Efnahagsmál - 

09. apríl 2010

400 stærstu: Aðstæður slæmar en vonir um batnandi hag

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

400 stærstu: Aðstæður slæmar en vonir um batnandi hag

Aðstæður í efnahagslífinu eru nú slæmar að mati 86% stjórnenda í stærstu fyrirtækjum landsins, 2% telja þær góðar en 12% telja aðstæður hvorki góðar né slæmar. Er þetta meðal niðurstaðna ársfjórðungslegrar könnunar Capacent Gallup á stöðu og horfum meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins, en könnunin var gerð í febrúar og mars 2010. Fjórðungur svarenda telur að aðstæður verði betri eftir sex mánuði, sama hlutfall að þær verði verri en helmingur telur að þær verði óbreyttar. Meiri bjartsýni ríkir um það hvernig aðstæður í atvinnulífinu verða eftir 12 mánuði.

Aðstæður í efnahagslífinu eru nú slæmar að mati 86%  stjórnenda í stærstu fyrirtækjum landsins, 2% telja þær góðar en 12% telja aðstæður hvorki góðar né slæmar. Er þetta meðal niðurstaðna ársfjórðungslegrar könnunar Capacent Gallup á stöðu og horfum meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins, en könnunin var gerð í febrúar og mars 2010. Fjórðungur svarenda telur að aðstæður verði betri eftir sex mánuði, sama hlutfall að þær verði verri en helmingur telur að þær verði óbreyttar. Meiri bjartsýni ríkir um það hvernig aðstæður í atvinnulífinu verða eftir 12 mánuði.

Rúmur helmingur  telur að aðstæður verði betri eftir ár, tæplega 20% að þær verði verri en rúmur fjórðungur að þær verði óbreyttar.Tæplega fjórðungur fyrirtækja hyggst fækka starfsfólki á næstu sex mánuðum, 14% hyggst fjölga starfsmönnum en 62% þeirra býst við óbreyttum starfsmannafjölda.

Mat á núverandi aðstæðum í efnahagslífinu er svipað nú og verið hefur allt frá haustinu 2008, þ.e. yfirgnæfandi meirihluti stjórnenda telur þær vera slæmar. Miðað við síðustu könnun, sem gerð var í desember 2009, fækkar þó í hópi þeirra sem telja þær slæmar úr 92% í 86% og þeim fjölgar úr 8% í 12% sem telja þær hvorki góðar né slæmar. Nú gerist það í fyrsta sinn frá hruninu haustið 2008 að einhverjir telja aðstæður góðar en þeir eru 2% svarenda nú.

Álíka margir telja að aðstæður þróist til betri vegar á næstu sex mánuðum og að þær versni. Samanborið við fyrri kannanir lýsir þessi niðurstaða töluvert meiri bjartsýni um bata á næstunni en ríkt hefur síðast liðið ár. Raunar er gildið á vísitölu efnahagslífsins eftir sex mánuði hærra nú en það hefur verið að meðaltali frá árinu 2005 og mun hærra en það var árin 2005 og 2007. Bjartsýnin er síðan mest um að ástandið verði betra eftir 12 mánuði, en allt frá hruninu hafa þessar kannanir sýnt væntingar um að ástandið verði orðið betra eftir eitt ár, en þær hafa því miður ekki gengið eftir. Sem dæmi um þetta má nefna að í mars 2009 töldu 59% svarenda að aðstæður yrðu betri eftir 12 mánuði en þegar þeir voru spurðir ári síðar þá töldu aðeins 2% þeirra að aðstæður væru góðar.

Vísitala efnahagslífsins - smelltu til að stækka

Rúmlega 60% fyrirtækjanna hyggjast halda óbreyttum starfsmannafjölda, 14% hyggjast fjölga þeim en 24% fækka. Þetta er heldur skárri niðurstaða en í könnuninni í desember sl. en svipuð og í mars 2009. Þessi niðurstaða bendir til þess að hlutfallslegt atvinnuleysi verði svipað á næstunni og verið hefur á fyrstu mánuðum ársins, eða í kringum 9%. Áberandi munur er á svörum stjórnenda fyrirtækja eftir því hvort þau stunda útflutning vöru eða þjónustu eða ekki þar sem útflutningsfyrirtækin hyggjast að jafnaði fjölga starfsfólki nokkuð en önnur fyrirtæki hyggjast fækka starfsfólki umtalsvert.

Fjórir af hverjum fimm stjórnendum fyrirtækjanna telja ekkert vandamál að bregðast við óvænt  aukinni eftirspurn eða sölu, en einungis 3% að það sé vandamál, sem bendir til þess að ríkjandi sé mikil ónýtt afkastageta í atvinnulífinu.

Fjórðungur stjórnenda fyrirtækjanna býst við því að hagnaður fyrirtækisins verði meiri á árinu  2010 en 2009, þriðjungur að hann verði minni en rúm 40% að hann verði óbreyttur. Að jafnaði er búist við 6,4% aukningu veltu sem er u.þ.b. óbreytt velta að raungildi en fleiri stjórnendur búast við veltusamdrætti en veltuaukningu.

Um fimmtungur stjórnenda býst við því að innlend eftirspurn eftir vöru og þjónustu aukist á árinu, fjórðungur að hún minnki en rúmur helmingur að hún standi í stað. Hins vegar býst rúmur helmingur útflytjenda vöru og þjónustu við því að hún aukist, 9% að hún minnki en tæp 40% að hún verði óbreytt.

Stjórnendur búast við því að laun hækki að meðaltali um 0,9% milli áranna 2009 og 2010 og miðgildi hækkana verði 0,0%, þ.e. að laun verði óbreytt hjá a.m.k. helmingi starfsmanna. Stjórnendur útflutningsfyrirtækja telja að meðallaun hækki um 2% en stjórnendur annarra fyrirtækja að þau verði óbreytt.

14% stjórnenda fyrirtækjanna telja að fjárfestingar fyrirtækisins verði meiri á árinu 2010 en 2009, 40% að þær verði minni en 46% að þær verði svipaðar. Rétt er að benda á í þessu samhengi að fjárfestingar atvinnuveganna voru í sögulegu lágmarki árið 2009, en fjárfestingar í heild námu 14% af landsframleiðslu, og hafa ekki verið lægri frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.  Samkvæmt niðurstöðunum verða fjárfestingar minni í öllum atvinnugreinum, bæði á höfuðborgarsvæði og landsbyggð og í öllum stærðarflokkum fyrirtækja. Að meðaltali er samdráttur fjárfestinga áætlaður 12,4% í krónum talið milli áranna 2009 og 2010 og að 17% samdráttur komi til viðbótar árið 2011.

Að jafnaði búast stjórnendur búast við því að verðbólgan verði 3,2% næstu 12 mánuði og að hún verði 5% eftir 2 ár.

Um helmingur stjórnenda telja að krónan styrkist næstu 12 mánuði, 12% að hún muni veikjast en 40% að hún verði óbreytt.

Fjórðungur stjórnenda telur að framlegð fyrirtækisins, þ.e. EBITDA, muni aukast á næstu sex mánuðum, 34% að hún muni minnka en 42% að hún muni standa í stað. Þetta eru svipuð hlutföll og verið hafa síðustu sex mánuði að mati stjórnendanna.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með um 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 11. febrúar til 15. mars 2010 og voru spurningar 32. Í upphaflegu úrtaki voru 500 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun), en í endanlegu úrtaki voru 419. Svarhlutfall var 56,3%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Sjá nánar:

 Könnun Capacent Gallup (PDF)

Samtök atvinnulífsins