Markmið

Markmið eru nauðsynleg til árangurs. Ekki er vænlegt til ávinnings að reka fyrirtæki stefnulaust „frá degi til dags”. Stefnumótun er nauðsynleg öllum fyrirtækjum og markmið eru lykilatriði í stefnumótun.

Framtíðarsýn

​Setja þarf skýr markmið strax í upphafi og móta stefnu um hvernig á að ná þeim. Spyrja þarf spurninga á borð við:

  • Hvers konar fyrirtæki á að starfrækja?
  • Hvaða markhóp(a) á að þjónusta?
  • Hver á sérstaða fyrirtækisins að vera?
  • Hvaða þjónustu/vörur á að leggja áherslu á?

Gott getur verið að byrja á því að leggja áherslu á fáa vöru-/þjónustuflokka og sinna þeim vel og bæta svo við þegar svigrúm gefst til í stað þess að ætla sér of mikið í upphafi.

Skýr framtíðarsýn einkennir þau fyrirtæki sem ná árangri. Fyrirtæki án skýrrar framtíðarsýnar eiga til að sofna á verðinum og staðna.​