Efnahagsmál - 

25. október 2008

Aðkoma IMF jákvæð fyrir íslenskt atvinnulíf

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aðkoma IMF jákvæð fyrir íslenskt atvinnulíf

Fulltrúar atvinnulífsins telja að tilkynning stjórnvalda um aðstoðarbeiðni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) muni skapa aukið traust á íslensku efnahagslífi. Nú sé kominn nauðsynlegur stuðningur við hagkerfið. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið hafa um tíma hvatt til að leitað verði aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Undir það hafa hagfræðingar tekið vegna erfiðrar stöðu efnahagslífsins. Framkvæmdastjóri SA telur að um leið og IMF samþykki aðstoð með formlegum hætti og peningar fari að skila sér til landsins fari gjaldeyrismarkaðurinn að virka og gengi krónunnar að hækka.

Fulltrúar atvinnulífsins telja að tilkynning stjórnvalda um aðstoðarbeiðni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) muni skapa aukið traust á íslensku efnahagslífi. Nú sé kominn nauðsynlegur stuðningur við hagkerfið. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið hafa um tíma hvatt til að leitað verði aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Undir það hafa hagfræðingar tekið vegna erfiðrar stöðu efnahagslífsins. Framkvæmdastjóri SA telur að um leið og IMF samþykki aðstoð með formlegum hætti og peningar fari að skila sér til landsins fari gjaldeyrismarkaðurinn að virka og gengi krónunnar að hækka.

Ríkisstjórnin óskaði í gær formlega eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samkomulag hefur náðst við sendinefnd sjóðsins um aðgerðaráætlun sem felur í sér lán upp á 2 milljarða bandaríkjadala sem verði endurgreitt á árunum 2012-2015. Stjórn IMF þarf að samþykkja lánveitinguna en það getur tekið allt að 10 daga - 830 milljónir dala koma til greiðslu við staðfestingu stjórnar sjóðsins.

Ríkisstjórnin hefur sett sér markmið um að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með mark­viss­um og öflugum aðgerðum. Að styrkja stöðu ríkissjóðs og að endurreisa íslenskt bankakerfi. Íslensk stjórnvöld er fullviss um að samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn muni skapa forsendur fyrir frekari lánafyrirgreiðslu frá öðrum löndum. Upptöku frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar sem fram fór í gær má nálgast hér að neðan.

Fjallað var um málið í fréttum Sjóvarps föstudaginn 24. október en rætt var við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, strax að afloknum blaðamannafundi IMF sem fram fór hjá ríkissáttasemjara í Borgartúni. Vilhjálmur segir að ákvörðun um að leita til IMF eigi að auka traust á því að við séum að ná okkur út úr erfiðleikunum en aðrar þjóðir komi væntanlega einnig að málum í kjölfar IMF.

Paul Thomsen, aðstoðarforstjóri Evrópudeildar IMF spáir því að verðbólga hér á landi lækki verulega á næstu mánuðum. Ekki verði dregið úr ríkisútgjöldum næstu misserin en reynt verði með öllum ráðum að styrkja gengi krónunnar. Næstu 12-18 mánuðir verði erfiðir.

Rætt er við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, ásamt fleiri forystumönnum úr íslensku atvinnulífi í Fréttablaðinu í dag. Þar segir m.a. "Ég reikna með því að strax hafi þetta einhver áhrif og um leið og búið er að samþykkja þetta formlega og peningarnir farnir að koma þá fari gjaldeyrismarkaðurinn að virka almennilega, gengi krónunnar að hækka og við förum að sjá viðspyrnu." Í samtali við Morgunblaðið segir Vilhjálmur einna brýnast að koma viðskiptum milli Íslands og annarra landa í eðlilegt horf.

Ítarlega hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum sem má að hluta nálgast hér að neðan.

Einnig er tengill á upptöku frá blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar og IMF ásamt fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar á íslensku og ensku ásamt frétt IMF um málið.

Blaðamannafundir ríkisstjórnar og IMF 24. október

Frétt Sjónvarps - rætt við fulltrúa SA og ASÍ

Viðtal Sjónvarps við Paul Thomsen hjá IMF

Fréttatilkynning frá forætisráðuneytinu

Fréttatilkynning frá forætisráðuneytinu á ensku

Frétt IMF um málið: IMF and Iceland Outline $2.1 Billion Loan Plan

Umfjöllun Fréttablaðsins - viðbrögð atvinnulífsins

Umfjöllun í síðdegisútvarpi Rásar 2 - m.a. rætt við Vilhjálm Egilsson og Gylfa Arnbjörnsson

Samtök atvinnulífsins