Fréttir - 

12. júní 2018

400 stærstu: Skýr merki um hjöðnun

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

400 stærstu: Skýr merki um hjöðnun

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna skýra viðhorfsbreytingu meðal stjórnenda. Töluvert færri en áður telja aðstæður nú vera góðar í atvinnulífinu og væntingar til næstu sex mánaða eru minni en frá upphafi þessara mælinga.

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna skýra viðhorfsbreytingu meðal stjórnenda. Töluvert færri en áður telja aðstæður nú vera góðar í atvinnulífinu og væntingar til næstu sex mánaða eru minni en frá upphafi þessara  mælinga.

Skortur á starfsfólki minnkar stöðugt og því fjölgar mun hægar en undanfarin ár.

Stjórnendur búast við 3% verðbólgu á næstu 12 mánuðum sem eru hærri verðbólguvæntingar en  undanfarin ár.

Snörp lækkun á mati á núverandi aðstæðum
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, lækkar töluvert og hefur ekki verið lægri síðan árið 2014. 60% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu góðar, samanborið við 70% fyrir þremur mánuðum síðan, og 12% telja þær slæmar en 5% töldu svo þá. Innan við helmingur stjórnenda fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni telja aðstæður góðar samanborið við tvo þriðju hluta annarra stjórnenda.

Minnstu væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði frá upphafi
Væntingar stjórnenda til aðstæðna í atvinnulífinu eftir sex mánuði eru minni en þær hafa verið frá upphafi þessara mælinga, þ.e. minni en þær voru í miðju fjármálahruninu fyrir tæpum 10 árum. 40% stjórnenda telja að aðstæður versni, samanborið við 30% í síðustu könnun, og aðeins 7% telja að þær batni. Væntingar stjórnenda um aðstæður eftir 6 mánuði eru áberandi minni í sjávarútvegi, fjármálaþjónustu og ferðaþjónustu en í öðrum atvinnugreinum. Væntingar stjórnenda á þessu ári hafa breyst mikið frá þeirri bjartsýni sem ríkt hefur undanfarin ár, sbr. meðfylgjandi línurit.

Minni skortur á starfsfólki
Skortur á starfsfólki minnkar jafnt og þétt. Einungis 27% telja sig búa við skort samanborið við 42% fyrir ári síðan. Skortur á starfsfólki er minni í útflutningsgreinum og ferðaþjónustu en öðrum greinum, en mestur skortur á starfsfólki er í byggingariðnaði og verslun.

Starfsmönnum fjölgar hægar
Tæplega 30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Búast má við fjölgun starfsmanna hjá fjórðungi fyrirtækjanna á næstu sex mánuðum en fækkun hjá 16% þeirra. Stjórnendur áætla að starfsmönnum fjölgi mun hægar en undanfarin ár, eða tæplega 0,5% samanborið við 1,5-2,0% undanfarin ár. Búast við fjölgun starfa um tæplega 600 á næstu sex mánuðum séu þessar niðurstöður yfirfærðar á almenna vinnumarkaðinn í heild. Mest fjölgun er fyrirhuguð í ýmissi sérhæfðri þjónustu og byggingarstarfsemi.

Vænta vaxandi verðbólgu
Væntingar stjórnenda um verðbólgu eru nú 3,0% að meðaltali, eða heldur hærri en  verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þetta er sama niðurstaða og í febrúar síðastliðnum, en viðsnúningur frá síðustu árum þar sem verðbólguvæntingar þeirra hafa verið undir markmiði Seðlabankans í tæplega tvö ár.

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 30. maí til 5. júní 2018 og voru spurningar 9.

Í úrtaki voru 426 fyrirtæki sem teljast stærst miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 229, þannig að svarhlutfall var 54%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins