100 milljarða ófjármögnuð kosningaloforð

„Það er sérstakur kapítuli að loforðastraumur stjórnmálaflokka þessa dagana getur falið í sér allt að 100 milljarða árleg aukin útgjöld án þess að hugað sé að fjármögnun þeirra. Þær hugmyndir sem þó hafa verið settar fram um auknar tekjur eða skattahækkanir duga hvergi nærri til að fjármagna kosningaloforðin. Enn eina ferðina keppast stjórnmálaflokkar við að yfirbjóða hver annan á óábyrgan hátt með bólgnum kosningaloforðum.“ Þetta sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins á opnum fundi SA sem fram fór í Hörpu í morgun.

„Þetta lýsir grundvallarvanda íslenskra stjórnmála að stjórnmálamenn og flokkar komast upp með slíkt ábyrgðarleysi, og kann það að vera meginástæða þess vantrausts sem þeir búa við hjá þjóðinni. Vegna þessa er nú mikil hætta á að hin séríslenska, reglubundna hringrás í efnahagsmálum og höfrungahlaup á vinnumarkaði muni öðlast nýtt líf með aukinni verðbólgu, vaxtahækkunum og tilheyrandi óvissu,“ bætti Eyjólfur við.

Erindið í heild má lesa hér að neðan en fundurinn er hluti af haustfundaröð SA sem nú stendur yfir.

Markmið kjarasamninga sem gerðir voru 2015 um aukinn kaupmátt launa hafa gengið eftir og ríflega það. Hagur heimila hefur vænkast, þau hafa greitt niður skuldir, eignir þeirra vaxið .

„Síðastliðið vor ákváðum við hjá Samtökum atvinnulífsins að efna til fundaferðar um landið á haustdögum til að kynna félagsmönnum okkar og öðrum sem á vilja hlíða mat okkar á stöðu efnahagsmála og hvernig við sjáum fyrir okkur komandi kjarasamninga.

Við áttum ekki von á að verða í miðri kosningabaráttu til alþingis með þessa fundi okkar en við látum óstöðugleika stjórnmálanna ekki trufla vinnu okkar við að stuðla að efnahagslegum stöðugleika.

Markmið kjarasamninga sem gerðir voru 2015 um aukinn kaupmátt launa hafa gengið eftir og ríflega það. Hagur heimila hefur vænkast, þau hafa greitt niður skuldir, eignir þeirra vaxið og búið hefur verið í haginn fyrir framtíðina.

Niðurstaða kjarasamninga á hverjum tíma er mikilvægur þáttur efnahagsstefnunnar. Efnahagslegur stöðugleiki getur raskast vegna óábyrgra kjarasamninga, jafnvel þótt fjármálastefna hins opinbera og peningastefna Seðlabankans sé ábyrg og aðhaldssöm. Um það eru mörg dæmi á síðustu áratugum og okkur ber að læra af mistökum okkar, endurskoða markmið og verklag og taka vinnubrögð frænda okkar á Norðurlöndum til fyrirmyndar. Þar er samkeppnishæfni atvinnulífsins ávallt í forgrunni því ef hún skerðist þá minnkar verðmætasköpun og störf tapast.

Breytt og bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga byggja á því að launastefnan á hverjum tíma sé ekki mörkuð af ríkinu og sveitarfélögunum heldur á almenna vinnumarkaðnum og ráðist af getu fyrirtækja sem starfa við aga alþjóðlegrar samkeppni. Enginn hópur, ekkert stéttarfélag er þar undanskilið. Þannig er þessu farið á hinum Norðurlöndunum og þar hefur ríkt almenn sátt um þessa stefnu, þótt hún sé ekki óumdeild, því hún hefur tryggt stöðugleika í efnahagslífinu, lága verðbólgu og hæga en örugga aukningu kaupmáttar, ár eftir ár, áratug eftir áratug.

En við erum ekki enn búin að taka upp norræna kjarasamningalíkanið þó að skref hafi verið tekið í þá átt og því þarf atvinnulífið enn um sinn að búa við þann möguleika að ríki og sveitarfélög veiti ekki mikla viðspyrnu gegn óraunhæfum kröfum viðsemjenda sinna.

Úrelt kjarasamningalíkan á Íslandi veldur því að atvinnulífið býr við stöðuga óvissu um launabreytingar og verðbólgu og þessi óvissa er nú meiri en oft áður. Þetta er merkilegt vegna þess að efnahagslífið stendur með meiri blóma og almenningur nýtur meiri hagsældar en nokkru sinni fyrr.

Við höfum heyrt það á fundaferð okkar um landið að forsvarsmenn fyrirtækjanna hafa áhyggjur af stöðu mála. Gengi íslensku krónunnar hefur þrengt að rekstri margra þeirra og afkoman versnað.

Auk kjaramála stöndum við frammi fyrir víðtækum loforðum stjórnmálamanna um aukin ríkisútgjöld sem vart verða fjármögnuð öðru vísi en með miklum skattahækkunum sem aftur munu þýða auknar kröfur um launahækkanir í kjarasamningum með tilheyrandi verðbólgu.

Það er síðan sérstakur kapítuli að loforðastraumur stjórnmálaflokka þessa dagana getur falið í sér allt að 100 milljarða árleg aukin útgjöld án þess að hugað sé að fjármögnun þeirra. Þær hugmyndir sem þó hafa verið settar fram um auknar tekjur eða skattahækkanir duga hvergi nærri til að fjármagna kosningaloforðin. Enn eina ferðina keppast stjórnmálaflokkar við að yfirbjóða hver annan á óábyrgan hátt með bólgnum kosningaloforðum. Þetta lýsir grundvallarvanda íslenskra stjórnmála að stjórnmálamenn og flokkar komast upp með slíkt ábyrgðarleysi, og kann það að vera meginástæða þess vantrausts sem þeir búa við hjá þjóðinni.

Vegna þessa er nú mikil hætta á að hin séríslenska, reglubundna hringrás í efnahagsmálum og höfrungahlaup á vinnumarkaði muni öðlast nýtt líf með aukinni verðbólgu, vaxtahækkunum og tilheyrandi óvissu.

Fyrirtækin munu bregðast við þessari stöðu með því að draga úr fjárfestingum, hægja á nýsköpun og forðast áhættu á mörkuðum. Þau munu halda að sér höndum og reyna að byggja á því sem fyrir er.

En ef rétt er nú á málum haldið getum við viðhaldið góðri stöðu efnahagsmála og varið þann kaupmátt sem hefur áunnist. Vonandi berum við gæfu til þess að hér verði eftir kosningar mynduð ríkisstjórn sem gerir ábyrga kjarasamninga við stéttarfélög starfsmanna sinna, eins og þáverandi ríkisstjórn gerði með rammasamkomulaginu árið 2015, sýni aðhald í ríkisfjármálum og gætir hófs í skattheimtu bæði gagnvart almenningi og fyrirtækjum og átti sig á því að sígandi lukka er best. Þannig hafa grannþjóðir okkar náð árangri og tekist að byggja upp góð lífskjör, stöðugleika í efnahagsmálum til langs tíma og um leið tryggt samkeppnishæfni fyrirtækja og öflugt atvinnulíf.

Að lokum - vinnum agað og sýnum skynsemi.“