14. október 2022

400 Stærstu: Brúnir þyngjast

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

400 Stærstu: Brúnir þyngjast

Reglubundin könnun á stöðu og horfum í efnahagslífinu meðal stærstu fyrirtækja landsins var gerð á tímabilinu 18. ágúst til 19. september.

Versnandi mat á núverandi aðstæðum
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, hefur hríðfallið á síðustu sex mánuðum. Nú telur einungis þriðjungur stjórnenda aðstæður góðar en fyrir hálfu ári taldi helmingur þeirra svo vera og nú telur þriðjungur aðstæður slæmar miðað við 12% fyrir hálfu ári síðan.

Einungis fjórðungur telur aðstæður fara batnandi
Mat stjórnenda á aðstæðum eftir sex mánuði versnar samsvarandi og fjölgar þeim mikið sem telja aðstæður fara versnandi. Hlutfall stjórnenda sem telur aðstæður fara batnandi á næstu sex mánuðum hefur lækkað úr 45% í 25% og hlutfallið sem telur þær fara versnandi hækkar úr 21% í 41%.

Starfsmannaskortur vex þrátt fyrir allt
Skortur á starfsfólki vex þrátt fyrir versnandi horfur. 56,5% fyrirtækja býr við skort á starfsfólki sem er 20% hærra hlutfall en fyrir ári síðan. Í öllum helstu atvinnugreinum nema sjávarútvegi og fjármálastarfsemi býr yfir helmingur fyrirtækja við skort á starfsfólki.

Óbreyttur starfsmannafjöldi á næstu 6 mánuðum
Fyrirtækin áforma ekki fjölgun starfsfólks á næstu sex mánuðum, eftir mikla fjölgun fyrr á árinu. 26 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni og búast 20% þeirra við fjölgun starfsmanna, 22% við fækkun en tæp 60% við óbreyttum fjölda.

Vænta hjaðnandi verðbólgu þrátt fyrir mikla hækkun aðfangaverðs
Verðbólguvæntingar stjórnenda fara nú minnkandi eftir mikla hækkun þeirra undanfarin þrjú misseri. Væntingar um verðbólgu næstu 12 mánuði eru nú 5%, lækka um 1% frá síðustu könnun, og væntingar til tveggja ára lækka úr 5,5% í 4,5%.

Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 4,5% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 6,3%. Á ársgrundvelli nema þessar hækkanir 9% og 11%.

Vænta gengisstyrkingar
Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi krónunnar styrkist um 1,0% á næstu 12 mánuðum.

Útlit fyrir aukningu fjárfestinga á árinu
Fjárfestingavísitalan, sem vísar til breytinga fjárfestinga milli áranna 2021 og 2022, er há og sýnir mikla aukningu fjárfestinga milli ára. Fjárfestingar aukast í þriðjungi fyrirtækja, minnka í fimmtungi en eru óbreyttar í tæplega helmingi þeirra. Fjárfestingar aukast mest í flutningum og ferðaþjónustu, verslun og iðnaði.

Helmingur fyrirtækja með fullnýtta framleiðslugetu
Mjög hátt hlutfall fyrirtækja telur erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu, eða rúmlega helmingur þeirra, en hlutfallið hefur verið 30-40% undanfarinn áratug.

Hagnaður eykst milli ára
Stjórnendur búast minni hagnaði en í síðustu könnunum. 36% stjórnenda búast við að hagnaður aukist milli áranna 2021 og 2022, 28% að hann minnki, en 48% að hann verði svipaður.

Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan
Stjórnendur búast við aukinni innlendri eftirspurnar á næstu 6 mánuðum. Rúmur þriðjungur væntir aukningar, helmingur að hún standi í stað og 15% minnkunar. Svipaðar væntingar eru til eftirspurnar á erlendum mörkuðum.

Launahækkanir valda verðbólgu
Sem fyrr telja stjórnendur að launahækkanir séu megin skýring verðhækkana hjá fyrirtækjunum sem þeir stýra. 49% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni, sem er hækkun um 9 prósentustig frá síðustu könnun, og 29% til viðbótar setja hann í annað sæti. Samanlagt setja því 78% stjórnenda launahækkanir sem mesta eða næst mesta verðhækkunartilefnið. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 35% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif og 29% setja þau í annað sæti. Aðrir þættir vega mun minna.

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 18. ágúst til 19. september 2022 og voru spurningar 20.

Í úrtaki voru 465 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 215, þannig að svarhlutfall var 46%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins