24. nóvember 2025

Af hverju þarf Samkeppniseftirlitið að komast heim til mín?

Lilja Hrund Lúðvíksdóttir

1 MIN

Af hverju þarf Samkeppniseftirlitið að komast heim til mín?

Það verður seint sagt að eftirlit með íslenskri samkeppnislöggjöf skorti eða að tilefni sé til að auka við slíkt eftirlit. Að þörf sé á að þyngja enn frekar regluverk sem nú þegar er þungt í vöfum og færa Samkeppniseftirlitinu nýjar valdheimildir sem það hefur ekki í dag.

Skýrar og einfaldar samkeppnisreglur skipta sköpum fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækja og bæta þannig hagsmuni neytenda. Það skiptir því öllu máli að vel sé staðið að breytingum á samkeppnislöggjöfinni, að slíkar breytingar séu vel ígrundaðar og unnar í samráði við atvinnulífið. Að sama skapi skiptir máli að slíkar breytingar séu ekki lagðar fram eftir pöntun opinberra eftirlitsstofnana, að stofnanir geti ekki óskað eftir íþyngjandi valdheimildum eftir hentisemi eða með vísan í löggjöf annarra ríkja svona af því bara.

Því miður eru of mörg dæmi þess að ófyrirsjáanlegt samkeppniseftirlit hafi haft hamlandi áhrif á eðlilegan vöxt og fjárfestingu í hagkerfinu. Á Íslandi eru veltumörk tilkynningarskyldra samruna mun lægri en á hinum Norðurlöndunum, mun hærra hlutfall samrunamála fer í fasa II hjá Samkeppniseftirlitinu en annarsstaðar og um fimmfalt fleiri málum lýkur með íhlutun á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd. Í ljósi þessa vekur það upp ákveðnar spurningar að í frumvarpsdrögum atvinnuvegaráðherra til breytinga á samkeppnislögum sem birtust á samráðsgátt stjórnvalda í síðasta mánuði séu auknar valdheimildir Samkeppniseftirlitsins jafn fyrirferðarmiklar og raun ber vitni.

Á meðal þeirra breytinga sem fram koma í umræddu frumvarpi er heimild Samkeppniseftirlitsins til stöðvunar tímafresta, svokölluð stop-the-clock heimild, sem felur í sér að Samkeppniseftirlitinu sé í undantekningartilvikum heimilt að stöðva tímafresti vegna rannsóknar á samruna vegna atvika sem eru á ábyrgð samrunaaðila og tefja rannsókn. Fyrirhuguð lögfesting þessa ákvæðis er fyrst og fremst studd þeim rökum í greinargerð með frumvarpinu að heimild til stöðvunar tímafresta sé að finna í löggjöf nágrannaríkja okkar. Því virðist ekki gefinn mikinn gaumur að þar sé heimildin ekki jafn víðtæk og ekki er gerð nokkur tilraun til þess að sýna fram á að þörf sé fyrir slíku ákvæði í íslenskri löggjöf, burtséð frá löggjöf annarra landa.

Í frumvarpinu er jafnframt að finna ákvæði um heimild Samkeppniseftirlitsins til athugana utan starfsstöðva, svo sem á heimili stjórnenda eða lykilstarfsmanna. Umrædd heimild er aftur studd þeim rökum að Samkeppniseftirlitið njóti veikari rannsóknarheimilda en samkeppnisyfirvöld í öðrum EES-ríkjum. Ekki er minnst á það að umrædd heimild í öðrum EES-ríkjum er að jafnaði afmörkuð við tiltekin brot og ekkert virðist benda til þess að nokkur þörf sé á þessari heimild Samkeppniseftirlitsins sem getur falið í sér verulegt inngrip í friðhelgi einkalífs.

Ríkisstjórnin hefur sagst ætla gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja og atvinnulífs. Það skýtur því skökku við að lögfesta eigi ákvæði um íþyngjandi valdheimildir opinberrar eftirlitsstofnunar með þeim rökum einum að opinberar eftirlitsstofnanir í öðrum ríkjum njóti slíkra heimilda. Það skerðir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs þegar íslensk fyrirtæki búa við verri skilyrði en fyrirtæki í öðrum ríkjum, t.d. vegna ítrekaðrar gullhúðunar EES-reglna. Það hlýtur aftur á móti að vera fagnaðarefni þegar tiltekin skilyrði hér á landi eru betri eða minna íþyngjandi en annarsstaðar, sér í lagi þegar íslensk samkeppnislöggjöf hefur þegar að geyma íþyngjandi ákvæði sem ekki fyrirfinnast í löggjöfum annarra ríkja og eftirlit með lögunum er jafnvel orðið það lýjandi að fyrirtæki veigri sér við að ráðast í lögmætar og hagkvæmar sameiningar.

Það er í öllu falli lágmarkskrafa, þegar opinberum eftirlitsstofnunum eru veittar valdheimildir sem geta takmarkað stjórnarskrárvarin mannréttindi almennra borgara, að þörfin fyrir slíkum heimildum sé skýr, vel rökstudd og liggi á annað borð fyrir. Það hlýtur því að vera tilefni til að endurskoða lögfestingu lagaákvæða sem getað takmarkað friðhelgi einkalífs á þeim forsendum einum að sambærileg ákvæði sé að finna í löggjöf nágrannaríkja okkar.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.

Lilja Hrund Lúðvíksdóttir

Lögfræðingur á málefnasviði Samtaka atvinnulífsins