200 milljónir aukalega til framhaldsfræðslu

Aukafjárveitingu upp á tæplega 200 milljónir króna hefur verið  úthlutað til símenntunarmiðstöðva um allt land og fræðslusetra á vegum atvinnulífsins til að kenna fjölbreyttar námsleiðir og meta raunfærni.  Úthlutunin var staðfest á  fundi Fræðslusjóðs í byrjun september.

Um mitt ár kom í ljós að fjárveitingar ársins til framhaldsfræðslu dugðu engan veginn til að mæta aðsókn í raunfærnimat og fjölbreyttar námsleiðir sem gefa einingar  á framhaldsskólastigi. Afar jákvætt er að fólk með fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu vilji  sækja inn í menntakerfið viðurkenningu á þekkingu og færni sem það hefur aflað í starfi. Þau auknu og nýju tengsl sem hafa orðið til  milli atvinnulífs og menntakerfisins eru heillavænleg og líkleg til stuðla að viðurkenningu á því að vinnustaðir eru líka námsstaðir.

Fræðslusjóður heldur utan um fjárframlög til framhaldsfræðslu. Markhópur hennar er fólk  á vinnumarkaði sem er orðið  tvítugt og hefur ekki  lokið viðurkenndu námi úr framhaldsskóla.

Raunfærni hátt á annað þúsund manna og kvenna hefur verið metin á undanförnum árum og hafa flest þeirra haldið áfram námi að formlegum námslokum.

Raunfærni fólks er annars vegar metin  á móti  námsskrám framhaldsskóla en hefur einkum hingað til boðist í löggiltum iðngreinum. Mikil og síaukin aðsókn er í slíkt raunfærnimat. Keppst er við á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins að undirbúa raunfærnimat  á móti öðrum virkum námsskrám framhaldsskóla. Raunfærnimat á móti námskrám framhaldsskóla  sparar bæði tíma og peninga.  Að meðaltali fá þeir sem í  það fara, metið sem svarar eins árs námi og munar um minna  þegar fólk vill ljúka viðurkenndu námi.

Einnig er raunfærni metin á móti viðmiðum sem atvinnulífið setur. Þá skilgreinir atvinnugrein, hvaða þekkingu færni og hæfni þurfi til tiltekinna starfa  og er raunfærni, þeirra sem þar vilja vinna, metin á móti þeim viðmiðum.  

Viðbótarfjármunirnir sem fara í vottaðar námsleiðir nýtast vel, ekki síst á  suðvesturhorni landsins en einnig á landsbyggðinni. Spurn eftir slíkum námsleiðum í haust er meiri en hægt er að anna jafnvel með aukafjárveitingu.

Féð fer í að kenna fjölbreytt starfstengt nám með aðferðum fullorðinsfræðslu t.d. grunnnám í menntastoðum, stuðningsfulltrúanám, nám í meðferð matvæla, færni í ferðaþjónustu og nám sem ber heitið skrifstofuskóli.

Aukafjárveitingin nú, er eins skiptis aðgerð. Hún fékkst fyrir tilstilli verkefnisstjórnar  Nám er vinnandi vegur. Efnt var til verkefnisins  árið 2011 í tengslum við kjarasamninga og byggir á samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Það miðar meðal annars að því að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.