Efnahagsmál - 

01. júní 2011

Á skjön við gefin loforð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Á skjön við gefin loforð

"Það er ótrúlegt að reynt sé að keyra þessi mál í gegnum þingið með offorsi, áður en skýrsla hagfræðinga er lögð fram og áður en reynt er að ná sátt við hagsmunaaðila. Þetta er algerlega á skjön við gefin loforð," segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið um áhrif kvótafrumvarpa ríkisstjórnarinnar á framlengingu kjarasamninga. Aðilar vinnumarkaðarins munu meta fyrir 22. júní hvort nauðsynlegar forsendur séu til staðar þannig að nýir kjarasamningar sem skrifað var undir 5. maí sl. gildi til þriggja ára. Margir fyrirvarar eru í samningunum en mögulega gilda þeir aðeins til loka janúar 2012.

"Það er ótrúlegt að reynt sé að keyra þessi mál í gegnum þingið með offorsi, áður en skýrsla hagfræðinga er lögð fram og áður en reynt er að ná sátt við hagsmunaaðila. Þetta er algerlega á skjön við gefin loforð," segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið um áhrif kvótafrumvarpa ríkisstjórnarinnar á framlengingu kjarasamninga. Aðilar vinnumarkaðarins munu meta fyrir 22. júní hvort nauðsynlegar forsendur séu til staðar þannig að nýir kjarasamningar sem skrifað var undir 5. maí sl. gildi til þriggja ára. Margir fyrirvarar eru í samningunum en mögulega gilda þeir aðeins til loka janúar 2012.

Í frétt Morgunblaðsins 1. júní 2011 segir:

"Í bókun um málsmeðferð í sjávarútvegsmálum sem fylgdi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að gerð kjarasamninga er kveðið á um að fulltrúar ASÍ og SA verði kallaðir til samráðs við fulltrúa stjórnarflokkanna, þegar fyrir liggur hagfræðileg greining á áhrifum fyrirhugaðra breytinga á rekstrarskilyrði og starfsumhverfi sjávarútvegsins.

Tilgangurinn er að leita eftir frekari sátt um útfærslur sem tryggi sjávarútvegnum góð rekstrarskilyrði. Niðurstaða þessarar yfirferðar átti að liggja fyrir nú um mánaðamótin.

Þessi tími er liðinn án þess að fulltrúar ASÍ og SA hafi verið kallaðir til enda hefur hagfræðingahópurinn ekki skilað sínum niðurstöðum. Reiknað er með að skýrsla hans verði afhent sjávarútvegsráðherra 9. eða 10. júní. Það er um það leyti sem vorþingi á að ljúka en stjórnarflokkarnir vilja afgreiða minna kvótafrumvarpið fyrir þann tíma. Þá vekur athygli að í bókun ríkisstjórnarinnar er rætt um eitt frumvarp en þau urðu tvö.

Vilmundur segir of snemmt að fullyrða um framlengingu samninga. Þótt vinnan hafi dregist séu enn þrjár vikur til stefnu. Hann telur ljóst að frumvörpin, eins og þau voru lögð fram, feli í sér brot á loforðum stjórnvalda. Það eyði hagkvæmni og afkomumöguleikum sjávarútvegsins. "Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að stjórnvöld ætli að rjúfa frið á vinnumarkaði með jafnóhugsuðum aðgerðum," segir Vilmundur.

Samtök atvinnulífsins