Aðildarfélög SA ræða gjaldmiðilsmál

Í byrjun október á síðasta ári beindi stjórn SA því til allra aðildarsamtakanna að taka gjaldmiðilsmál  til umfjöllunar. Kannað yrði hvort breytingar á íslensku atvinnu- og efnahagslífi kalli á endurmat á því hvort einstakar atvinnugreinar telji sér betur borgið með öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni. Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, að tilefni hafi verið fyrir hendi þegar ákveðið var að fara í þessa vinnu og það tilefni hafi ekki minnkað. Það verði stöðugt brýnna að málið klárist.

Vilhjálmur segir málið hafa verið skoðað vel en umræðan hafi ekki verið á þeim nótum að taka ákvörðun um stuðning eða ekki stuðning, t.d við upptöku evru. Menn hafi aldrei talað um evruna í  því ljósi að það væri komið nálægt því að taka ákvörðun. Aðildarfélögin þurfi nú að komast að niðurstöðu. "Þetta er ferli sem hefur verið lengi í gangi og byrjaði fyrir alvöru fyrir ári síðan. Menn búa við þetta vandamál sem er peningastefnan og miklar gengissveiflur á krónunni. Krónan er nú lægri en nokkru sinni fyrr og verðbólgan meiri en fyrir Þjóðarsátt og samt eru vextirnir sem atvinnulífið býr við himinháir. Það er þessi staða sem gerir það að verkum að menn leita annarra leiða," segir Vilhjálmur Egilsson.

Nánar er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag, en þar kemur m.a. fram útlit sé fyrir að stefna allra aðildarsamtaka SA liggi fyrir á næstu vikum og mánuðum.

Sjá nánar:

Fréttablaðið 22. september 2008