Samkeppnishæfni - 

19. október 2006

Á að einkavæða orkugeirann?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Á að einkavæða orkugeirann?

Á Orkuþingi sem fram fór í Reykjavík dagana 12.-13. október flutti Páll Harðarson, stjórnarformaður Landsnets hf., erindi um eignarhald orkufyrirtækja. Þau sjónarmið sem hann reifaði þar eru hans eigin en ekki sett fram í nafni Landsnets. Í erindinu fór hann yfir kosti og galla þess að einkavæða orkufyrirtæki á Íslandi, fjallaði um núverandi stöðu á raforkumarkaði og mögulega framtíðarþróun.

Á Orkuþingi sem fram fór í Reykjavík dagana 12.-13. október flutti Páll Harðarson, stjórnarformaður Landsnets hf., erindi um eignarhald orkufyrirtækja. Þau sjónarmið sem hann reifaði þar eru hans eigin en ekki sett fram í nafni Landsnets. Í erindinu fór hann yfir kosti og galla þess að einkavæða orkufyrirtæki á Íslandi, fjallaði um núverandi stöðu á raforkumarkaði og mögulega framtíðarþróun.

Samkeppni á raforkumarkaði

Á fjórða ár eru síðan raforkulög tóku gildi, en þeim er ætlað að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi með því að skapa skilyrði fyrir samkeppni í vinnslu og sölu raforku ásamt því að stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku. Páll benti á að þó svo að raforkulögin hafi gjörbreytt starfsumhverfi raforkufyrirtækja þá væru þau augljóslega aðeins fyrsta skrefið í langri leið við að ná þeim markmiðum sem stefnt var að með setningu laganna. Þörf sé á frekari skipulags- og lagabreytingum.

Brýnar breytingar

En hverju þarf að breyta? Páll sagði nokkur atriði blasa við sem ráðast þyrfti í sem fyrst. Til dæmis væru augljósir annmarkar á núverandi skipulagi eignarhalds í raforkugeiranum. Eignatengsl Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur gerðu það t.d. að verkum að óhugsandi væri að eðlileg samkeppni gæti ríkt milli fyrirtækjanna við núverandi aðstæður. Reykjavíkurborg á stærstan hluta Orkuveitunnar og 45% hlut í Landsvirkjun en Páll sagði að líklega væri aðeins tímaspursmál hvenær greitt yrði úr þessum eignatengslum. Þá væri einnig æskilegt að ríkið seldi 15% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja.

 

Páll fjallaði einnig um náin tengsl dreifiveitna annars vegar og framleiðanda og sölufyrirtækja hins vegar. Sagði hann að náin tengsl þeirra væru tæplega til þess fallin að efla trúverðugleika markaðsfyrirkomulags á raforkumarkaði. "Eins og málum er nú háttað er einungis um að ræða bókhaldslegan aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisreksturs. Stefna ætti að því að stærstu framleiðendurnir færðu rekstur dreifiveitna í sérstök fyrirtæki. Síðar mætti veikja eða rjúfa eignatengslin alveg." sagði Páll. Um flutningsfyrirtækið Landsnet sagði hann að svipuð sjónarmið giltu, að til lengdar efldi það trúverðugleika raforkumarkaðar að breikka eigendahópinn og minnka eða losa alveg um eignarhald framleiðenda. 

 

Rök með og á móti einkavæðingu

Ef sú leið yrði farin sem lýst er hér að ofan segir Páll að landslagið á íslenskum raforkumarkaði liti þannig út að hér yrðu þrjú stór og innbyrðis óháð framleiðslu- og sölufyrirtæki annars vegar og hins vegar dreifingar- og flutningsfyrirtæki sem hefðu einungis lausleg eða jafnvel engin eignatengsl við framleiðendur og seljendur raforku. Forsendur fyrir samkeppni yrðu öllu traustari en nú er. Stóra spurningin væri hins vegar sú hvort einkavæðing myndi styrkja forsendur samkeppni frekar og stuðla að aukinni hagkvæmni orkugeirans?

Í erindi sínu setti Páll fram margvísleg rök með og á móti einkavæðingu orkufyrirtækja. Hann sagði að helstu rök gegn því að einkavæða orkufyrirtæki á Íslandi væru þau að íslensk raforkufyrirtæki hafi til þessa staðið sig ágætlega. Rekstur raforkugeirans á Norðurlöndum hafi jafnframt gengið farsællega en þar hafi einkavæðing ekki fylgt markaðsvæðingu raforkukerfisins að neinu marki. Þá hafi markaðs- og einkavæðingarferli í Evrópu verið ábótavant. Því mætti þó ekki gleyma að dæmi væru um mjög farsæla einkavæðingu í Evrópu, s.s. í Bretlandi, sem sýni að ef rétt er að málum staðið geti markaðs- og einkavæðing skilað verulegum árangri.

En hvaða rök má þá færa fyrir einkavæðingu?  Páll segir reynsluna t.d. sýna að einkaaðilar leggi meiri áherslu á hagkvæmni og arðsemi en opinberir aðilar. Lágt raforkuverð á Íslandi megi ekki eingöngu rekja til hagkvæms reksturs, heldur hafi það náðst með því að halda arðsemi orkufyrirtækja fremur lágri. Möguleikar til hagræðingar í raforkugeiranum séu því líklega meiri en menn kynnu að lesa úr raforkuverði.

Trúverðugri umgjörð - kraftar leystir úr læðingi

Að mati Páls myndi einkavæðing orkufyrirtækja einnig skapa trúverðugri umgjörð um stórar og þjóðhagslega mikilvægar fjárfestingar tengdri stóriðju en nú er. Þá telur hann að með einkavæðingu mætti leysa úr læðingi krafta sem myndu að öðrum kosti ekki nýtast. "Aukinn þróttur og betri þjónusta er einnig oft fylgifiskur einkavæðingar. Óhugsandi er t.a.m. að vöxtur íslenska bankakerfisins hefði verið neitt í líkingu við það sem verið hefur undanfarin ár ef bankarnir hefðu verið áfram í eigu hins opinbera. Af hverju ætti annað að gilda um orkugeirann?" spurði Páll og lauk erindi sínu m.a. á þessum orðum: "Einkavæðingu framleiðslu- og sölufyrirtækja ætti að gefa alvarlegan gaum, ekki síst vegna þess að opinbert eignarhald þeirra er alveg á skjön við nýtt umhverfi raforkugeirans."

Erindi Páls Harðarsonar er að finna í heild sinni í Orkuþingsbókinni sem má nálgast á vef Samorku ásamt öðrum fyrirlestrum sem fluttir voru á Orkuþingi, 12.-13. október.

Samtök atvinnulífsins