Af erlendu starfsfólki og svartri atvinnustarfsemi

Evrópusambandið áformar að lýsa 2006 ár hreyfanleika á vinnumarkaði. Tilgangurinn er að stuðla að því að fólk nýti sér betur tækifæri sameiginlega markaðarins og fari á milli landa og sæki atvinnu þar sem hún býðst. Þannig hyggst framkvæmdastjórnin stuðla að skilvirkari vinnumarkaði og auknum hagvexti á svæðinu, og þar með bættum lífskjörum. Hér á landi hefur umræðan um hreyfanleika á vinnumarkaði hins vegar verið mjög villandi þar sem iðulega er ruglað saman þeim hreyfanleika sem er einn af grunnþáttum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, og erlendu starfsfólki sem starfar hér með ólöglegum hætti. Gera verður skýran greinarmun á þessu tvennu.

Frjálst flæði innan EES

Ríkisborgarar EES-ríkjanna eiga rétt á að fara á milli landa í atvinnuskyni, án þess að þurfa atvinnuleyfi. Enn sem komið er gildir það þó ekki um fólk frá nýju aðildarríkjunum, öðrum en Möltu og Kýpur. Fyrirtæki sem hafa staðfestu á svæðinu hafa einnig rétt á að fara á milli landa með starfsfólk sitt og taka þar að sér verkefni, þ.e. stunda þjónustuviðskipti. Bæði fyrirtæki og starfsfólk verða þó að fara að settum reglum og virða þær leikreglur sem gilda hér á landi.

Komi útlendingur til starfa hér á landi á vegum erlends fyrirtækis sem tekið hefur að sér verkefni fyrir fyrirtæki hér á landi skal hið innlenda fyrirtæki tilkynna Útlendingastofnun um það fyrir fram og tilgreina nafn hins erlenda vinnuveitanda. Útlendingastofnun skal á grundvelli slíkrar tilkynningar sjá til þess að hinu erlenda fyrirtæki verði gert viðvart um tilkynningarskyldu sína skv. reglugerð um útlendinga. Sama gildir um íslensk fyrirtæki sem ráða til sín útlendinga, það skal einnig tilkynna um þá til Útlendinga-stofnunar. Starfsfólkið á almennt að fá kennitölu. Hér á landi eru skýr lagaákvæði um að laun starfsmanna megi ekki vera lægri en kjarasamningar í viðkomandi starfsgrein ákveða. Á það jafnt við um erlent starfsfólk og aðra. Um réttarstöðu starfsfólks sem starfar tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, þar með talið starfsmannaleiga, gilda sérstök lög, sem tryggja þessu starfsfólki að farið skuli að íslenskum lögum varðandi lágmarkslaunakjör, aðbúnað og hollustuhætti, orlof og fleira er varðar starfskjör þess.

Ríkur aðgangur verkalýðshreyfingar

Þá hafa SA og ASÍ samið um aðgang trúnaðarmanna að upplýsingum um launakjör erlends starfsfólks. Svipuð ákvæði eru einnig í virkjunarsamningnum sem gildir um virkjunar-framkvæmdirnar við Kárahnjúka. Trúnaðamenn stéttarfélaga eiga því möguleika á að sannreyna að launagreiðslur hins erlenda starfsfólks séu í samræmi við kjarasamninga. Að þessu leyti er aðstaða íslenskrar verkalýðshreyfingar til að fylgjast með því að ekki sé brotið gegn kjarasamningum betri en almennt gerist í nágranna ríkjum okkar.

Um skattgreiðslur hins erlenda starfsfólks fer síðan eftir skattalögum og eftir atvikum tvísköttunarsamningum við viðkomandi ríki. Þetta er hinn löglegi farvegur þegar um er að ræða starfsfólk af hinu Evrópska efnahagssvæði. Um það gilda í öllum meginatriðum sömu reglur og um íslenskt starfsfólk. Það á sama rétt á að vera í stéttarfélögum og taka þátt í starfi þeirra og íslenskt starfsfólk. Eftirlitsheimildir stéttarfélaga og opinberra aðila eru þær sömu og að því er varðar Íslendinga. Þessi hreyfanleiki er afar mikilvægur við núverandi aðstæður þar sem allt það starfsfólk sem þarf til framkvæmda er ekki að finna hér á landi og því hætta á mikilli þenslu á vinnumarkaði.

Svört atvinnustarfsemi

Okkur berast hins vegar fréttir af því í blöðum að talið sé að hér séu hópar ólöglegra erlendra starfsmanna sem hafist við í kjöllurum, jafnvel hjólhýsum eða gámum, sé hvergi skráð og fái greitt langt undir lágmarkslaunum. Ef satt reynist er einfaldlega verið að lýsa því sem kallað er "svört atvinnu-starfsemi". Það er að sjálfsögðu með öllu óþolandi fyrir heiðarleg fyrirtæki að þurfa að keppa við aðila sem fara framhjá lögum og reglum, greiða laun undir því sem kveðið er á um í kjarasamningum og greiða jafnvel ekki skatta og skyldur. Slík starfsemi á engan rétt á sér og að hana ber að uppræta. Slík starfsemi má hins vegar ekki verða til þess að kasta rýrð á þá útlendinga sem hér starfa á eðlilegum forsendum og þá vinnuveitendur sem nýta sér krafta erlends starfsfólks eftir löglegum leiðum.

Hrafnhildur Stefánsdóttir