Sáttmáli gegn einelti, áreitni og ofbeldi

Samtök atvinnulífsins hafa uppfært sáttmála gegn einelti, áreitni og ofbeldi og sem fyrr, hvetja SA starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja til að gera gildi hans að hluta af daglegum rekstri. SA hafa útbúið veggspjöld með sáttmálanum en þau er hægt að hengja upp í kaffistofum eða á göngum fyrirtækja til að minna á mikilvægi þess að tryggja vellíðan á vinnustöðum, öryggiskennd og góðan starfsanda.

Í sáttmálanum sem má nálgast hér eru dregin fram gildi sem geta minnkað hættu á að einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum eigi sér stað. Með því að hafa þau í heiðri stuðla starfsmenn að heilbrigðri vinnustaðamenningu.

Sáttmálann má einnig nálgast í Húsi atvinnulífsins og fyrirtæki geta óskað eftir því að fá það sent í pósti með því að senda tölvupóst á sa@sa.is .

Ef þú vilt útfæra eigin útgáfu og bæta við merki fyrirtækisins á veggspjaldið er sjálfsagt að útvega hrágögn.

SÁTTMÁLI GEGN EINELTI, ÁREITNI OG OFBELDI

Góð vinnustaðamenning skiptir sköpum fyrir vellíðan starfsfólks. Á vinnustaðnum eigum við góð samskipti og virðum eftirfarandi sáttmála.

  • Við þekkjum stefnu og viðbragðsáætlun fyrirtækisins gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi og erum meðvituð um skyldur okkar.
  • Við sýnum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum.
  • Við líðum ekki einelti, áreitni eða ofbeldi.
  • Við beitum ekki slíkri háttsemi og vitum að meðvirkni getur skaðað starfsfólk og vinnustað okkar.
  • Við tökum tillit til ábendinga um að við getum bætt framkomu okkar.
  • Við berum sameiginlega ábyrgð á vinnuumhverfinu og leggjum okkar af mörkum til að bæta það enn frekar.
  • Við erum ólík, með mismunandi bakgrunn og lífsskoðanir, en sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum.
  • Við skiljum að upplifun af samskiptum er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum og tilfinningum annarra.
  • Við ræðum um framkomu sem okkur mislíkar, tökum upp varnir fyrir þá sem brotið er gegn og styðjum starfsfólk í að breyta hegðun sinni.

Sjá nánar:
Fræðsluefni á Vinnumarkaðsvef SA

Sniðmát til að nýta fyrir stefnu og viðbragðsáætlun fyrirtækja:
Opið sniðmát fyrir fyrirtæki um stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi (word)