Efnahagsmál - 

20. Desember 2011

Aðilar taki höndum saman um sköpun nýrra starfa

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aðilar taki höndum saman um sköpun nýrra starfa

Gerðardómur hefur nú úrskurðað í ágreiningsmáli HS Orku og Norðuráls á þann veg að afhenda skuli alla umsamda orku til álversins að því gefnu að ákveðin skilyrði séu uppfyllt. Samtök atvinnulífsins fagna því að komin er niðurstaða í þetta mál og hvetja alla aðila sem að málum koma til að taka höndum saman um að ryðja burt þeim hindrunum sem enn standa í vegi þess að framkvæmdir við álverið í Helguvík og tengdar virkjanaframkvæmdir komist á fullt skrið.

Gerðardómur hefur nú úrskurðað í ágreiningsmáli HS Orku og Norðuráls á þann veg að afhenda skuli alla umsamda orku til álversins að því gefnu að ákveðin skilyrði séu uppfyllt. Samtök atvinnulífsins fagna því að komin er niðurstaða í þetta mál og hvetja alla aðila sem að málum koma til að taka höndum saman um að ryðja burt þeim hindrunum sem enn standa í vegi þess að framkvæmdir við álverið í Helguvík og tengdar virkjanaframkvæmdir komist á fullt skrið.

Mikilvægt er að Norðurál og HS Orka ljúki úrvinnslu og samningsgerð sem fyrst og sömuleiðis þarf að fá niðurstöðu í óleyst mál OR og Norðuráls. Þá verða stjórnvöld að hraða vinnu við útgáfu virkjanaleyfa, sveitarstjórnir að ljúka skipulagsvinnu og hefja verður framkvæmdir við nýja Suðvesturlínu.

Ekkert annað verkefni hér á landi er á því stigi að geta lagt jafn mikið og hratt til þess að draga úr atvinnuleysi og auka hagvöxt eins og álverið í Helguvík.

Jafnframt er mikilvægt að hraða undirbúningi annarra framkvæmda eins og uppbyggingu öflugra iðnfyrirtækja á Norðausturlandi og tengdra orkumannvirkja. Ríkisstjórnin verður að leggja fram og tryggja framgang þingsályktunar um svokallaða rammaáætlun þar sem tryggt er nægilegt svigrúm til halda áfram uppbyggingu orkufreks iðnaðar  sem leiða mun til þess að þúsundir varanlegra beinna og afleiddra starfa verða til. Þannig má leggja grunn að sjálfbærri þróun íslensks samfélags og bæta afkomu núverandi og komandi kynslóða.

Samtök atvinnulífsins