Efnahagsmál - 

01. júní 2003

Á ekki og getur ekki stýrt uppbyggingu atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Á ekki og getur ekki stýrt uppbyggingu atvinnulífsins

"Samtök atvinnulífsins vilja efla Samkeppnisstofnun til góðra verka og þau hafa stutt breytingar sem gera stofnuninni betur kleift að vinna gegn ólögmætu samráði fyrirtækja. Gagnrýni SA snýr á hinn bóginn að skipulagi samkeppnismála sem þau telja vera óskilvirkt og þunglamalegt. Eins telja samtökin það ekki vera hlutverk Samkeppnisstofnunar að stýra uppbyggingu atvinnulífsins," segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Morgunblaðið vegna ummæla Georgs Ólafssonar, forstjóra Samkeppnisstofnunar, í ársskýrslu stofnunarinnar. Ari minnir á að stærð ein og sér feli ekki í sér afbrot heldur sé það misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

"Samtök atvinnulífsins vilja efla Samkeppnisstofnun til góðra verka og þau hafa stutt breytingar sem gera stofnuninni betur kleift að vinna gegn ólögmætu samráði fyrirtækja. Gagnrýni SA snýr á hinn bóginn að skipulagi samkeppnismála sem þau telja vera óskilvirkt og þunglamalegt. Eins telja samtökin það ekki vera hlutverk Samkeppnisstofnunar að stýra uppbyggingu atvinnulífsins," segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Morgunblaðið vegna ummæla Georgs Ólafssonar, forstjóra Samkeppnisstofnunar, í ársskýrslu stofnunarinnar. Ari minnir á að stærð ein og sér feli ekki í sér afbrot heldur sé það misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Þá segir Ari það vera grundvallarmisskilning að halda því fram að samstaða sé í atvinnulífinu um að veikja samkeppnislögin. "Það er samstaða um það í atvinnulífinu að bæta samkeppnislögin og gera þau skilvirkari og efla Samkeppnisstofnun til þeirra verka þar sem munar um hennar innlegg en það er fyrst og fremst að berjast gegn ólögmætri framgöngu á markaðinum og samkeppnishamlandi aðgerðum."

Skilningsleysi á eðli markaðarins
Ari segist reyndar líta á það sem staðreynd að Samkeppnisstofnun geti ekki stýrt uppbyggingu atvinnulífsins. "Það er þá misskilningur embættismanna að halda að opinbert embætti geti teiknað það upp hvort á tilteknu sviði starfi eitt fyrirtæki, tvö eða tuttugu. Við teljum að í þeirri nálgun forsvarsmanna Samkeppnisstofnunar birtist algert skilningsleysi á eðli markaðarins."

Ari nefnir sem dæmi afstöðu Samkeppnisstofnunar eins og hún birtist gagnvart hugmyndum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka á sínum tíma. "Með baráttu gegn hagræðingu í atvinnulífinu er verið að vinna tjón á lífskjörum almennings og í ljósi þess sem síðar hefur gerst má alveg velta því fyrir sér hvað það tákni að sameina fyrirtæki; ef fyrirtæki ræður til sín alla starfsmenn annars fyrirtækis - hvað gerir Samkeppnisstofnun þá? Og ekkert geta menn gert gegn innri vexti fyrirtækja þannig að þessi áhersla á að koma í veg fyrir sameiningu fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni er í raun afar hjákátleg.

Reynslan hefur líka sýnt að spádómar Samkeppnisstofnunar um framvinduna á markaðinum á ákveðnum sviðum, sem hún hefur haft til umfjöllunar, hafa ekki náð fram að ganga. Þar hefur ekki staðið steinn yfir steini. Ef menn halda að þeir geti á frjálsum markaði stýrt því hvort fyrirtækin verði fleiri eða færri eða hvernig mál æxlast í síkviku umhverfi eru þeir einfaldlega haldnir alvarlegum misskilningi um stöðu sína og getu til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt," segir Ari.

Samtök atvinnulífsins