Starfsfólk

Hæft og ánægt starfsfólk er nauðsynlegt hverju fyrirtæki. Góð vinnuaðstaða og samskipti skipta sköpum í að ná fram því besta í fólki og hægt er að flýta fyrir því að nýr starfsmaður geti lagt sitt af mörkum með greinargóðri kynningu á starfinu og nýja vinnustaðnum. Nauðsynlegt er að kröfur til starfsmanna séu skýrar og að vel sé staðið að ferli í kringum ráðninguna.

Samskipti við starfsmenn

Starfsmenn eru andlit fyrirtækis út á við og mikilvægt er að eiga jákvæð og góð samskipti við þá. Það er mikilvægt að starfsmönnum líði vel og finnist skemmtilegt í vinnunni. Góður starfsandi er ómetanlegur og skilar sér í auknum afköstum. Einn liður í jákvæðum samskiptum við starfsfólk er t.d. að hrósa þeim fyrir vel unnin störf.

Vinnuaðstaða

Starfsfólk skilar frá sér betri afköstum þegar því líður vel. Mikilvægt er því að vinnuaðstaða starfsmanns sé góð og sæmi starfi viðkomandi.

Nýir starfsmenn

Nýir starfsmenn þurfa þjálfun. Leiðbeinendur þurfa að vera uppbyggilegir, jákvæðir og þolinmóðir. Til þess að nýr starfsmaður aðlagist sem best er mikilvægt að taka vel á móti honum. Kynna skal starfsmanni gildi og markmið fyrirtækisins. Að sama skapi er mikilvægt að starfsmaður þekki vel hlutverk sitt innan fyrirtækisins og þær kröfur sem eru til hans gerðar. Góð þjálfun og skýrar boðleiðir skila sér margfalt til baka í auknum afköstum og bættri þjónustu til viðskiptavina.

Starfsánægja

Ánægður starfsmaður afkastar meiru en óánægður. Ef starfsmaður er óánægður eða uppfyllir ekki væntingar þarf að taka strax á málinu, ræða við hann og finna rót vandans. Starfsmaður getur t.d. verið ánægður með vinnustaðinn en óánægður með verkefnin sín þar sem þau reyna ekki á styrkleika hans eða eru ekki á hans áhugasviði. Vinnuveitandi þarf að vera meðvitaður um styrkleika og veikleika hvers starfsmanns til að nýta hans starfskrafta rétt þannig að báðir aðilar fái sem mest út úr samstarfinu.

Kröfur til starfsmanna

Kröfur til starfsmanna þurfa að vera skýrar og raunhæfar. Starfsmenn hafa ekki alltaf sama hvata og eigendur fyrirtækja til að vinna langa vinnudaga.

​Afkastahvetjandi- og árangurstengd launakerfi geta reynst vel til þess að auka framlegð. Í fyrirtækjum starfar oft fólk með ólíka persónuleika og langanir. Sumt starfsfólk starfar t.d. betur undir rólegu andrúmslofti og fyrirsjáanleika í vinnuréttarsambandinu meðan öðru starfsfólki getur hentað betur að hafa meiri áskoranir og möguleika á því að vinna lengri vinnudag ef þörf er á. Fjölbreytileiki getur verið mikill styrkur fyrir fyrirtæki.

​Þau fyrirtæki sem vilja ná sem bestum árangri og laða að sér fjölbreytt starfsfólk þurfa einnig oft að hafa fjölbreytt launakerfi.

Lög og kjarasamningar

Í lögum og kjarasamningum eru ákveðnar skuldbindingar lagðar á herðar vinnuveitenda sem mikilvægt er að hafa í huga strax í upphafi rekstrar. Reynt getur á þessar skyldur við ráðningu starfsmanna, á meðan ráðningu varir, við lok ráðningar og jafnvel eftir þann tíma. Á vinnumarkaðsvef Samtaka atvinnulífsins er að finna greinargóða umfjöllun um helstu skuldbindingar sem vinnuveitendur þurfa að hafa í huga í þessu sambandi.