Efnahagsmál - 

07. Júlí 2011

Aðhald Seðlabankans að hverju?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aðhald Seðlabankans að hverju?

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í síðasta mánuði að hún væri reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar, þ.e. hækka vexti, í þeim tilgangi að hemja verðbólguna. Þessi yfirlýsing er stefnubreyting og markar líklega endalok vaxtalækkunarferils sem hófst í mars 2009, en síðasta lækkun stýrivaxta bankans var í febrúar sl. Í tilkynningunni komu fram áhyggjur af launaþrýstingi í útflutningsgreinum og væri hugsanlegri vaxtahækkun á næstunni einkum beint gegn slíkum þrýstingi.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í síðasta mánuði að hún væri reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar, þ.e. hækka vexti, í þeim tilgangi að hemja verðbólguna. Þessi yfirlýsing er stefnubreyting og markar líklega endalok vaxtalækkunarferils sem hófst í mars 2009, en síðasta lækkun stýrivaxta bankans var í febrúar sl. Í tilkynningunni komu fram áhyggjur af launaþrýstingi í útflutningsgreinum og væri hugsanlegri vaxtahækkun á næstunni einkum beint gegn slíkum þrýstingi.

Í greinargerð Seðlabankans til ríkisstjórnarinnar sem honum ber að semja ef verðbólga fer umfram 4%, en vísitala neysluverðs hækkaði um 4,2%  á síðustu 12 mánuðum, kemur fram að meginorsakir vaxandi verðbólgu séu annað hvort þættir sem séu tímabundnir eða utan áhrifasviðs peningastefnunnar. Tekið er fram að meirihluti peningastefnunefndar (5 manna nefnd) sé sammála þessu mati bankans en sumir þeirra telji að nú þegar eigi að byrja að hækka vexti.

Vextirnir bíta loksins
Á síðasta áratug og fram til 2008 var mikið rætt um bitleysi vaxtatækis Seðlabankans. Hækkun vaxta hefði óveruleg áhrif í þá veru að draga úr eftirspurn, einkaneyslu og fjárfestingum, þar sem heimilin tækju verðtryggð eða gengisbundin lán til húsnæðiskaupa, og fyrirtækin tækju nánast eingöngu gengisbundin eða erlend lán til fjárfestinga. Þannig véku flestir aðilar sér undan innlendum nafnvöxtum og áhrif vaxtahækkana væru einkum þau að stuðla að hækkun á gengi krónunnar. Þannig hækkaði raungengi krónunnar, á mælikvarða verðlags, um u.þ.b. 15% frá því að bankinn hóf að hækka vexti á fyrri hluta ársins 2004 til ársloka 2007 og innlend eftirspurn fór úr böndunum.

Nú er öldin önnur. Innlendu vextirnir bíta svo sannarlega á skuldug fyrirtæki og heimili í umhverfi gjaldeyrishafta og þegar búið er að umbreyta ólögmætum gengisbundnum lánum í óverðtryggð innlend lán. Við aðstæður gjaldeyrishafta eru hins vegar áhrif innlendra vaxta á gengi krónunnar óveruleg eða alla vega mjög óljós.

Forviða yfir áformum Seðlabankans
Í ljósi þess mikla slaka sem er í efnahagslífinu og birtist í stöðnun einkaneyslu, fjárfestingum í sögulegu lágmarki, samdrætti opinberra umsvifa, fjöldaatvinnuleysi og fjöldagjaldþrotum er eðlilegt að margir séu forviða yfir áformum í Seðlabankanum um aukið aðhald. Ekki getur markmiðið verið að draga enn úr einkaneyslu og eru ekki allir sammála um að auknar fjárfestingar séu forsenda þess að landið komist út úr kreppunni? Það er helst að sjónum sé beint að launaþróun í útflutningsgeiranum. En er hún innan áhrifasviðs peningastefnu Seðlabankans? Lítum aðeins á það.

Sjávarútvegur, stóriðja og ferðaþjónusta standa undir bróðurpartinum af útflutningstekjum landsins. Í fiskveiðum er hlutaskiptakerfi og þar getur ekki orðið launaskrið eðli máls samkvæmt. Fiskvinnslan býr við fastlaunakerfi og þar er búið að binda kjarasamninga og launabreytingar fram til ársins 2014. Stór hluti ferðaþjónustunnar býr við fastlaunakerfi og þar eru samningar einnig bundnir til 2014. Hluti stóriðjufyrirtækja hefur gert kjarasamninga fram á árið 2014 og ekkert annað bendir til þess að í þeim fyrirtækjum, þar sem enn er ósamið, muni niðurstaðan verða samkvæmt þeirri launastefnu sem mörkuð var í kjarasamningunum í maí sl. Óvissa lýtur helst að endurskoðunar- og opnunarákvæðum í janúar 2012 og 2013, eins og alltaf er í tengslum við samninga til langs tíma hér á landi, sem ekki verða gerðir án slíkra ákvæða.

Útilokað er að samningar verði endurskoðaðir til hækkunar í janúar 2012 og ef verðbólga verður í kringum verðbólgumarkmiðið í janúar 2013, eins og Seðlabankinn segir í greinargerð sinni til ríkisstjórnarinnar að hann búist við á fyrri hluta ársins 2013, er ekki við öðru að búast en að samningarnir standi óbreyttir út samningstímann. Af framangreindu er ljóst að launaþróun í útflutningsgeiranum er að mestu  utan áhrifasviðs peningastefnu Seðlabankans. Sá hluti peningastefnunnar og lýtur að gengi krónunnar gæti hins vegar grafið undan kjarasamningunum því þeir byggja á því að gengið styrkist á samningstímanum.

Verðbólgan að mestu innflutt
Einn fulltrúi í peningastefnunefnd, Gylfi Zoega, skrifaði ágæta grein í vikuritið Vísbendingu þann 27. júní sl. Þar kom fram að verðbólgan stafaði ekki af of mikilli eftirspurn heldur væri hún að mestu innflutt. Fjárhagsleg staða fyrirtækja væri slæm, þrátt fyrir fjárhagslega endurskipulagningu og væru ekki til stórræðanna í fjárfestingum eða mannaráðningum. Skuldir hrjáðu fyrirtæki og heimili um þessar mundir. Aukinn fjármagnskostnaður myndi draga enn máttinn úr fyrirtækjum og heimilum. Í þeirri skuldakreppu sem atvinnulífið býr við, og aðstæður atvinnuleysis og ónýttrar framleiðslugetu, gæti vaxtahækkun valdið vaxandi verðbólgu með þeim hætti að fyrirtæki hækkuðu álagningu sína til þess að standa í skilum með lán sín. Vaxtahækkun hefði þannig svipuð áhrif og hækkun hrávöruverðs. Hækkun vaxta myndi magna skuldakreppuna og valda auknum fjölda gjaldþrota.

Hækkun stýrivaxta skaðleg
Það er vissulega tilefni til þess að hafa áhyggjur af verðlagsþróun undanfarið og víst er að launahækkanir kjarasamninga undangenginna mánaða munu stuðla að hækkun verðlags á næstunni. En verðbólgan mun hjaðna á ný þar sem orsakir hækkana eru að mestu tímabundnar og hætta á víxlverkun launa, verðlags og gengis er ekki fyrirsjáanleg. Þung skuldabyrði fyrirtækja og heimila veitir þeim mikið aðhald og þau standa frammi fyrir því að greiða niður lán sín á komandi misserum. Verðbólguþróunin er vissulega áhyggjuefni en áform í peningastefnunefnd Seðlabankans um hækkun vaxta valda ekki síður áhyggjum. Þau áform geta ekki valdið öðru en skaða.

Hannes G. Sigurðsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í júlí 2011

Samtök atvinnulífsins