Samkeppnishæfni - 

13. Júlí 2005

Af Kyoto-markmiðum og G8 fundinum í Gleneagles

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Af Kyoto-markmiðum og G8 fundinum í Gleneagles

Nánast öll þjóðríki heims eiga aðild að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og hafa á undanförnum vikum verið að skila skýrslum um útblástur gróðurhúsalofttegunda á árinu 2003. Í síðustu viku kom fram að dregið hefur úr losun á Íslandi frá árinu 1990 og að hún er töluvert undir þeim almennu losunarheimildum sem Íslendingar fengu samkvæmt Kyoto-bókuninni við loftslagssamninginn.

Nánast öll þjóðríki heims eiga aðild að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og hafa á undanförnum vikum verið að skila skýrslum um útblástur gróðurhúsalofttegunda á árinu 2003. Í síðustu viku kom fram að dregið hefur úr losun á Íslandi frá árinu 1990 og að hún er töluvert undir þeim almennu losunarheimildum sem Íslendingar fengu samkvæmt Kyoto-bókuninni við loftslagssamninginn.

Hvernig gengur að ná Kyoto-markmiðunum?

Með Kyoto-bókuninni var vestrænum þjóðum sett markmið um hve mikið þær takmarka losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2012 miðað við grunnárið 1990. Mjög margar þjóðir hafa síðan staðfest bókunina og þann ásetning sinn að ná þeim markmiðum sem sett voru. Evrópusambandinu er ætlað að draga úr losun í heild um 8% og sá sambandið svo um að skipta heimildum á milli aðildarríkjanna (sem voru 15) og þannig er ætlast til að Þýskaland dragi úr losun um 21% en Portúgal má auka losunina um 27% svo dæmi séu nefnd.

Bandaríkin eru ekki aðildarríki Kyoto-bókunarinnar en gert var ráð fyrir því að þau myndu draga úr losun um 7%. Íslendingar mega auka losun sína um 10% á tímabilinu og fara úr 3,3 milljónum tonna á ári í 3,6 milljónir tonna.

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá hvernig 20 vestrænum ríkjum gengur að uppfylla Kyoto-markmiðin.

Smellið á myndina:

Af þessum ríkjum eru einungis fimm sem nú liggja undir markmiðunum. Ísland er 16% undir markmiðum sínum og þannig í bestri stöðu eins og er. Aðrar þjóðir sem standa vel eru Bretar, Frakkar, Grikkir og Svíar. Margar þjóðir eru langt frá því að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið og Danmörk, Austurríki og Kanada losa meira en 30% umfram Kyoto-markmiðin og Luxemborg, Finnland, Bandaríkin og Spánn meira en 20%. Á árinu 2003 jókst útblástur í öllum þessum ríkjum nema þremur þ.e. á Íslandi, Írlandi og í Portúgal. Athygli vekur að að aukningin á árinu 2003 er hlutfallslega meiri í Evrópusambandinu (1,3%) en í Bandaríkjunum (0,6%).

Þess ber að geta að enn eru nokkur ár til stefnu og auk þess að grípa til aðgerða innanlands geta ríkin náð til sín losunarheimildum með því að nýta svokölluð sveigjanleikaákvæði í Kyoto-bókuninni. Bandaríkin eru ekki aðilar að Kyoto-bókuninni og hafa í stað þess sett sér markmið um að draga úr losun í hlutfalli af landsframleiðslu þannig að hagvexti fylgi ekki sjálfkrafa aukin losun gróðurhúsalofttegunda. Almennt er þó talið að Kyoto-bókunin hafi lítið gildi í sjálfu sér jafnvel þótt allar þjóðir nái að uppfylla ákvæði hennar og að áhrifin af því að standa við bókunina hafi takmörkuð áhrif á hlýnun loftslags.

Tímamótafundur í Gleneagles
Í síðustu viku hittust átta æðstu menn helstu iðnríkja heims í Gleneagles í Skotlandi og sendu meðal annars frá sér ályktun um loftslagsmál og losun gróðurhúslofttegunda. Yfirlýsingin er merkileg fyrir margra hluta sakir en ekki síst vegna þess að þar er vörðuð sú sameiginlega leið sem þessi ríki vilja fara til að draga smám saman úr losun gróðurhúsalofttegunda þegar til lengri tíma er litið. Þar er viðurkennt að einungis með því að þessi ríki vinni saman og með því að fá til liðs þær þjóðir þar sem hagkerfin eru í örustum vexti sé unnt draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda þegar til lengri tíma er litið. Ekki er rætt um að setja þak á útblástur einstakra ríkja heldur fyrst og fremst horft til tækniþróunar, aðlögunar að breytingum og að tengja saman markmið um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, og draga úr mengun samtímis því sem gert sé umfangsmikið átak til að draga úr fátækt í heiminum. Á næstu árum verði að fjárfesta í orkukerfi heimsins fyrir gríðarlega háar fjárhæðir og því liggi mikil tækifæri til að þróa hreina orkutækni og bæta nýtingu orkunnar. Þess vegna verði meðal annars lögð áhersla á tækniþróun og nýsköpun, orkunýtingu og orkusparnað. Auk þess sé mikilvægt að vinna með þróunarríkjum til að hvetja til aukinna fjárfestinga einkaaðila og yfirfærslu tækni og tækniþekkingar. Því var jafnfram lýst yfir að þessi mál verði áfram í forgrunni í samstarfi þessara ríkja á næstu árum.  

Staðan á Íslandi.
Eins og kemur fram í meðfylgjandi töflu hefur dregið úr almennri losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi að undanförnu eftir að ákveðnu hámarki var náð árið 1999. Frá því ári hefur að frátöldum samgöngum dregið úr losun á öllum sviðum þ.e. sjávarútvegi, iðnaði og byggingarstarfsemi, landbúnaði og úrgangi. Á mörgum sviðum standa Íslendingar framarlega í tækniþróun á þessu sviði s.s. við nýtingu orkulinda, hagkvæmari nýtingu orku við veiðar og siglingar og úrbætur í iðnaðarferlum auk þess sem nýting vetnis sem orkubera hér á landi hefur vakið mikla athygli. Á næstu árum og áratugum er mikilvægt að halda áfram á þessari braut. Auk þess liggja töluverð tækifæri í því að nýta orkulindir hér til að framleiða afurðir sem annars væru framleiddar með mun meiri mengun annars staðar.  

<"o" ns="urn:schemas-microsoft-com:office:office" />

Samtök atvinnulífsins