Efnahagsmál - 

22. febrúar 2010

300 ný verðmæt störf í Reykjanesbæ

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

300 ný verðmæt störf í Reykjanesbæ

Samtök atvinnulífsins fagna áformum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og Iceland Healthcare um að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á sjúkrahúsinu að Ásbrú, í Reykjanesbæ. Á sjúkrahúsinu verða þrjár skurðstofur og 35 legurými, þar sem boðið verður upp á sérhæfðar meðferðir fyrir útlendinga. Allt að 300 störf munu skapast í tengslum við starfsemina. Gert er ráð fyrir að þjónustuþegar verði um 1.000 talsins fyrsta starfsárið en tvöfaldist síðan á næstu tveimur árum, með árlegum tekjum sem áætlaðar eru um 3,5 milljarðar króna.

Samtök atvinnulífsins fagna áformum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og Iceland Healthcare um að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á sjúkrahúsinu að Ásbrú, í Reykjanesbæ. Á sjúkrahúsinu verða þrjár skurðstofur og 35 legurými, þar sem boðið  verður upp á sérhæfðar meðferðir fyrir útlendinga. Allt að 300 störf munu skapast í tengslum við starfsemina. Gert er ráð fyrir að þjónustuþegar verði um 1.000 talsins fyrsta starfsárið en tvöfaldist síðan á næstu tveimur árum, með árlegum tekjum sem áætlaðar eru um 3,5 milljarðar króna.

Aðeins með sköpun nýrra starfa og aukinni verðmætasköpun er unnt að útrýma atvinnuleysi og tryggja störf fyrir þá sem koma út á vinnumarkaðinn á næstu árum. Meginleiðin til að ná aftur fyrri styrk er að fjárfesta í atvinnulífinu, auka útflutning á vörum og þjónustu, og því eru ofangreind áform verulega jákvæð. Jafnframt er ljóst  að Íslendingar standa frammi fyrir fjölmörgum áskorunum í heilbrigðismálum og leita verður allra leiða til hagræðingar og bæta nýtingu fjármuna.

Í nýju riti SA Atvinna fyrir alla - aðgerðaáætlun 2010 um uppbyggingu atvinnulífsins er að finna stefnumörkun Samtaka atvinnulífsins í heilbrigðismálum. Þar kemur m.a. fram að hlutur einkaaðila í veitingu heilbrigðisþjónustu á Íslandi er of lítill en SA leggja áherslu á að unnið verði út frá ábendingum OECD um heilbrigðismál á Íslandi. Hér á landi er þjónusta í of miklum mæli veitt af dýrum þjónustuaðilum á óþarflega háu tækni- og þjónustustigi, kostnaðarþátttöku er ekki beitt nægilega markvisst og ekki er nægileg samkeppni á milli þjónustuaðila. OECD telur kostnað í íslenska heilbrigðiskerfinu geta lækkað um 1,5% af landsframleiðslu án þess að dregið sé úr þjónustu.

Í stefnumörkun SA segir m.a.:

"Ríkissjóður stendur frammi fyrir því að þurfa að skera niður útgjöld um að stærðargráðunni 100 ma.kr. á næstu árum. Heilbrigðismálin eru stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs og því ljóst að áform efnahagsáætlunar íslenska ríkisins og AGS um hallalaus fjárlög árið 2013 næst ekki nema með verulegri lækkun útgjalda til þessa málaflokks. Efnahags- og þróunarstofnunin, OECD, hefur um nokkurra ára skeið í skýrslum sínum um Ísland (2006, 2008 og 2009) veitt ráð um hvernig auka megi hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu en íslensk stjórnvöld hafa daufheyrst að mestu við þessari ráðgjöf. Staðan í ríkisfjármálunum er hins vegar sú að það verður að leita allra leiða til að draga úr kostnaði án þess að það komi með samsvarandi hætti niður á þjónustunni.

Að mati OECD er íslenska heilbrigðiskerfið yfirmannað í samanburði við önnur lönd og hlutur einkaaðila í veitingu þjónustu minni. Fjölmargar leiðir séu til þess að auka skilvirkni heilbrigðiskerfisins, t.d. með því að afnema hindranir fyrir þátttöku einkaaðila í veitingu þjónustu og stuðla að auknum hlut þeirra, sem er lítill í alþjóðlegum samanburði, og auka samkeppni innan heilbrigðisgeirans. En til þess að útvistun verkefna skili árangri þurfi heilbrigðisyfirvöld að búa yfir nægilegum fjármunum og þekkingu til þess að þau geti aðlagað þjónustusamninga að fyrirliggjandi þörfum og lagt mat á árangurinn. Þá þurfi að koma í veg fyrir að aukið valfrelsi sjúklinga stuðli að of mikilli eftirspurn eftir þjónustunni með upptöku notendagjalda þar sem þau eru ekki fyrir hendi á sjúkrahúsum og endurskoðun þeirra þar sem þau virka ekki nægilega vel, eins og t.d. varðandi lyfjakaup.

OECD bendir einnig á það að íhuga ætti einhvers konar tilvísanakerfi til þess að beina sjúklingum að réttri umönnun. Styrkja þurfi kaupendahlutverk ríkisins með þeim hætti sem stefnt er að með Sjúkratryggingastofnun ríkisins. Loks telur OECD það vera forgangsmál að hraða innleiðingu fjármögnunar sjúkrahúsa sem byggi á umfangi þeirrar þjónustu sem veitt er.

OECD telur mikið svigrúm á Íslandi til bættrar nýtingar mannafla, fjármagns og annarra aðfanga en landið sé í miðjum hópi OECD ríkja í nýtingu aðfanga. Ef Ísland næði sama árangri og Spánn, Ítalía eða Finnland, en árangur þessara ríkja er fjórðungi lakari en þeirra sem bestum árangri ná, þá væri unnt að spara 17,5% útgjalda án þess að það væri á kostnað gæða. Slíkur sparnaður næmi 1,5% af landsframleiðslu.

Í fjárlögum þessa árs er stefnt að því að minnka aðkeypta þjónustu frá einkaaðilum í heilbrigðisþjónustu um 30% sem mun valda því að mörg einkarekin fyrirtæki þurfa að hætta starfsemi. Þetta er öfugþróun því einkaaðilar geta í mörgum tilvikum veitt hagkvæmari og skilvirkari þjónustu en ríkið veitir. Með þessu er vegið að einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni og há hlutdeild ríkisins við veitingu þjónustunnar aukin enn frekar."

Sjá nánar:

Umfjöllun um verkefni Kadeco og Iceland Healthcare

Smellið hér til að sækja rafrænt eintak af Atvinna fyrir alla (PDF)

Samtök atvinnulífsins