Efnahagsmál - 

03. Júlí 2008

Að óbreyttu stefnir í atvinnuleysi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Að óbreyttu stefnir í atvinnuleysi

Seðlabanki Íslands tilkynnti nú í morgun um óbreytta stýrivexti, 15,5%. Fáir höfðu reiknað með því að bankinn lækkaði vexti þrátt fyrir ærið tilefni þannig að framundan er sú braut fyrir atvinnulífið sem mörkuð hefur verið með takmörkuðum aðgangi að erlendu lánsfé og einstaklega óhagstæðum kjörum á innlendu sem erlendu lánsfé. Fyrirtæki eru almennt ekki að fá ný verkefni fjármögnuð af íslensku bönkunum þannig að þau fyrirtæki sem ekki hafa beinan aðgang að erlendum bönkum eru að rifa saman seglin og að óbreyttu stefnir í verulega erfiðleika og atvinnuleysi á haustmánuðum.

Seðlabanki Íslands tilkynnti nú í morgun um óbreytta stýrivexti, 15,5%. Fáir höfðu reiknað með því að bankinn lækkaði vexti þrátt fyrir ærið tilefni þannig að framundan er sú braut fyrir atvinnulífið sem mörkuð hefur verið með takmörkuðum aðgangi að erlendu lánsfé og einstaklega óhagstæðum kjörum á innlendu sem erlendu lánsfé. Fyrirtæki eru almennt ekki að fá ný verkefni fjármögnuð af íslensku bönkunum þannig að þau fyrirtæki sem ekki hafa beinan aðgang að erlendum bönkum eru að rifa saman seglin og að óbreyttu stefnir í verulega erfiðleika og atvinnuleysi á haustmánuðum.

Tilrauninni er lokið

Segja má að með hækkun á gengisvísitölu íslensku krónunnar upp fyrir 160 og fyrirsjáanlegum frekari verðhækkunum á næstu mánuðum í framhaldinu hafi lokið þeirri tilraun sem hófst með nýrri peningastefnu á árinu 2001. Fyrri hluta þessa tímabils lofaði tilraunin góðu og efnahagslífið komst vel í gegnum erfiðleika án þess að stöðugleika væri ógnað að nokkru marki. Frá árinu 2004 hefur hins vegar gengið afleitlega, þótt vissulega sé ekki við Seðlabankann einan að sakast vegna þess að aðstæður á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum hafa breyst frá því að allt flaut í ódýrum peningum í óhemju óhagstæð skilyrði á síðustu mánuðum.  

Það breytir þó ekki þeirri niðurstöðu að eftir tíu prósentustiga hækkun stýrivaxta frá 2004 er gengi krónunnar í djúpri lægð og verðbólgan meiri en frá lokum verðbólgutímabilsins mikla og þjóðarsátt. Vaxtahækkanir bankans hafa ekki haft tilætluð áhrif vegna opnunar fjármagnsmarkaðarins og umfangsmikillar verðtryggingar en bankinn hefur engu að síður stýrt málum eins og að áhrifamáttur peningastefnunnar væri raunverulegur.  Niðurstaðan hlýtur að vera eftir þennan tíma og þessa reynslu að nú sé nóg komið og að leita þurfi annarra leiða til að stýra peningamálum þjóðarinnar.

Ekkert í hendi um betri tíð

Staðan í atvinnumálum er óvenjulega dökk. Könnun á áliti forráðamanna stærstu fyrirtækja á ástandinu staðfestir það, þótt fleiri séu á þeirri skoðun að ástandið muni fara batnandi en í síðustu könnunum. Ekkert er þó áþreifanlegt í hendi um að staðan fari batnandi. Erlendir fjármagnsmarkaðir eru ekki að opnast fyrir atvinnulífið og meðan það litla fjármagn, sem í boði er, fæst aðeins á  óhagstæðum kjörum er ljóst að það herðir hratt að skuldsettum fyrirtækjum á heimamarkaði og fá ný verkefni fara í gang. Það getur ekki þýtt annað en samdrátt, fækkun starfsfólks og hratt vaxandi atvinnuleysi með haustinu.

Mikilvæg úrlausnarefni framundan

Kjarasamningarnir 17. febrúar voru gerðir á þeim forsendum að kaupmáttur launa héldist og verðbólga færi lækkandi. Ekki einu sinni kraftaverk getur komið í veg fyrir að þær forsendur bresti.  Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin hafa verið í viðvarandi samskiptum og umræðum, formlegum sem óformlegum, um framvinduna. Það hefur komið fram mikill vilji til ábyrgrar framgöngu samningsaðila við þessi erfiðu skilyrði. Einstakir kjarasamningar sem gerðir hafa verið síðar í samningalotunni hafa flestir hverjir verið ásættanlegir með hliðsjón af því sem fyrr hafði verið gert. Lægri kaupmáttur og undanhald í lífskjörum þjóðarinnar og getu atvinnulífsins eru staðreyndir sem þarf að vinna úr. Engum er í hag að fara út í víxlhækkanir launa og verðlags í gamla stílnum. Fyrst er að tryggja atvinnuna eins og kostur er og byggja undir verðmætasköpunina. Það verður sá grunnur sem sækja þarf fram á.

Á næstu mánuðum munu Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin auka enn á samskipti sín vegna þróunar atvinnumála og framlengingar kjarasamninganna. Mikilvægt er að viðhalda þeirri góðu samstöðu sem tókst síðastliðinn vetur bæði innan atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar og samstöðu með stjórnvöldum. Mikilvægasta verkefnið er að skapa atvinnulífinu viðunandi starfsgrundvöll með aðgangi að erlendum fjármagnsmörkuðum og eðlilegum kjörum. Síðan þarf að efla atvinnulífið með fjárfestingum og hagvexti á næstu árum en þar bíða stór verkefni m.a. í virkjunum og orkunýtingu.    

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins