Af þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO)
90. þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) var haldið í Genf dagana 3.-20. júní. Meðal umfjöllunarefna á þinginu voru barnavinna, þríhliða samvinna aðila vinnumarkaðar og ríkisstjórna, framkvæmd aðildarríkjanna á alþjóðasamþykktum ILO, skráning atvinnusjúkdóma og neðanjarðar hagkerfið sem er gífurlegt og vaxandi vandamál í þróunarríkjunum.
Átak ILO gegn barnavinnu
ILO telur að um 190 milljónir barna á aldrinum 5 -14 ára
stundi vinnu sem þurfi að afnema, þar með talið það sem nefnt hefur
verið versta tegund barnavinnu svo sem nauðungarvinna, vændi og
annar þrældómur sem veldur óbætanlegum skaða. Þessi börn geta því
ekki sótt skóla og búið sig undir lífið á eðlilegan hátt. Vandanum
er lýst ítarlega í nýrri skýrslu ILO, Framtíð án barnavinnu (A
future without child labour) sem er liður í að fylgja eftir
yfirlýsingu ILO um grundvallar viðmið og réttindi við vinnu.
Sérstök umræða var á þinginu um þetta átak ILO.
Sjá skýrsluna á vef ILO.
Skoðanaskipti ríkisstjórna og aðila
vinnumarkaðarins
Sérstaða ILO er fólgin í samvinnu ríkisstjórna,
vinnuveitenda og launþega, en þessir aðilar eiga allir fulltrúa og
atkvæðisrétt á þingi og í stjórn ILO, sem er eins og kunnugt er ein
af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Í ályktun sem samþykkt var á
þinginu, og byggði á tillögu vinnuveitenda, er fjallað um þríhliða
samvinnu og skoðanaskipti þessara aðila á félagsmálasviðinu. Þar er
m.a. vísað til þeirra margháttuðu viðfangsefna og tækifæra sem
atvinnulíf heimsins stendur frammi fyrir í ljósi hnattvæðingarinnar
og mikilvægis þess að styrkja samskipti aðila vinnumarkaðarins og
stjórnvalda til að ná farsælum lausnum bæði í aðildarríkjunum og á
alþjóðavettvangi og þá ekki síst innan ILO. Jafnframt er minnt er á
að hvatinn að stofnun ILO á fyrrgreindum þríhliða grundvelli árið
1919 var að stuðla að varanlegum friði í heiminum.
Framkvæmd alþjóðasamþykkta ILO
Umfjöllun um framkvæmd aðildarríkja ILO á þeim samþykktum
stofnunarinnar sem þau hafa fullgilt og meint brot einstakra ríkja
er fastur liður á dagskrá ILO þingins. Sum þessara brota
verða að teljast mjög alvarleg. Réttur launþega og vinnuveitenda
til að stofna félög er langt í frá virtur alls staðar. Dæmi
eru jafnvel um að fulltrúar slíkra samtaka séu myrtir eins og er að
gerast í Bolivíu. Þá voru brot Myanmar gegn nauðungarvinnusamþykkt
ILO til umfjöllunar þar sem þarlend stjórnvöld hafa enn ekki
afnumið þá framkvæmd að beita nauðungarvinnu við byggingu
járnbrauta og aðrar framkvæmdir, þrátt fyrir að þing ILO hafi
ítrekað fordæmt það fyrirkomulag. Málin sem berast stofnuninni
eru þannig ólík að eðli, en ASÍ mun hafa kært
lagasetninguna á sjö vikna verkfall sjómanna vorið 2001 til ILO.
Það mál er ekki komið til umfjöllunar.
Í almennri umræðu um félagafrelsissamþykktir ILO var m.a. komið inn á það hvort verkfallsréttur stéttarfélaga nyti verndar en um það er ekki sátt innan þeirrar nefndar ILO sem fjallar um þessi mál á þinginu. Bentu vinnuveitendur í því sambandi á orðalag samþykktanna fæli það ekki í sér og að endanlega túlkun þeirra ætti undir Haagdómstólinn.
Skráning atvinnusjúkdóma
Í lok þingsins var samþykkt bókun um skráningu vinnuslysa og
atvinnusjúkdóma sem er viðbót við samþykkt ILO frá 1981 um
vinnuvernd. Ágreiningur var um það fyrirkomulag en samþykktin þykir
gölluð og hefur því aðeins verið fullgilt af 37 ríkjum. Flestir
fulltrúar vinnuveitenda, þar á meðal fulltrúi SA, sátu því hjá við
atkvæðagreiðsluna þótt þeir væru í meginatriðum sáttir við efni
bókunarinnar.
Þingið samþykkti einnig tillögu varðandi lista um atvinnusjúkdóma. Samkvæmt tillögunni, sem ekki er lagalega bindandi, er gert ráð fyrir að aðildarríkin geri á þeim grundvelli skrá yfir atvinnusjúkdóma og einnig að því marki sem mögulegt er sjúkdóma sem grunur leikur á að geti verið atvinnusjúkdómar. Gert er ráð fyrir að ILO listinn verði endurskoðaður reglulega af hópi sérfræðinga og að fulltrúar vinnuveitenda og launþega eigi aðild að þeirri vinnu.
Tillaga um samvinnufélög
Þá samþykkti ILO þingið tillögu sem ætlað er að stuðla að viðgangi
og stofnun samvinnufélaga og á það ekki síst við í þróunarlöndum
þar sem þetta félagaform er víða talið geta hentað vel.
Neðanjarðar hagkerfið
Sérstök umræða var um neðanjarðar hagkerfið (the informal economi).
Rætt var um leiðir til breytinga en umfang óskráðra viðskipta mun
hafa aukist mjög á undanförnum árum í þróunarlöndunum með
tilheyrandi afleiðingum varðandi menntun, heilsugæslu og aðra
samfélagsþjónustu. Það er liður í átaki ILO sem miðar að því að
fólk eigi kost á mannsæmandi vinnu að snúa þessari þróun við.
Staða launþega á hernumdum svæðum araba
Þá var í sambandi við þingið birt skýrsla um stöðu
launþega á hernumdum svæðum araba en öll sú umræða var mjög
viðkvæm.
Sjá nánar um þingið á vef ILO.
Frekari upplýsingar: Hrafnhildur
Stefánsdóttir.