Efnahagsmál - 

25. apríl 2003

15 til 40 milljarðar í eftirlitsiðnaðinn?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

15 til 40 milljarðar í eftirlitsiðnaðinn?

Fyrir tíu árum síðan tók Vinnuveitendasamband Íslands saman upplýsingar um beinan kostnað atvinnulífsins við svokallaðan eftirlitsiðnað, það er þau heildargjöld sem atvinnulífið greiðir í þessu samhengi. Niðurstaða þeirrar úttektar var sú að bein gjöld atvinnulífsins væru alls rúmar 900 milljónir króna á þávirði, eða um 1,2 milljarðar króna á núvirði, en tekið var fram að eflaust væri ekki um tæmandi samantekt að ræða.

Fyrir tíu árum síðan tók Vinnuveitendasamband Íslands saman upplýsingar um beinan kostnað atvinnulífsins við svokallaðan eftirlitsiðnað, það er þau heildargjöld sem atvinnulífið greiðir í þessu samhengi. Niðurstaða þeirrar úttektar var sú að bein gjöld atvinnulífsins væru alls rúmar 900 milljónir króna á þávirði, eða um 1,2 milljarðar króna á núvirði, en tekið var fram að eflaust væri ekki um tæmandi samantekt að ræða.

Beinn kostnaður atvinnulífsins 1,6 milljarðar á ári
Nú hefur þetta yfirlit verið uppfært af Samtökum atvinnulífsins og þá kemur í ljós að þessi beini mælanlegi kostnaður er nú tæplega 1,6 milljarðar króna á ári, eins og sjá má í  meðfylgjandi töflu, eða um 30% hærri á núvirði en fyrir tíu árum síðan. Í þessu samhengi ber þó að leggja áherslu á að þessar tölur segja einungis til um þau lögboðnu eftirlitsgjöld sem greidd eru, ekki um heildarkostnað atvinnulífsins við að mæta kröfum eftirlitsins eða heildarkostnað samfélagsins vegna eftirlitsiðnaðarins.

Heildarkostnaður 15-40 milljarðar?
Í nýlegri skoðanakönnun SA meðal aðildarfyrirtækja kom til dæmis fram að mörg fyrirtæki segjast þurfa að hafa sérstakt fólk á launaskrá til að sinna skýrslugjöf til opinberra aðila. Það er því ljóst að heildarkostnaðurinn við eftirlitsiðnaðinn er miklum mun hærri en sem nemur þessum beinu gjöldum. Erlendis er reynslan sú að óbeinn kostnaður fyrirtækja vegna eftirlits er mun hærri en útgjöld opinberra aðila. Í Bandaríkjunum hefur til dæmis verið áætlað að kostnaður fyrirtækja sé 55 sinnum hærri en útgjöld opinberra aðila ( sjá greinargerð nefndar um eftirlitsstarfsemi hins opinbera ). Þá hefur heildarkostnaður vegna eftirlitsiðnaðarins í ESB verið metinn sem jafnvirði 2-5% af samanlagðri þjóðarframleiðslu aðildarríkjanna (sjá "Mandelkern skýrslu" ráðherraráðs ESB). Ef sú tala væri yfirfærð beint á Ísland væri heildarkostnaður samfélagsins vegna eftirlitsiðnaðarins hér á bilinu 15 til 40 milljarðar króna. En jafnvel þótt hlutfallið væri einhverra hluta vegna helmingi lægra hér er ljóst að um verulega fjármuni er að ræða, eða um sjö til tuttugu milljarða króna og því eftir miklu að slægjast í skyni hagræðingar.

Framangreindar tölur yfir eftirlits- og leyfisgjöld, sem árlega eru lögð á atvinnulífið, eru í allflestum tilvikum fengnar frá viðkomandi eftirlitsstofnunum. Upphæðir eru oftast áætlaðar út frá rekstri ársins 2002 en í einhverjum tilvikum er byggt á rekstraráætlun fyrir árið 2003. Tölurnar endurspegla í raun aðeins beinar greiðslur atvinnulífsins til viðkomandi eftirlitsstofnana, en gefa á engan hátt til kynna raunveruleg útgjöld atvinnulífsins vegna eftirlits og leyfisveitinga né heildarkostnað samfélagsins vegna eftirlitsiðnaðarins.

Bætum lífskjörin!
Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þriðjudaginn 29. apríl verður kynnt ný skýrsla samtakanna, Bætum lífskjörin!, þar sem fjallað er um leiðir til bættra lífskjara með kerfisumbótum. Reglubyrði og opinber eftirlitsstarfsemi eru þar til nánari umfjöllunar, sem og vinnumarkaðsmál, matvælaverð, heilbrigðiskerfið og fleiri svið, þar sem Samtök atvinnulífsins telja eftir miklu að slægjast í hagræðingarskyni.


 

Samtök atvinnulífsins