400 stærstu: Jafnvægi og stöðugleiki

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins sýna að stjórnendur í heild telja aðstæður nú vera góðar í atvinnulífinu en þó telja margir að þær fari versnandi á næstu sex mánuðum.

Stjórnendur búast við 3,0% verðbólgu á næstu 12 mánuðum, rúmlega 2% hækkun á verði vöru og þjónustu fyrirtækjanna á ársgrundvelli og að gengi krónunnar veikist um 2%. Stjórnendur telja hækkun launakostnaðar verða meginskýringu á hækkun á verði vöru og þjónustu fyrirtækjanna.

Sæmilegt jafnvægi virðist ríkja á vinnumarkaði þar sem tveir þriðju stjórnenda telja skort á starfsfólki ekki vera vandamál. Þó má búast við umtalsverðri fjölgun starfa því stjórnendur búast við 1,3% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum eða sem nemur 1.700 störfum.

Telja aðstæður enn góðar í atvinnulífinu
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er mjög há eins og undanfarin 3-4 ár. 70% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu góðar, en einungis 5% að þær séu slæmar. Miklu munar þó á mati stjórnenda fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og annarra atvinnugreina þar sem aðeins helmingur þeirra fyrrnefndu telja aðstæður góðar en 80% hinna síðarnefndu.

Margir telja að aðstæður muni versna
Flestir stjórnendur telja að aðstæður í atvinnulífinu verði svipaðar eftir sex mánuði, eða rúm 60%. Margir, eða 30%, telja að aðstæður versni en aðeins 8% að þær batni. Þetta er mikil breyting frá könnunum síðustu fimm ára þegar mun fleiri hafa talið aðstæður fara batnandi en versnandi. Þetta er svipuð niðurstaða og í síðustu könnun en mikil breyting frá þeirri bjartsýni sem ríkt hefur undanfarin ár, eins og sést í meðfylgjandi línuriti.

Minnkandi skortur á starfsfólki
Sæmilegt jafnvægi virðist ríkja á vinnumarkaði þar sem tveir þriðju stjórnenda telja ekki vera skort á starfsfólki en þriðjungur telur fyrirtækin búa við skort. Skorturinn er mestur í iðnaði og ýmissi sérhæfðri þjónustu.

Töluverð fjölgun starfsmanna framundan
Tæplega 30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Búast má við fjölgun starfsmanna hjá þriðjungi fyrirtækjanna á næstu sex mánuðum en fækkun hjá u.þ.b. 10% þeirra. Á grundvelli könnunarinnar má áætla að fjölgun starfsmanna verði 1,3% á næstu sex mánuðum. Sé sú niðurstaða færð yfir á almenna vinnumarkaðinn í heild má búast við að störfum þar fjölgi um 1.700 á næstu sex mánuðum. Mest fjölgun starfsmanna er fyrirhuguð í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu og ýmissi sérhæfðri þjónustu.

Helmingur fyrirtækja með fullnýtta framleiðslugetu
Helmingur stjórnenda telur ekki erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu sem er svipuð niðurstaða og í síðustu könnunum. Sjávarútvegur og byggingariðnaður eiga erfiðast með að mæta aukinni eftirspurn.

Aukinn hagnaður á þessu ári
Tæplega helmingur stjórnenda býst við svipuðum hagnaði fyrirtækjanna sem þeir stýra á þessu ári og því síðasta, þriðjungur býst auknum hagnaði en 20% minnkandi. Nánast enginn munur er á mati stjórnenda útflutningsfyrirtækja og annarra fyrirtækja hvað hagnaðarhorfur varðar.

Aukin eftirspurn á innanlandsmarkaði
Mun fleiri stjórnendur búast við aukningu innlendrar eftirspurnar eftir vöru og þjónustu en samdrætti, þ.e. 36% búast við aukningu en 10% samdrætti, en rúmur helmingur býst við óbreyttri eftirspurn. Enn meiri bjartsýni ríkir gagnvart eftirspurn á erlendum mörkuðum því helmingur stjórnenda býst við aukinni eftirspurn en aðeins 6% búast við samdrætti.

Minnkandi fjárfestingaráform
Fjárfestingar virðast aukast hægar en undanfarin þrjú ár. Heldur fleiri búast nú við aukunum  fjárfestingum en minnkandi, en á undanförnum árum hafa töluvert fleiri stjórnendur búist við aukningu fjárfestinga en samdrætti þeirra. Mestu fjárfestingaráformin eru í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu.

Vænta vaxtahækkunar Seðlabankans
Stjórnendur vænta þess að Seðlabankinn hækki vexti sína á næstunni. Veðlánavextir voru 5,0% á könnunartímabilinu og bjuggust stjórnendur við því að þeir yrðu komnir í 5,8% eftir eitt ár.

Vænta vaxandi verðbólgu
Væntingar stjórnenda um verðbólgu eru nú að meðaltali 3,0%, eða heldur hærri en  verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þetta er nokkur viðsnúningur því verðbólguvæntingar þeirra hafa verið undir markmiði Seðlabankans í tæplega tvö ár. Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3,0% eftir tvö ár sem er sama niðurstaða og í síðustu könnunum. Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 1,2% á næstu sex mánuðum, sem samsvarar 2,4% hækkun á ársgrundvelli, og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 2,2%.

Vænta veikingar gengis krónunnar
Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi krónunnar veikist um 1,8% á næstu 12 mánuðum.

Launakostnaður hefur mest áhrif á verðbólgu
Stjórnendur eru spurðir um þá þætti sem mest áhrif hafa til hækkunar á verði á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra. Hækkun launakostnaðar vegur langþyngst en næst kemur hækkun  aðfangaverðs. Aðrir þættir með lítið vægi eru eftirspurn, samkeppnisstaða og álagning, annar rekstrarkostnaður, framleiðslugeta og framleiðni.
Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 30. janúar til 26. febrúar 2018 og voru spurningar 19.

Í úrtaki voru 426 fyrirtæki sem teljast stærst miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 233, þannig að svarhlutfall var 55%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.