Vinnumarkaður - 

01. júlí 2004

50 ára og eldri traustir starfskraftar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

50 ára og eldri traustir starfskraftar

Starfsfólk á aldrinum 50 ára og eldra er mun sjaldnar frá vegna veikinda en sér yngra fólk, vinnur kannski ívið hægar en yngra fólkið en er mun jákvæðara í garð vinnunnar. Þetta eru mjög skýrar niðurstöður könnunar Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja. Spurningarnar voru samdar í samráði við nefnd félagsmálaráðuneytisins sem kannar stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði.

Starfsfólk á aldrinum 50 ára og eldra er mun sjaldnar frá vegna veikinda en sér yngra fólk, vinnur kannski ívið hægar en yngra fólkið en er mun jákvæðara í garð vinnunnar. Þetta eru mjög skýrar niðurstöður könnunar Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja. Spurningarnar voru samdar í samráði við nefnd félagsmálaráðuneytisins sem kannar stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði.

Mun minni veikindafjarvistir
Spurt var um fjarvistir frá vinnu vegna veikinda og svöruðu 47% fyrirtækja því til að starfsfólk 50 ára og eldra væri sjaldnar frá vegna veikinda en yngra fólkið. 3% sögðu 50 ára og eldri oftar frá vegna veikinda en 50% sögðu veikindafjarvistir ekki fara eftir aldri.


 

Lítill munur var á svörum eftir atvinnugreinum, starfssvæði fyrirtækja eða stærð þeirra. Hjá fyrirtækjum í útgerð og hjá fjármálafyrirtækjum var það þó ívið hærra hlutfall en meðaltalið sem sagði 50 ára og eldri oftar frá vinnu, eða um 8%, en 34 og 42% þeirra sögðu 50 ára og eldri sjaldnar fjarverandi. Sömu sögu má segja um stærstu fyrirtækin, með fleiri en 200 starfsmenn, en þar sögðu 6% að 50 ára og eldri væru oftar frá vinnu vegna veikinda en yngra fólkið. 32% sögðu 50 ára og eldri sjaldnar frá vegna veikinda og 61% þeirra sagði fjarvistir ekki fara eftir aldri.

Vinna ívið hægar
Þá var spurt um vinnuhraða. 11% sögðu starfsfólk 50 ára og eldra vinna hægar en sér yngra fólk, 5% sögðu það vinna hraðar. Allur þorri svarenda, eða 84%, sagði hins vegar að vinnuhraði færi ekki eftir aldri.

Aftur var lítill eða enginn munur á svörum eftir stærð fyrirtækja, atvinnugrein eða starfssvæði. Nokkuð hærra hlutfall fjármála-fyrirtækja sagði 50 ára og eldri vinna hægar en yngra fólkið, eða 25%, en ívið hærra hlutfall fyrirtækja í ferðaþjónustu svaraði því til að 50 ára og eldri ynnu hraðar en yngra fólkið, eða 10%. Í öllum tilvikum segja þó langflestir að vinnuhraði fari ekki eftir aldri.

Mun jákvæðari í garð vinnunnar
Loks var spurt um viðhorf til vinnu og svöruðu 42% því til að 50 ára og eldri væru jákvæðari í garð vinnunnar en sér yngra fólk. 2% sögðu þann aldurshóp neikvæðari en 56% sögðu viðhorf til vinnu ekki fara eftir aldri.


 

Enn var lítill eða enginn munur á svörum eftir bakgrunns- breytum svarenda. Hlutfall þeirra sem sögðu 50 ára og eldri með jákvæðara viðhorf til vinnunnar var þó sínu hæst meðal fiskvinnslufyrirtækja, 65%, en hlutfall þeirra sem sögðu 50 ára og eldri neikvæðari í garð vinnunnar var hæst meðal fjármálafyrirtækja, 13%. 42% þeirra sögðu hins vegar 50 ára og eldri jákvæðari í garð vinnunnar en sér yngra fólk.

Kemur ekki á óvart
Niðurstöður könnunarinnar koma ekki á óvart, nema ef vera kynni hve mikið samræmi er í svörunum, þ.e. lítill munur sem kemur í ljós þegar svörin eru flokkuð eftir atvinnugreinum eða eftir stærð fyrirtækja eða starfssvæði. Þessi helstu frávik frá meðaltalinu sem nefnd eru hér að framan geta ekki talist stórvægileg. Almennt séð koma þessar skýru niðurstöður ekki á óvart, en í  könnun sem SA gerðu í desember 2002 kom fram að forsvarsmenn 35% fyrirtækja töldu eldra starfsfólk verðmætara en það yngra. Flestir, eða 62%, töldu það jafn verðmætt en 3% töldu það ekki eins verðmætt.

Um könnunina
Könnunin var gerð í júní. Spurningar voru sendar til 828 aðildarfyrirtækja SA og svör bárust frá 437, eða 53%.
 

Samtök atvinnulífsins