Efnahagsmál - 

03. Janúar 2012

2011 leið hjá án þess að tækist að örva fjárfestingar og atvinnusköpun

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

2011 leið hjá án þess að tækist að örva fjárfestingar og atvinnusköpun

Morgunblaðið fjallaði á gamlársdag um þróun efnahagsmála á árinu 2011 og þau markmið sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld settu sér í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí 2011. Samningarnir hvíla m.a. á yfirlýsingu stjórnvalda sem gáfu fyrirheit um að greiða fyrir stórum fjárfestingarverkefnum þannig að umfang fjárfestinga verði 350 milljarðar króna á ári í lok samingstímans. Enn bólar ekkert á stóru fjárfestingarverkefnunum og ekki hefur tekist að ná margboðaðri sátt í sjávarútvegsmálum sem viðheldur óvissu í einum af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og veldur verulegum skaða.

Morgunblaðið fjallaði á gamlársdag um þróun efnahagsmála á árinu 2011 og þau markmið sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld settu sér í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí 2011. Samningarnir hvíla m.a. á yfirlýsingu stjórnvalda sem gáfu fyrirheit um að greiða fyrir stórum fjárfestingarverkefnum þannig að umfang fjárfestinga verði 350 milljarðar króna á ári í lok samingstímans. Enn bólar ekkert á stóru fjárfestingarverkefnunum og ekki hefur tekist að ná margboðaðri sátt í sjávarútvegsmálum sem viðheldur óvissu í einum af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og veldur verulegum skaða.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, bendir í samtali við Morgunblaðið á að fjárfestingar hafi í heild verið 155 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum 2011. Atvinnuvegafjárfestingar námu 103 milljörðum króna, skv. tölum Hagstofunnar.

"Fjárfestingar í heild jukust vissulega frá sama tíma í fyrra, einkum fjárfestingar atvinnuveganna. Þær jukust um 15 milljarða í krónum talið eða um 13%. En þær voru samt helmingi minni að raungildi en árið 2008," segir Hannes.

"Hlutfall fjárfestinga í heild af landsframleiðslu var 12,7% á fyrstu níu mánuðum 2011, sem er sama hlutfall og fyrstu níu mánuðina 2010. Hlutfallið er því enn í því sögulega lágmarki sem það náði í fyrra, samkvæmt þessum tölum, og svo lágt hlutfall fjárfestinga sést vart meðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við," segir hann og minnir á að í viðræðum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda sl. vor voru menn almennt sammála um að fjárfestingar þyrftu að aukast verulega.

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, segir í umfjöllun Morgunblaðsins auknar fjárfestingar mjög mikilvægar. "Auknar fjárfestingar eru lykillinn að bættum lífskjörum," segir hann og bætir við að fjárfestingar muni ráða því hversu hratt okkur takist að vinna okkur út úr efnahagsvandanum. Það sé því forgangsmál að stuðla að auknum fjárfestingum "Til skamms tíma skapa þær aukna atvinnu við fjárfestingarnar sjálfar og til framtíðar leggja þær grunninn að hagvexti. Það er því mikið áhyggjuefni að fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki. Í fyrra námu fjárfestingar aðeins um 13% af landsframleiðslunni og hefur þetta hlutfall ekki verið lægra frá lokum seinni heimstyrjaldar," segir Ólafur.

Það er ljóst að verkefnin framundan í íslensku efnahagslífi eru ærin á fjölmörgum sviðum ef takast á að koma Íslandi út úr kreppunni eins og fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins 31. desember 2011:

"Flestum ber saman um að stærsta viðfangsefnið í efnahagslífinu er að liðka fyrir svo fjárfestingar atvinnuveganna fari í gang af alvöru. Undir lok ársins mælist atvinnuleysi yfir 7% og langtímaatvinnuleysi virðist hafa fest sig í sessi. Útlit er fyrir að árið sem er að líða hafi verið næstmesta brottflutningsár Íslendinga í sögunni.

Doði og vantraust er ekki björguleg blanda í samfélagi, sem reynir að rétta úr kútnum eftir áföll kreppunnar. Svartsýni er enn áberandi við upphaf fjórða almanaksársins frá bankahruninu. Könnun sem gerð var í lok október og byrjun nóvember sýndi að aðeins tæpur fjórðungur stjórnenda fyrirtækja gerði ráð fyrir því að fjárfestingar yrðu meiri í ár en í fyrra.

Mörgum hnykkti við þegar lífskjararannsókn Hagstofunnar leiddi í ljós á árinu að 52% heimila sögðust eiga erfitt með að ná endum saman og hafði þeim þá fjölgað frá árinu á undan.

Þó vísbendingar hafi komið fram um viðsnúning til hins betra á sumum sviðum, t.a.m. hafi erlendum ferðamönnum fjölgað um 20% á þessu ári og afkoma sjávarútvegsfyrirtækja sé almennt góð, glíma fyrirtæki og heimili enn við alvarlegustu vandamálin; ofurþungar skuldabyrðar og hindranir, sem standa í vegi fyrir því að stórtækar fjárfestingar fari í gang, svo skapa megi ný störf.

Ekki bætir úr skák að stjórnvöld og forsvarsmenn í atvinnulífinu eru á öndverðum meiði um lykiltölur hagkerfisins, s.s. um hvort hér hafi átt sér stað fjölgun starfa. Ráðherrar halda því fram að til hafi orðið fimm þúsund ný störf frá því að atvinnuleysið náði hámarki sínu í fyrra. En Samtök atvinnulífsins vísa á Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar, sem sýnir svart á hvítu að störfum fjölgaði aðeins um 167 á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Öllu jákvæðara er þó að þeim sem eru í fullu starfi fjölgaði um 1.400 og fækkun varð í hópi fólks í hlutastarfi.

Samkeppniseftirlitið kynnti sér málin hjá 120 stórum fyrirtækjum á árinu og komst að raun um, að sá vandi sem blasti við atvinnulífinu væri kerfislægur og djúpstæðari en svo að skemmri tíma hagtölur næðu að endurspegla hann. Í ljós kom að fjárhagsstaða tæplega helmings stærri fyrirtækja var mjög slæm.

Nú undir lok ársins standa samanlagðar skuldir heimila og fyrirtækja í 314% af landsframleiðslu. Þær hafa vissulega lækkað en atvinnulífið er enn í viðjum hafta. Fyrstu varfærnu skrefin voru stigin í átt að losun gjaldeyrishafta á árinu og samstarfinu lauk við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Stjórnvöld boða að nú hilli undir efnahagsbata. Spáð er að þegar upp er staðið hafi orðið 2,6% hagvöxtur á árinu. Þetta er þó allt of lítill vöxtur til að standa undir nauðsynlegri fjölgun starfa. Þegar málin eru skoðuð betur kemur á daginn að einkaneysla er helsti drifkraftur hagvaxtarins. Það er áhyggjuefni ef á bak við aukin útgjöld er ekki varanleg kaupmáttaraukning heldur neyslubóla. Fólk hefur meira fé milli handanna eftir útgreiðslur séreignarsparnaðar, sem náðu hámarki á árinu og nálgast 67 milljarða frá mars 2009, vaxtaniðurgreiðslur, eingreiðslur og kauphækkanir, sem samið var um á vinnumarkaði.

Fjárlög næsta árs voru afgreidd með liðlega 20 milljarða halla en markmiðið er dýrkeypt og því aðeins náð með sársaukafullum niðurskurði og fyrirferðarmikilli skattheimtu. Á seinustu fjórum árum voru gerðar vel á annað hundrað breytingar á sköttum atvinnulífs og heimila skv. samantekt Viðskiptaráðs.

Sjávarútvegurinn er sem fyrr þýðingarmesta bjargræði þjóðarinnar. Aflaverðmæti jókst um ellefu milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins en fyrirtækin í sjávarútvegi lifa í óvissu um framtíð fiskveiðistjórnunar og treysta sér ekki í fjárfestingar við svo búið."

Byggt á umfjöllun Morgunblaðsins 31. desember 2011

Tengt efni:

Yfirlýsing ríkisstjórnar vegna kjarasamninga til þriggja ára, 5. maí 2011 (PDF)

Samtök atvinnulífsins