11. mars 2022

400 Stærstu: Stríð og verðbólga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

400 Stærstu: Stríð og verðbólga

Reglubundin könnun á stöðu og horfum í efnahagslífinu meðal stærstu fyrirtækja landsins var gerð á tímabilinu 11. febrúar til 8 mars. Rússland gerði innrás í Úkraínu 24.febrúar svo að á miðju könnunartímabilinu gjörbreyttust aðstæður í heimsbúskapnum. Þá skiptir máli fyrir niðurstöðurnar að heimsfaraldur kórónuveiru var í rénun og öllum opinberum sóttvarnartakmörkunum var aflétt daginn eftir innrásina.

Mátu núverandi aðstæður góðar

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er svipuð og í síðustu könnun. Helmingur stjórnenda taldi núverandi aðstæður góðar og aðeins tíundi hver að þær væru slæmar.

Helmingur taldi aðstæður batnandi

Hlutfall stjórnenda sem telja aðstæður fara batnandi hefur lækkað á undanförnum mánuðum. 45% stjórnenda töldu að aðstæður bötnuðu á næstu sex mánuðum en 21% að þær versnuðu.

Spurn eftir starfsfólki vex enn

Skortur á starfsfólki hefur farið vaxandi undanfarin misseri. 42% fyrirtækja býr við skort á starfsfólki en hlutfallið var 11% fyrir ári. Skortur á starfsfólki er langmestur í byggingariðnaði en þar á eftir koma flutningar og ferðaþjónusta.

Starfsmönnum gæti fjölgað um 2.500 á næstu 6 mánuðum

Fyrirtæki áforma umtalsverða fjölgun starfsfólks á næstunni. 27 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni og búast 43% þeirra við fjölgun starfsmanna, 7% við fækkun en helmingurinn við óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki fyrirtækjanna í heild fjölgi um 2% á næstu sex mánuðum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fjölgað um 2.500 á næstu sex mánuðum, þ.e. á tímabilinu mars til ágúst 2022.

Vænta verðbólgu umfram markmið og mikillar hækkunar aðfangaverðs

Verðbólguvæntingar stjórnenda hafa tekið stakkaskiptum undanfarið misseri. Væntingar til eins árs eru nú 5% og hækka úr 4% í síðustu könnun. Væntingar til tveggja ára eru 4,0% og 3,2% til fimm ára.

Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 4,1% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 6,5%. Á ársgrundvelli nema þessar hækkanir 8,4% og 13,4%.

Vænta gengisstyrkingar

Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi krónunnar styrkist um 3,7% á næstu 12 mánuðum.

Útlit fyrir aukningu fjárfestinga á árinu

Fjárfestingavísitalan, sem vísar til áforma um fjárfestingar á árinu 2022, hækkar mikið og er á svipuðu stigi og árin 2015-2017 þegar hún náði sínum hæstu gildum. 31% stjórnenda áætluðu að fjárfestingar aukist milli ára, 15% að þær minnki en 54% að þær verði svipaðar. Útlit er fyrir mikla aukningu fjárfestinga í iðnaði og flutningum og ferðaþjónustu.

Helmingur fyrirtækja með fullnýtta framleiðslugetu

Helmingur stjórnenda telur erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu en hinn helmingurinn að það sé ekkert vandamál.

Hagnaður eykst milli ára

Stjórnendur búast almennt við að hagnaður fyrirtækja aukist árið 2022. 32% stjórnenda búast við meiri hagnaði, 20% minni en 48% svipuðum.

Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan

Almennt var búist við aukinni innlendri eftirspurnar á næstu 6 mánuðum. Tæplega helmingur stjórnenda vænti aukningar, 43% að hún stæði í stað og 8% minnkunar. Enn meiri væntingar voru til erlendra markaða þar sem 61% stjórnenda bjuggust við aukinni eftirspurn en 3% við samdrætti.

Launahækkanir valda verðbólgu

Sem fyrr telja stjórnendur að launahækkanir séu megin skýring verðhækkana hjá fyrirtækjunum sem þeir stýra, en hækkun aðfangaverðs fær meira vægi en áður. 40% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni og 38% til viðbótar setja hann í annað sæti. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 39% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif og 26% setja þau í annað sæti. Aðrir þættir vega mun minna.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 11. febrúar til 8. mars 2022 og voru spurningar 20.

Á miðju könnunartímabilinu, þ.e. 24. febrúar, réðst Rússland inn í Úkraínu sem olli straumhvörfum í alþjóðlegum efnahags- og stjórnmálum. Niðurstöður sýna þannig meðaltal væntinga stjórnenda fyrir og eftir innrásina sem augljóslega breyttust mikið á könnunartímabilinu og eru því lítt marktækar.

Í úrtaki voru 440 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 213, þannig að svarhlutfall var tæplega 50%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins