Efnahagsmál - 

06. nóvember 2003

Afkomuvæntingar fyrirtækja óbreyttar milli ára

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Afkomuvæntingar fyrirtækja óbreyttar milli ára

Afkomuvæntingar fyrirtækja eru nánast óbreyttar frá því fyrir ári síðan, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja. Rúmur helmingur reiknar með svipaðri afkomu á næstu mánuðum, eða 52%, samanborið við 55% fyrir ári síðan. 30% fyrirtækja reikna með batnandi afkomu, miðað við 28% á sama tíma fyrir ári. 16% fyrirtækja reikna með versnandi afkomu, miðað við 14% fyrir ári síðan. 2% taka ekki afstöðu, miðað við 3% fyrir ári síðan.

Afkomuvæntingar fyrirtækja eru nánast óbreyttar frá því fyrir ári síðan, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja. Rúmur helmingur reiknar með svipaðri afkomu á næstu mánuðum, eða 52%, samanborið við 55% fyrir ári síðan. 30% fyrirtækja reikna með batnandi afkomu, miðað við 28% á sama tíma fyrir ári. 16% fyrirtækja reikna með versnandi afkomu, miðað við 14% fyrir ári síðan. 2% taka ekki afstöðu, miðað við 3% fyrir ári síðan.

(Smellið á myndina)

Slæmar horfur í sjávarútvegi
Líkt og fyrir ári síðan eru það sjávarútvegsfyrirtækin sem skera sig úr hvað varðar slæmar afkomuvæntingar. 44% útgerðarfyrirtækja (LÍÚ) reikna nú með versnandi afkomu en einungis 13% reikna með að hún batni. Í fiskvinnslu (SF) reikna 28% fyrirtækja með versnandi afkomu en 19% með að hún fari batnandi.

(Smellið á myndina)

Meiri bjartsýni ríkir í verslun og þjónustu (SVÞ), ferðaþjónustu (SAF), iðnaði (SI), fjármálastarfsemi (SFF) og meðal rafverktaka (SART), þar sem 27-33% fyrirtækja reikna með batnandi afkomu en 8-20% með að hún fari versnandi. Meðal iðnfyrirtækja og rafverktaka eru afkomuvæntingarnar ívið bjartari en fyrir ári síðan. Í hinum greinunum gætir minni bjartsýni en fyrir ári síðan, einkum í ferðaþjónustu þar sem 42% reiknuðu með batnandi afkomu fyrir ári síðan á móti 32% nú, og einungis 8% reiknuðu með versnandi afkomu á móti 20% nú. Þannig virðast afkomuvæntingar í það heila tekið verri hjá þeim fyrirtækjum sem eru í beinni samkeppni á erlendum mörkuðum.

Stærstu fyrirtækin bjartsýnni
Nokkur munur er á svörum fyrirtækja eftir stærð þeirra í fjölda starfsfólks talið. Ef skoðuð eru fyrirtæki með færri en 40 starfsmenn reikna að meðaltali um 27% með batnandi afkomu, en um 34% að meðaltali ef skoðuð eru fyrirtæki með 40 starfsmenn eða fleiri. Að vísu reiknar líka hærra hlutfall stærri fyrirtækjanna með versnandi afkomu, eða um 19% á móti um 16% þeirra smærri. Stærri fyrirtækin taka þannig fremur afstöðu, en almennt virðast þau ívið bjartsýnni en þau smærri. Þetta skýrir e.t.v. muninn á þessari niðurstöðu og niðurstöðu nýlegrar könnunar IMG fyrir fjármálaráðuneytið og Seðlabankann, en þar mælist mun minni bjartsýni fyrirtækja í september í ár en í september í fyrra. Könnun IMG nær einungis til 400 veltuhæstu fyrirtækja landsins, á meðan könnun SA nær til fyrirtækja af öllum stærðum.

Minni bjartsýni á landsbyggðinni
Meiri munur er á fyrirtækjum eftir því hvort starfssvæði þeirra er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni, þótt sú mæling tengist trúlega hinni (stærð fyrirtækja). Þannig reikna 35% fyrirtækja með starfssvæði á höfuðborgarsvæðinu eða landinu öllu með batnandi afkomu, en 13% með versnandi, á meðan 21% fyrirtækja á landsbyggðinni reiknar með batnandi afkomu en 20% að hún fari versnandi.

Um könnunina
Könnunin var gerð í október 2003. Spurningar voru sendar 955 fyrirtækjum og svör bárust frá 534, eða 56%.
 

Samtök atvinnulífsins