Fréttir - 

02. Janúar 2019

Að vinna friðinn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Að vinna friðinn

Það hafa orðið ánægjuleg umskipti í íslenskum stjórnmálum eftir mörg ár óróleika og sundurlyndis. Frá því ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð hefur skapast festa í löggjafarstarfinu en öflug stjórnarandstaða veitir málefnalega andstöðu. Fyrir utanaðkomandi virðist sem myndun ríkisstjórnar flokka sem lengst af hafa verið, og eru, á öndverðum meiði hafi tekist vel og að tækifæri hafi skapast til öflugrar framfarasóknar á mörgum sviðum. Áform eru uppi um sókn í húsnæðismálum, bygging nýs þjóðarsjúkrahúss er hafin, stefnt er að átaki í vega- og samgöngumálum og svo mætti áfram telja.

Það hafa orðið ánægjuleg umskipti í íslenskum stjórnmálum eftir mörg ár óróleika og sundurlyndis. Frá því ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð hefur skapast festa í löggjafarstarfinu en öflug stjórnarandstaða veitir málefnalega andstöðu. Fyrir utanaðkomandi virðist sem myndun ríkisstjórnar flokka sem lengst af hafa verið, og eru, á öndverðum meiði hafi tekist vel og að tækifæri hafi skapast til öflugrar framfarasóknar á mörgum sviðum. Áform eru uppi um sókn í húsnæðismálum, bygging nýs þjóðarsjúkrahúss er hafin, stefnt er að átaki í vega- og samgöngumálum og svo mætti áfram telja.

Það er full ástæða til að þakka forystumönnum stjórnmálaflokkanna þessa kærkomnu breytingu. Hún felur í sér að verið er að nálgast viðfangsefnin málefnalega, verkefnin af virðingu og gæta yfirleitt hófs í orðavali og deilum sín í milli.

Framundan eru kjarasamningar á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að nálgast viðræðurnar af ábyrgð og hófsemd. 

Þetta má bera saman við mikil átök annars staðar. Í Bretlandi virðist allt á hverfanda hveli og enginn veit hvernig deilunni um útgöngu úr Evrópusambandinu muni lykta. Í Bandaríkjunum eiga sér stað hatrömm átök milli stjórnmálahreyfinga. Í Frakklandi hefur verið ófriðlegt um nokkra vikna skeið. Svipuð dæmi má nefna víðar.

Hér á landi hefur verið mikill og langvarandi hagvöxtur sem meðal annars hefur komið fram í því að allir hafa nóg að gera, hagur almennings hefur batnað og afkoma ríkissjóðs og sveitarfélaga hefur verið góð. Fólk og fyrirtæki hafa greitt skuldir. Atvinnulífið hefur ráðist í fjárfestingar, fjárfest í nýsköpun og markaðssókn og búið þannig í haginn fyrir vöxt til frambúðar. Lífskjör hafa batnað.

Það þarf sterka forystu bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar til að leggja grunn að kjarasamningum til næstu ára. Það er ekki styrkleikamerki að boða átök heldur þvert á móti. 

Þrátt fyrir ofangreint eru framundan miklar áskoranir. Á lista um samkeppnishæfni þjóða hefur Ísland ekki sótt fram sem skyldi en samkeppnishæfnin hefur afgerandi áhrif á lífskjör íbúanna. Hér þarf að ríkja efnahagslegur stöðugleiki. Það þarf að vera frjór jarðvegur til verðmætasköpunar, eflingu þekkingar og nýsköpunar sem byggir á góðu menntakerfi og hvata til rannsókna. Vextir þurfa að vera hóflegir og taka mið af því sem gerist í nálægum ríkjum og stöðugleiki þarf að einkenna rekstur hins opinbera, skattkerfið og vinnumarkaðinn. Einnig þarf stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, peningastefna Seðlabankans og launastefna á vinnumarkaði að vera í takt.

Takist að bregðast rétt við þessum áskorunum er unnt að auka fjölbreytni í atvinnulífinu, útflutningsstarfsemin mun eflast, arðsemi batna og verðmætasköpun aukast. Um leið skapast forsendur fyrir áframhaldandi lífskjarabata fyrir alla.

Framundan eru kjarasamningar á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að nálgast viðræðurnar af ábyrgð og hófsemd. Það er ekki svigrúm til mikilla launahækkana en með því að endurskoða ýmis ákvæði kjarasamninga, meðal annars um skilgreiningu vinnutíma, má skapa forsendur til kjarabóta handa þeim sem helst þurfa á því að halda. Það er alveg skýrt að Samtök atvinnulífsins munu ekki gera kjarasamninga við viðsemjendur sína sem taka væntan ávinning jafnharðan til baka í hækkuðu verðlagi.

Það þarf sterka forystu bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar til að leggja grunn að kjarasamningum til næstu ára. Það er ekki styrkleikamerki að boða átök heldur þvert á móti. Það munu allir tapa komi til átaka á vinnumarkaði, allra mest þeir sem lakast standa og síst skyldi.

Það þarf kjark til að semja í friði. Það er erfiðara að vinna friðinn en stríðið.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs árs.

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. janúar 2019

Samtök atvinnulífsins