Efnahagsmál - 

02. febrúar 2009

Aðgerðir gegn atvinnuleysi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aðgerðir gegn atvinnuleysi

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur ýtt úr vör vinnu við fjölbreyttar aðgerðir gegn atvinnuleysi í samræmi við fyrstu tillögur starfshóps þar um. Í tillögum starfshópsins kom fram að grípa þyrfti til margvíslegra úrræða til að bregðast við gríðarlegum samdrætti í byggingariðnaði. Nauðsynlegt væri að beina sjónum fyrst og fremst að viðhaldsverkefnum í ljósi offramboðs á fasteignum og lækkandi fasteignaverðs.

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur ýtt úr vör vinnu við fjölbreyttar aðgerðir gegn atvinnuleysi í samræmi við fyrstu tillögur starfshóps þar um. Í tillögum starfshópsins kom fram að grípa þyrfti til margvíslegra úrræða til að bregðast við gríðarlegum samdrætti í byggingariðnaði. Nauðsynlegt væri að beina sjónum fyrst og fremst að viðhaldsverkefnum í ljósi offramboðs á fasteignum og lækkandi fasteignaverðs.

Tillögurnar lúta að því að rýmka verulega heimildir Íbúðalánasjóðs til lána vegna stórra og smárra viðhaldsverkefna, innan húss sem utan og jafnt vegna leiguhúsnæðis í eigu félaga, félagasamtaka og jafnvel sveitarfélaga, ekki síður en eignaríbúða einstaklinga eins og heimildir sjóðsins hafa miðast við hingað til.

Þá er lagt til að stjórnvöld hlutist til um tímabundna breytingu á lögum þannig að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis verði hækkuð í allt að 100% í stað 60% eins og núgildandi lög kveða á um. Félags- og tryggingamálaráðherra hefur beint þessu erindi til fjármálaráðuneytisins.

Einnig er lagt til að skipaður verði vinnuhópur með fulltrúum stjórnvalda, sveitarfélaga og stærstu framkvæmdaaðila af hálfu hins opinbera sem finni leiðir til að auka mannaflsfrekar framkvæmdir. Forsætisráðuneytinu er falið að hafa forgöngu um þetta verkefni.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við RÚV það mikla framför að virðisaukaskattur vegna viðhaldsvinnu íbúðarhúsnæðis verði felldur niður og telur að það sama ætti einnig að gilda um viðhaldsvinnu við sumarbústaði. Rætt var við Vilhjálm í Síðdegisútvarpinu í dag.

Sjá nánar á vef félags- og tryggingamálaráðuneytis

Frétt RÚV - SA: Endurgreiðsla VSK fagnaðarefni

Viðtal við Vilhjálm í Síðdegisútvarpinu á Rás 2  

Samtök atvinnulífsins