Covid-19 - 

12. Mars 2020

Aðgerðir sem gagnast öllum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aðgerðir sem gagnast öllum

Engum dylst, sem fylgist með, að verulega hægist nú um í atvinnulífinu. Það hefur ekki bara áhrif á vinnustaðina heldur einnig störf fólksins sem þar vinnur.

Engum dylst, sem fylgist með, að verulega hægist nú um í atvinnulífinu. Það hefur ekki bara áhrif á vinnustaðina heldur einnig störf fólksins sem þar vinnur.

Í vikunni voru kynntar sjö leiðir til að verja störf og minnka efnahagsleg áhrif kórónaveirunnar svokölluðu. Gripið hefur verið til hluta þeirra áður hér á landi við erfiðar aðstæður, til að mynda eftir bankahrunið 2008. Þar má nefna aukinn frest fyrirtækja til að skila sköttum og gjöldum og ráðstafanir til að auka einkaneyslu, til dæmis með hærri endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda og viðhalds á vegum einstaklinga. Að hvetja til aukinna ferðalaga innanlands og að laða ferðamenn til landsins er jafnframt leið sem áður hefur gefið góða raun. Þá er jákvætt að ríkið hyggist ráðast hraðar í framkvæmdir, hvetja til samstarfs um að létta á lausafjárvanda fyrirtækja og lækka skatta, s.s. tryggingagjald og gistináttaskatt. Vaxtalækkun Seðlabankans um 0,5%, í gærmorgun var einnig afar mikilvægt skref.

Aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við fyrirsjáanlegum auknum hremmingum í samfélaginu gagnast ekki einungis fyrirtækjum í landinu heldur einnig launafólki.

Samanlagt veita þessar aðgerðir fyrirtækjunum í landinu aukið svigrúm til að halda fólki í vinnu og lágmarka skaðann sem þau munu óhjákvæmilega verða fyrir á næstunni. Það er einboðið að þegar tekjur dragast skyndilega saman þá reyna forsvarsmenn fyrirtækja allt til að draga úr ónauðsynlegum útgjöldum. Því meir sem eftirspurnin minnkar eftir vörum og þjónustu því meir getur reynst nauðsynlegt að draga úr vinnu starfsmanna og jafnvel að grípa til uppsagna. Það er þó sjaldan fyrsti valkostur stjórnenda. Flestir vilja í lengstu lög halda í þá reynslu og þekkingu sem starfsmenn hafa aflað sér með störfum sínum.

Í tölum frá Hagstofunni og Vinnumálastofnun sést að atvinnulausum hefur fjölgað mjög að undanförnu. Aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við fyrirsjáanlegum auknum hremmingum í samfélaginu gagnast ekki einungis fyrirtækjum í landinu heldur einnig launafólki. Sama má segja um aðgerðir Seðlabankans. Lægri vextir gagnast bæði fyrirtækjum við að lifa af erfiðu tímana framundan og eins almenningi við að koma yfir sig húsnæði. Samstaða og samvinna mun gagnast okkur best til að takast á við hin mörgu krefjandi verkefni sem koma kórónaveirunnar hefur sett í hendur íslensks samfélags.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2020.

 

Samtök atvinnulífsins