Vinnumarkaður - 

01. nóvember 2006

Ábyrgð á skattgreiðslum erlendra starfsmanna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ábyrgð á skattgreiðslum erlendra starfsmanna

Erlendum ríkisborgum sem starfa á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað mikið á síðustu misserum. Algengast er að útlendingar starfi hér á grundvelli ráðningasamninga milli þeirra og íslenskra fyrirtækja. Nokkuð er um að íslensk fyrirtæki fái starfsmenn til starfa tímabundið fyrir milligöngu erlendra starfsmannaleiga. Í þeim tilvikum þá er hin erlenda starfsmannaleiga, hinn formlegi vinnuveitandi erlenda starfsmanna. Starfsmannaleigan greiðir þeim laun, oftast inn á reikning erlendis. Um starfsmannaleigur gilda sérstök lög nr. 139/2005. Lögin gilda bæði um innlendar og erlendar starfsmannaleigur og eru þær skráningarskyldar hjá Vinnumálastofnun, sem hefur eftirlit með starfsemi þeirra.

Erlendum ríkisborgum sem starfa á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað mikið á síðustu misserum. Algengast er að útlendingar starfi hér á grundvelli ráðningasamninga milli þeirra og íslenskra fyrirtækja. Nokkuð er um að íslensk fyrirtæki fái starfsmenn til starfa tímabundið fyrir milligöngu erlendra starfsmannaleiga. Í þeim tilvikum þá er hin erlenda starfsmannaleiga, hinn formlegi vinnuveitandi erlenda starfsmanna. Starfsmannaleigan greiðir þeim laun, oftast inn á reikning erlendis. Um starfsmannaleigur gilda sérstök lög nr. 139/2005. Lögin gilda bæði um innlendar og erlendar starfsmannaleigur og eru þær skráningarskyldar hjá Vinnumálastofnun, sem hefur eftirlit með starfsemi þeirra.

Ábyrgð á skattskilum erlenda starfsmanna starfsmannaleiga

Ríkisskattstjóri telur að samningar launagreiðanda við starfsmannaleigu, svonefnda vinnuleigu, um að hún láti í té starfsmenn geti aldrei breytt stöðu hans sem launagreiðanda. Tvísköttunarsamningar milli Íslands og heimaríkis hins erlendra starfsmanns breyti ekki ábyrgð íslenska fyrirtækisins á skilum staðgreiðsluskatta, þ.e. bráðabirgðaskattskilum. Um skattalega stöðu erlendra starfsmanna starfsmannaleigna er fjallað nánar í ákvarðandi bréfi Ríkisskattstjóra frá 27.8. 2003. Um þetta hefur einnig gengið fordæmisgefandi úrskurður yfirskattanefndar nr. 95/2005 og tveir héraðsdómar sem staðfesta þessa túlkun Ríkisskattstjóra en einu skattamáli hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Um tryggingargjald útlendinga með E-101 vottorð er fjallað í ákvarðandi bréfi RSK frá 2.8. 2005. Sjá einnig orðsendingu RSK til launagreiðenda nr. 3/2005 um erlenda menn sem starfa hér á landi á grundvelli vinnuleigu-, þjónustu- eða verktakasamninga.

Samkvæmt framangreindum heimildum ber innlent notendafyrirtæki, þ.e. íslenskt fyrirtæki sem leigir erlendan starfsmann frá starfsmannaleigu, almennt fulla ábyrgð á skattgreiðslum og staðgreiðsluskilum vegna hins erlendra starfsmanns, jafnvel þótt hinn erlendi starfsmaður sé ekki starfsmaður íslenska notendafyrirtækisins og sé ekki þar á launaskrá.

Lög um tekjuskatt nr. 90/2003

Í lögum um tekjuskatt, eins og henni var breytt með lögum nr. 145/1995, segir í 1. tl. 3. gr., sem fjallar um takmarkaða skattskyldu: "Allir menn sem dvelja hér á landi og njóta launa fyrir störf sín hér skulu greiða tekjuskatt af þeim launum. Hér með teljast þeir menn sem atvinnu stunda hér á landi,….., þar með talið á grundvelli samninga um útleigu á vinnuafli, þótt dvöl þeirra eða starf vari 183 daga samtals eða skemur á sérhverju 12 mánaða tímabili." Í greinargerð með lagafrumvarpinu, sem varð að lögum nr. 145/1995 var lagabreyting þessi skýrð svo: "Um langt skeið hefur alþjóðleg útleiga vinnuafls leitt til ýmissa vandkvæða í skattframkvæmd. Hér er um það að ræða að rekstraraðili sem óskar eftir því að ráða erlent vinnuafl í skemmri tíma en 183 daga ræður starfskraft í gegnum erlendan millilið. Milliliðurinn gefur sig út fyrir að vera vinnuveitandi og leigir út vinnuaflið til rekstraraðilans. Með breytingunni er gert ráð fyrir að launþegi sem þannig hagar til um verði skattskyldur hér á landi á grundvelli 3. gr. Launagreiðandi hans (hinn innlendi rekstraraðili) ber ábyrgð á staðgreiðslu af launum hans eins og annarra launamanna sem hér starfa tímabundið. Þetta er í samræmi við sambærileg ákvæði tvísköttunarsamninga og er lagt til að tekin verði af tvímæli um að menn sem svo háttar um sem að framan er lýst verði ótvírætt taldir skattskyldir hér á landi. Sú regla er í samræmi við gildandi framkvæmd og því ekki breyting að því leyti."

Sérfræðingar á sviði skattaréttar hafa talið vafasamt að leggja þessar skyldur á notendafyrirtæki og talið tvísköttunarsamninga ganga framar íslenskum lögum. Þessi ágreiningur kemur fljótlega til kasta Hæstaréttar eins og fyrr var nefnt.

Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987

Í 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda segir m.a. að staðgreiðsla skatta taki til tekjuskatts manna, sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum 1. gr. og 1. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. útleigðs vinnuafls til rekstraraðila skv. samningi um útleigu á vinnuafli, sbr. lagabreytingin frá 1995, sem fyrr er getið.

Í 1. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda er jafnframt tekið fram að staðgreiðsla opinberra gjalda sé bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars launamanna á tekjuári og tryggingagjalds launagreiðenda á því ári nema annað sé tekið fram. Í 3. gr. kemur fram að ákvæði laganna taki til allra þeirra aðila, innlendra sem erlendra, sem gjaldskyldir eru og til allra þeirra aðila, innlendra sem erlendra, sem greiða laun eða annast milligöngu á greiðslum sem gjaldskyldar eru.

 

3. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003

Jafnvel þótt íslenskt fyrirtæki hafi skilvíslega skilað staðgreiðslu opinberra gjalda vegna útlendings og dregnar hafi verið af launum útlendings allar skattkröfur að beiðni innheimtumanns, þá kann fyrirtækið engu að síður að verða gert ábyrgt síðar fyrir endanlegri skattlagningu hins erlenda starfsmanns. Endanleg skattlagning fer fram í ágúst, ári eftir að viðkomandi tekjuári lýkur. Þá kann hinn erlendi starfsmaður að vera farinn af landi brott. Ábyrgð íslenskra fyrirtækja á endanlegri skattgreiðslu útlendings er að áliti fjármálaráðuneytisins víðtækari en á skattgreiðslum íslenskra ríkisborgara, sem er einskorðuð við greiðslu staðgreiðsluskatts og tryggingagjalds. Þessi afstaða byggist á 3. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt, þar sem segir að atvinnurekendur, sem hafa í þjónustu sinni erlenda ríkisborgara beri ábyrgð á skattgreiðslum þeirra. Samtök atvinnulífsins hafa mótmælt þessari lagatúlkun og skattaframkvæmd við fjármálaráðuneytið án þess það hafi borið nokkurn árangur. Samtökin hafa jafnframt krafist þess að skattayfirvöld setji fram skýrar leiðbeiningar til fyrirtækja um það hvernig haga skuli síðasta launauppgjöri við erlendan starfsmann sem er á förum frá landinu, þannig að þau geti varið sig gegn þessari ósanngjörnu skattaábyrgð.

Samtök atvinnulífsins