Afkomuvæntingar svipaðar milli ára
Afkomuvæntingar fyrirtækja eru mjög svipaðar og fyrir ári síðan, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja. Rúmur helmingur reiknar með svipaðri afkomu á næstu mánuðum, eða 56% samanborið við 52% fyrir ári síðan. 29% reikna nú með batnandi afkomu, miðað við 30% fyrir ári síðan. 12% reikna með versnandi afkomu, miðað við 16% fyrir ári síðan. 3% taka ekki afstöðu, líkt og 2% fyrir ári síðan.
Bjartsýni meðal verktaka
Mikil bjartsýni ríkir meðal rafverktaka og einnig virðist talsverð
bjartsýni ríkjandi í iðnaði, ferðaþjónustu og í verslun og
þjónustu. 47% rafverktaka (SART) reikna með batnandi afkomu en
einungis 4% þeirra reikna með að hún fari versnandi. 32%
iðnfyrirtækja (SI) reikna með batnandi afkomu en 10% telja hana
muni versna. 29% ferðaþjónustufyrirtækja (SAF) telja afkomu sína
fara batnandi á næstu mánuðum en 10% telja hana munu versna. Loks
telja 25% fyrirtækja í verslun og þjónustu að afkoma þeirra muni
fara batnandi, en 9% þeirra telja að hún muni versna.
Slæmar horfur í sjávarútvegi
Líkt og fyrir ári síðan eru það hins vegar
sjávarútvegsfyrirtækin sem skera sig úr hvað varðar slæmar
afkomuvæntingar. 27% útgerðarfyrirtækja (LÍÚ) reikna nú með
versnandi afkomu en 12% reikna með að hún batni. 23%
fiskvinnslufyrirtækja (SF) reikna einnig með versnandi afkomu en
17% þeirra telja að hún muni batna. Loks reikna 22%
fjármálafyrirtækja (SFF) með versnandi afkomu á meðan 17% þeirra
telja að hún muni batna.
Minni bjartsýni á landsbyggðinni
Talsverður munur er á svörum fyrirtækja eftir starfssvæði
og virðast fyrirtæki á landsbyggðinni síður reikna með batnandi
afkomu en fyrirtæki sem eru með starfssvæði á höfuðborgarsvæðinu
eða landinu öllu, samanber eftirfarandi töflu.
Starfssvæði |
Batnandi |
Versnandi |
Höfuðborgarsvæðið |
30% |
9% |
Landsbyggðin |
23% |
17% |
Landið allt |
36% |
8% |
Stærstu fyrirtækin ekki bjartsýn
Ekki var teljandi munur á svörum fyrirtækja eftir stærð
þeirra, utan að allra stærstu fyrirtækin (með fleiri en 200
starfsmenn) virðast einna síst reikna með batnandi afkomu á næstu
mánuðum, eða einungis 12% á meðan 15% þeirra reikna með versnandi
afkomu.
Hátt gengi krónunnar
Niðurstöður könnunarinnar endurspegla að hluta til sterka stöðu
íslensku krónunnar og hækkun raungengis krónunnar, þ.e. hækkun
kostnaðar innlendra fyrirtæki umfram erlenda keppinauta og lækkun
tekna útflutningsfyrirtækja. Þannig veldur gengishækkun krónunnar
því að afkomuhorfur fyrirtækja í erlendri samkeppni fara versnandi
á sama tíma og afkoma batnar hjá fyrirtækjum þar sem erlend
samkeppni er ekki fyrir hendi og vöxtur innlendrar eftirspurnar
hefur afgerandi þýðingu.
Um könnunina
Könnunin var gerð í nóvember. Spurningar voru sendar til 847
aðildarfyrirtækja SA og svör bárust frá 465, eða 55%.