Í dag eru 76 ár síðan stjórnarskráin tók gildi. Maður verður alltaf að vera opinn fyrir breytingum og nýjungum á sem flestum sviðum. Það er þó sumt sem þarf að mynda ákveðna kjölfestu, einkum ef það hefur reynst vel. Stjórnarskráin er þar á meðal. Hún hefur staðist tímans tönn.

Stjórnarskráin hefur frá upphafi mælt fyrir um að 1.500 meðmæli þurfi til forsetaframboðs, þótt íbúafjöldinn hafi meira en sexfaldast, auk þess sem tæknin hefur gert það að verkum að mun auðveldara er nú að safna meðmælum. Forsetakosningar hafa gengið vel þegar forseti hættir. En þegar farsælir forsetar hafa sóst eftir endurkjöri þá hefur þetta undanfarið stundum snúist upp í hálfgerðan skrípaleik.

Kostnaður ríkisins af kosningunum er um 500 milljónir. Auðvitað getur það verið sjálfsagður kostnaður við lýðræðið. En það má vel hugsa sér dæmi þar sem lýðræðið snýst upp í andhverfu sína. Segjum að farsæll forseti óski eftir endurkjöri. Margt hæft fólk sem á möguleika á sigri ákveður að bíða með framboð, en popúlisti sem vill vekja athygli á sér og sínum málstað fer í framboð. Hann mælist með undir 10%, á ekki möguleika. Síðan verða breytingar á persónulegum högum forsetans þannig að hann þarf að draga framboð sitt til baka. Sá sem hefði fengið minna en 10% er sjálfkjörinn forseti næstu fjögur árin.

Er það lýðræðislegt? Nei, fjöldi nauðsynlegra meðmæla ætti auðvitað að fylgja mannfjölda. Það er vafalaust ekki auðvelt að vera forseti. Það á því heldur ekki að vera of auðvelt að verða forseti.

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. júní.