Fréttir - 

26. Oktober 2017

Ábyrgð og traust

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ábyrgð og traust

Undanfarnar vikur höfum við hjá Samtökum atvinnulífsins átt fundi um land allt og rætt horfurnar í atvinnulífinu. Það hefur verið áhugavert að heyra fólk í ólíkum greinum lýsa því hvaða væntingar það hefur til framtíðarinnar og hvaða áskoranir eru framundan. Ef það er eitthvað eitt sem stendur upp úr frá þessum samtölum þá er það ákall um stöðugleika í rekstrarumhverfinu. Fólk hefur eðlilega áhyggjur af því hvaða skref verða stigin við stjórn efnahagsmála næstu árin. Skattamál, launabreytingar, gengisþróun, verðbólga og vaxtahorfur eru lykilstærðir þegar kemur að rekstri fyrirtækja, ekki síst í hinum dreifðu byggðum.

Undanfarnar vikur höfum við hjá Samtökum atvinnulífsins átt fundi um land allt og rætt horfurnar í atvinnulífinu. Það hefur verið áhugavert að heyra fólk í ólíkum greinum lýsa því hvaða væntingar það hefur til framtíðarinnar og hvaða áskoranir eru framundan. Ef það er eitthvað eitt sem stendur upp úr frá þessum samtölum þá er það ákall um stöðugleika í rekstrarumhverfinu. Fólk hefur eðlilega áhyggjur af því hvaða skref verða stigin við stjórn efnahagsmála næstu árin. Skattamál, launabreytingar, gengisþróun, verðbólga og vaxtahorfur eru lykilstærðir þegar kemur að rekstri fyrirtækja, ekki síst í hinum dreifðu byggðum.

Ég óska frambjóðendum góðs gengis í kosningunum og hlakka til að vinna með þeim að loknum kosningum.

Góðar aðstæður
Staðan í íslensku efnahagslífi er um margt einstök um þessar mundir; góður gangur í hagkerfinu undanfarin ár hefur skilað sér í bættum hag  íslenskra heimila. Frá því núverandi hagvaxtarskeið hófst í árbyrjun 2011 hefur atvinnuleysi farið úr því að vera rúmlega 7,5% niður í um 3%. Ráðstöfunartekjur á mann hafa vaxið um 50% á sama tíma og kaupmáttur á mann hefur vaxið um 23%. Þá er tekjujöfnuður hvergi meiri meðal OECD og hefur farið vaxandi. Heimilin hafa greitt niður skuldir og hafa þær ekki mælst minni í áratugi. Eftir samfelldan vöxt kaupmáttar undanfarin ár hefur að mestu tekist að vinna upp þá kaupmáttarrýrnun sem varð eftir hrun. Á þeim 22 árum sem mælingar ná yfir kaupmátt ráðstöfunartekna hafa íslensk heimili aðeins einu sinni upplifaði meiri kaupmátt og það var á árinu 2007.

Nú reynir á
Við þessar aðstæður búa stjórnmálaflokkar, nýir sem gamlir, sig undir kosningar. Tíminn til undirbúnings, greininga og málefnavinnu er óvenju skammur og kosningabaráttan snörp. Það þarf sterk bein til að þola góða daga og nú reynir á íslenska stjórnmálamenn að nálgast viðfangsefni stjórnmálanna af yfirvegun og ábyrgð. Sá mikli hraði sem er á boðskiptum og miðlun upplýsinga með breyttu landslagi í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum gerir æ ríkari kröfur til þeirra sem starfa í stjórnmálum. Á einum sólarhring getur umræða hafist, flogið með himinskautum og lokið jafnharðan þegar athyglin færist á næsta mál.

Við þessar aðstæður, stutta kosningabaráttu, breytt landslag í fjölmiðlum og góðæri er sú hætta fyrir hendi að frambjóðendur og flokkar sveigist af leið og láti undan freistingum og þrýstingi um að gera allt fyrir alla. Það er virðingarvert starf að vinna í þágu almennings á vettvangi stjórnmálanna. Undanfarið hefur hins vegar traust til stjórnmála og alþingis sem stofnunar minnkað mikið. Ástæðurnar eru væntanlega margvíslegar en skortur á stöðugleika og festu í landstjórninni vegur þar örugglega þungt. Það tekur tíma að ávinna sér traust og mikilvægt að saman fari orð og efndir. Ég óska frambjóðendum góðs gengis í kosningunum og hlakka til að vinna með þeim að loknum kosningum.

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26.10.2017

Samtök atvinnulífsins