurn en einungis um 13% búast við nokkurri aukningu eftirspurnar. Bjartsýni um þróun innlendrar eftirspurnar hefur farið minnkandi undanfarið ár, rétt eins og mat á aðstæðum í efnahagslífinu.

Væntingar um þróun innlendrar eftirspurnar á næstu sex mánuðum er almennt neikvæð í öllum atvinnugreinum eins og eftirfarandi mynd sýnir, en bjartsýni gætir einkum í ýmissi þjónustustarfsemi ásamt samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu


Erlend eftirspurn næstu sex mánuði

Horfur um eftirspurn í útflutningsstarfsemi eru mun jákvæðari en á innanlandsmarkaði. Telur um 41% þátttakenda að eftirspurn á erlendum mörkuðum muni aukast nokkuð (40%) eða mikið (1%) á næstu sex mánuðum, um 34% telur eftirspurn verða óbreytta, en um 25% vænta samdráttar.

Athygli vekur að bjartsýni um þróun erlendrar eftirspurnar birtist einkum í ýmissi sérhæfðri þjónustu, þar sem um 73% búast við aukinni eftirspurn, en í sjávarútvegi og iðnaði er vart hægt að tala um bjartar horfur, sbr. eftirfarandi mynd.  

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu


EBITDA-framlegð

Í könnuninni er spurt um breytingar á EBITDA-framlegð (þ.e. hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) undanfarna sex mánuði og líklegar breytingar næstu sex mánuði. Þegar litið er til atvinnulífsins í heild er niðurstaðan lakari en í fyrri könnunum. Er EBITDA-framlegð talin hafa aukist síðustu 6 mánuði hjá um 29% fyrirtækjanna, staðan er óbreytt hjá um 26%, en verri útkoma var hjá um 44% fyrirtækjanna.

Eins og eftirfarandi mynd sýnir er staðan þó talsvert breytileg eftir atvinnugreinum og var útkoman langhagstæðust í sjávarútvegi, þar sem framlegð jókst hjá um 79% fyrirtækjanna en var óbreytt hjá um 21%.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Þegar spurt er um líklegar breytingar á framlegð sex mánuði fram í tímann er staðan mun lakari. Telja um 70% fyrirtækjanna að framlegð muni þá minnka, um 18% búast við óbreyttri framlegð en aðeins um 12% búast við aukningu. Breytileiki eftir atvinnugreinum er tiltölulega lítill, en horfur eru þó skárstar í sjávarútvegi, eins og eftirfarandi mynd sýnir.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Verðbólguspá

Stjórnendur fyrirtækjanna voru beðnir að spá fyrir um hækkun vísitölu neysluverðs á næstu 12 mánuðum. Vekur athygli að verðbólguvæntingar stjórnenda hafa snarhækkað miðað við niðurstöður samsvarandi kannana undanfarin misseri. Er niðurstaðan að þessu sinni sú að spáð er 16,4% verðbólgu næstu 12 mánuði, en í könnun í október sl. var spáð 6,1% verðbólgu og 7,2% í júní. Ljóst er að gengi íslensku krónunnar mun ráða hvað mestu um verðbólguþróun á næstunni. Minnt skal á að könnunin fór fram dagana 24. nóvember til 2. desember, en takmörkuð fleyting krónunnar hófst 4. desember. Á könnunartímabilinu var gengi krónunnar í sögulegu lágmarki, sbr. meðfylgjandi mynd, og má telja líklegt að það hafi haft áhrif á verðbólguvæntingar stjórnenda fyrirtækja.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með um 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 24. nóvember til 2. desember 2008 og var hún með einfaldara sniði með 9 spurningum. Í upphaflegu úrtaki voru 500 stærstu fyrirtæki landsins miðað við heildarlaun, en í endanlegu úrtaki voru 445 fyrirtæki. Svarhlutfall var 49,7%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðila að könnuninni á niðurstöðum hennar.

Skýrsla Capacent Gallup um niðurstöðu könnunarinnar

Samtök atvinnulífsins