Efnahagsmál - 

15. Oktober 2010

400 stærstu: Áframhaldandi djúp lægð í rekstri fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

400 stærstu: Áframhaldandi djúp lægð í rekstri fyrirtækja

Erfiðleikar í atvinnulífinu endurspeglast skýrt í mati stjórnenda fyrirtækja á stöðu og horfum í ársfjórðungslegri könnun Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Samkvæmt nýrri könnun, sem gerð var í september 2010, telja 80% stjórnenda aðstæður slæmar, 20% að þær séu hvorki góðar né slæmar en enginn að þær séu góðar. Þetta er svipuð niðurstaða og í fyrri könnunum á árinu þar sem fram hefur komið að 80-90% svarenda telja aðstæður í efnahagslífinu slæmar.

Erfiðleikar í atvinnulífinu endurspeglast skýrt í mati stjórnenda fyrirtækja á stöðu og horfum í  ársfjórðungslegri könnun Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Samkvæmt nýrri könnun, sem gerð var í september 2010, telja 80% stjórnenda aðstæður slæmar, 20% að þær séu hvorki góðar né slæmar en enginn að þær séu góðar. Þetta er svipuð niðurstaða og í fyrri könnunum á árinu þar sem fram hefur komið að 80-90% svarenda telja aðstæður í efnahagslífinu slæmar.

Þeim fer fækkandi sem telja að aðstæður verði betri eftir 6 mánuði. Um 20% svarenda sjá fram á betri tíma eftir 6 mánuði, en í júní sl. var hlutfallið 31%  Á hinn bóginn telja nú 29% að ástandið eigi eftir að versna samanborið við 28% í júní sl. Svartsýnin er mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Smelltu á myndina til að stækka
Lægsta gildi vísitölunnar er 0, þegar allir telja aðstæður slæmar en hæst 200, þegar allir telja þær góðar. Jafnvægi er við gildið 100, þegar jafn margir telja aðstæður góðar og þeir sem telja þær slæmar.

45% stjórnenda telja að aðstæður verði betri að ári liðnu samanborið við 53% í mars sl. Þetta er lakari niðurstaða en mælst hefur frá því fyrir efnahagshrunið haustið 2008. Stjórnendur á landsbyggðinni eru einnig svarsýnni en kollegar þeirra á höfuðborgarsvæðinu sem markast mjög af væntingum stjórnenda í sjávarútvegi.

Líkt og í fyrri könnunum telja nær allir aðspurðra sig hafa nægt starfsfólk og einungis 8% búa við skort á starfsfólki. Ráðningaráform stjórnenda benda til þess að það syrti í álinn á næstu 6 mánuðum þar sem 25% þeirra hyggjast fækka starfsmönnum en 17% fjölga. Þetta er nánast sama niðurstaða og var fyrir ári síðan. Verst er ástandið í byggingarstarfsemi og iðnaði þar sem um 40% fyrirtækja sjá fram á fækkun starfa. Þriðjungur fyrirtækja í sérhæfðri þjónustu gera hins vegar ráð fyrir að fjölga störfum. Mikill meirihluti fyrirtækja býr við vannýtta framleiðslugetu þar sem 70% þeirra telja ekkert vandamál að bregðast við óvæntri eftirspurn eða sölu. Nánast allir svarendur búast við því að þetta ástand verði viðvarandi næstu 6 mánuði. Þetta er svipuð niðurstaða og verið hefur síðustu tvö ár.

Varðandi afkomu fyrirtækja þá reikna 40% stjórnenda með minni hagnaði á þessu ári en í fyrra en rúmur fjórðungur (27%) reiknar með betri afkomu. Fleiri stjórnendur á landsbyggðinni (48%) en á höfuðborgarsvæðinu (36%) gera ráð fyrir minni hagnaði í ár. Búist er við lakari afkomu á næstunni þar sem 35% stjórnenda telja að framlegð (EBITDA) fyrirtækisins muni minnka á næstu 6 mánuðum en 23% að hún muni vaxa.

Varðandi eftirspurn þá telur þriðjungur stjórnenda að velta fyrirtækisins aukist á þessu ári en heldur færri (29%) að hún minnki. Að meðaltali er velta talin aukast um 3,2% í krónum talið milli áranna 2009 og 2010. Sama gildir um innlenda eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins þar sem heldur fleiri (25%) telja að eftirspurnin aukist en að hún minnki (20%).

Flestir útflytjenda (73%) gera ráð fyrir óbreyttu söluverði á erlendum mörkuðum næstu 6 mánuði en álíka margir telja að verð muni ýmist hækka eða lækka. Á hinn bóginn gera mun fleiri útflytjendur (43%) ráð fyrir aukinni eftirspurn eftir afurðum þeirra á erlendum mörkuðum en að hún minnki (6%). Það vekur þó athygli að 35% stjórnenda fyrirtækja í flutningum og ferðaþjónustu gera ráð fyrir lægra söluverði á erlendum mörkuðum en á móti reiknar svipað hlutfall við aukinni erlendri eftirspurn.

Þegar kemur að launaþróun þá telja 45% stjórnenda að laun muni hækka á næstu 6 mánuðum og rúmur helmingur (52%) að þau muni standa í stað. Samanvegið reikna stjórnendur með að laun hækki um 1,4% að meðaltali á næstu 6 mánuðum. Í flestum atvinnugreinum er reiknað með hækkunum á bilinu 1-1,5%, nema í byggingariðnaði þar sem ekki er reiknað með neinum hækkunum. Lítill munur er á höfuðborgarsvæði og landsbyggð eða eftir því hvort fyrirtækin selji vörur til útlanda eða ekki.

62% stjórnenda telja að laun starfsmanna hækki á milli áranna 2009 og 2010 en 31% að laun standi í stað. Að meðaltali telja stjórnendur að laun hækki um 1,8% milli áranna 2009 og 2010.

Þriðjungur stjórnenda (33%) telur að fjárfestingar fyrirtækisins í varanlegum rekstrarfjármunum verði minni á þessu ári en á því síðasta, 16% að þær verði meiri en helmingur (51%) að þær muni standa í stað. Þótt horfur um þróun fjárfestingar á þessu ári séu slæmar þá eru þær skárri en fram hefur komið í síðustu könnunum. Í krónum talið áætla stjórnendur að fjárfestingar aukist um 1,6% á þessu ári og miðað við tæplega 6% verðbólgu milli ára er um að ræða 4% raunsamdrátt. Fram koma áform um töluvert auknar fjárfestingar á næsta ári sem endurspeglar áform um aukna álvinnslu og tengdar virkjunarframkvæmdir.

Stjórnendur telja að stýrivextir Seðlabankans fari áfram lækkandi og verði komnir í 5% eftir 12 mánuði. Þá telja þeir að vísitala neysluverðs muni hækka um 2,5% á næstu 12 mánuðum. Hins vegar gera stjórnendur ráð fyrir að 12 mánaða verðbólga eftir 2 ár verði 4%.

Tæpur helmingur (46%) stjórnenda telur að gengi íslensku krónunnar muni styrkjast á næstu 12 mánuðum, 20% þeirra telja að það muni veikjast en þriðjungur (34%) telja að gengið haldist óbreytt. Ekki er þó taldar líkur á mikilli styrkingu, eða að meðaltali um 2%.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 8. september til 1. október 2010 og voru spurningar 32. Í upphaflegu úrtaki voru 500 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun), en í endanlegu úrtaki voru 419. Svarhlutfall var 61,1%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins