14.101 án vinnu í lok apríl

Samkvæmt nýjustu skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði þá voru 14.101 án vinnu í lok apríl og skráð atvinnuleysi 8,1%. Atvinnuleysið var 8,7% á höfuðborgarsvæðinu en 6,9% á landsbyggðinni. Mest var það á Suðurnesjum 13,6%, en minnst á Norðurlandi vestra 4,1%. Atvinnuleysið var 8,6% meðal karla og 7,4% meðal kvenna.  Næstu tölur um þróun atvinnuleysis verða birtar þann 14. júní á vef Vinnumálastofnunar.

Hér má sjá yfirlit Vinnumálstofnunar um þróun atvinnuleysis frá apríl 2009 til apríl 2011.

Atvinnuleysi í apríl 2009 - apríl 2011.

Smelltu á myndina til að stækka.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysi minnki í maí, en verði áfram mjög hátt í sögulegu samhengi eða á bilinu 7,4%-7,8%. Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 8.348 og fjölgar um 159 frá lokum mars og er um 59% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok apríl. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fækkar úr 4.837 í lok mars í 4.801 í lok apríl.

Alls voru 2.523 á aldrinum 16‐24 ára atvinnulausir í lok apríl en 2.741 í lok mars eða um 18% allra atvinnulausra í apríl og fækkar um 218 frá því í mars. Í apríl 2010 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 3.024.

Sjá nánar á vef Vinnumálastofnunar