Ábyrgð nýs rekstraraðila gagnvart starfsmönnum
Ábyrgð nýs rekstraraðila gagnvart starfsmönnum
við sölu, leigu, eða samruna fyrirtækja
Við kaup á fyrirtæki eða hluta þess og samruna fyrirtækja vakna spurningar um skyldur kaupanda gagnvart starfsmönnum. Starfsmenn geta átt rétt á að flytjast yfir til hins nýja rekstraraðila með óbreyttum kjörum og nýji rekstraraðilinn jafnvel verið ábyrgur fyrir ógreiddum launaskuldum fyrri vinnuveitanda gagnvart þeim starfsmönnum sem hefja störf hjá honum.
Lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að
fyrirtækjum
Réttarstaðan ræðst af því hvort lögum um
réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr.
72/2002 (áður lög nr. 77/1993), verði beitt í viðkomandi
tilviki. Það getur verið matsatriði. Það mat hefur reynst erfitt og
orðið tilefni fjölda dómsmála um skýringu á tilskipun
Evrópusambandsins sem lögfest er með þessum lögum.
Um skýringu á lögunum er því horft til dóma Evrópudómstólsins.
Meginviðmiðið til að ákvarða hvort um er að ræða aðilaskipti er
hvort fyrirtækið heldur einkennum sínum. Því þarf að líta til þess
um hvaða tegund fyrirtækis er að ræða, hvort áþreifanleg verðmæti
eru framseld, svo sem fasteignir eða lausafé, og hvert er virði
óhlutbundinna verðmæta þegar aðilaskipti fara fram. Einnig hvort
meirihluti starfsmanna flyst til hins nýja vinnuveitanda og hvort
framsalshafi heldur viðskiptavinum framseljanda. Líta þarf
heildstætt á þessi atriði. Hefur þetta verið staðfest í dómum
EFTA-dómstólsins. Sjá skýringar með lögunum og dóm Hæstaréttar í máli
nr. 435/2002. Í málinu var því hafnað að yfirtaka á
farmiðasölu hefði falið í sér aðilaskipti í skilningi laganna þar
sem farmiðasalan gæti ekki talist hafa verið efnahagsleg eining,
sem haldið hefði sérkennum sínum eftir yfirtökuna.
EFTA-dómstóllinn hefur einnig talið að það tilvik að nýr
verktaki taki við verki sem annar hefur annast áður samkvæmt útboði
geti fallið undir aðilaskiptareglur tilskipunarinnar. Það á
þó ekki við nema veruleg áþreifanleg eða óhlutbundin verðmæti séu
framseld og verulegur hluti starfsmanna sem vann að þessum
verkefnum hjá fyrri vinnuveitanda bæði hvað varðar fjölda og
þekkingu sé endurráðinn, sbr mál nr. E-3/96.
Kröfur hafa einnig komið fram hér á landi um að yfirtaka húsnæðis teljist aðilaskipti í skilningi laganna þegar sömu eða samsvarandi starfsemi er haldið áfram með sömu starfsmönnum. Lögin um aðilaskipti að fyrirtækjum gera þó ráð fyrir að aðilaskiptin verði á grundvelli framsals eða samruna.
Skyldur vinnuveitanda samkvæmt lögunum
Ef aðilaskiptalögin eiga við færast réttindi og skyldur
framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi yfir til nýja
rekstraraðilans sem verður vinnuveitandi starfsmanna.
Þetta þýðir að starfmennirnir færast sjálfkrafa yfir til hans með
sömu kjörum og hann naut áður. Vinnuveitandinn verður einnig
bundinn af að virða kjarasamningsbundin kjör starfsmanns með sömu
skilyrðum og giltu fyrir fyrri vinnuveitanda á meðan
kjarasamningurinn er í gildi.
Aðilaskiptin takmarka jafnframt réttinn til að segja starfsmönnum upp störfum. Það er óheimilt að segja starfsmönnum upp vegna aðilaskiptanna, bæði fyrir og eftir þau, nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækis. Vinnuveitandinn á sönnunarbyrðina fyrir því að slíkar ástæður liggi að baki uppsögn.
Þá er því haldið fram með vísan til dómaframkvæmdar
Evrópudómstólsins að nýr vinnuveitandi verði ábyrgður fyrir skuldum
fyrri vinnuveitanda sem stofnað er til fyrir aðilaskiptin. Það er
talið felast í lögbundinni yfirtöku hans á réttindum og
skyldum fyrri vinnuveitanda samkvæmt ráðningarsamningi og eigi
jafnt við um ógjaldfallnar og gjaldfallnar skuldir, sbr. dóm
Evrópudómstólsins í máli 135/83. Ábyrgðarsjóður launa hefur því
hafnað greiðslu slíkra krafna hafi fyrirtæki orðið gjaldþrota eftir
að reksturinn hefur verið seldur.
Upplýsingaskylda vinnuveitanda
Þá ber vinnuveitanda, bæði fyrri rekstraraðila og þeim sem tekur
við rekstrinum, að veita trúnaðarmönnum starfsmanna, eða
starfsmönnum sjálfum séu trúnaðarmenn ekki fyrir hendi, upplýsingar
um fyrirhuguð aðilaskipti. Það skal gert með góðum fyrirvara og
áður en aðilaskiptin hafa bein áhrif á störf og starfsskilyrði
starfsmanna. Upplýsingar skulu þá veittar um það hvenær
aðilaskiptin munu eiga sér stað, ástæðu þeirra og áhrif
breytingarinnar fyrir starfsmenn, sjá nánar 6. gr. laganna.
Framkvæmd
Með tilliti til alls þessa er mikilvægt að skoða réttarstöðuna áður
en gengið er frá yfirtökunni og ákvarðanir teknar um framkvæmdina.
Meta þarf hvort líkur séu til að um sé að ræða aðilaskipti í
skilningi tilskipunarinnar og hvað þurfi að athuga í því sambandi.
Þá þarf einnig að upplýsa trúnaðarmenn og eftir atvikum starfsmenn
um fyrirhuguð aðilaskipti áður en þau koma til framkvæmda.
Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins geta leitað ráðgjafar hjá lögmönnum samtakanna.
Hrafnhildur Stefánsdóttir,
yfirlögfræðingur Samtaka atvinnulífsins