Efnahagsmál - 

15. Júlí 2010

Vönduð skattaskýrsla AGS

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vönduð skattaskýrsla AGS

Íslenska skattkerfið fær á heildina litið jákvæða umsögn í skýrslu AGS um skattkerfið, Improving the Equity and Revenue Productivity of the Icelandic Tax System. Það sé fremur einfalt, skattstofnar breiðir, skatthlutföll tiltölulega lág, möguleikar til skattasniðgöngu takmarkaðir og tekjuöflunargeta mikil. Þetta segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA í grein í Viðskiptablaðinu í dag.

Íslenska skattkerfið fær á heildina litið jákvæða umsögn í skýrslu AGS um skattkerfið, Improving the Equity and Revenue Productivity of the Icelandic Tax System. Það sé fremur einfalt, skattstofnar breiðir, skatthlutföll tiltölulega lág, möguleikar til skattasniðgöngu takmarkaðir og tekjuöflunargeta mikil. Þetta segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA í grein í Viðskiptablaðinu í dag.

Í greininni segir Hannes ennfremur:

AGS bendir á að skatttekjur hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu séu meðal þeirra hæstu í OECD ríkjunum (m.v. 2007) þegar lögbundnum iðgjöldum í lífeyrissjóði sé bætt við. Það er eðlilegt að gera í slíkum samanburði þar sem sambærileg iðgjöld séu víðast annars staðar í formi skatta. Hlutfallið þannig reiknað var 48,6% á Íslandi en hæst 48,7% í Danmörku. Skatthlutfall evru-ríkjanna var hins vegar 39,7% og OECD-ríkjanna 35,8.%

Í skýrslunni er bent á þá staðreynd að þau ríki sem stuðli að mestum jöfnuði í gegnum skatt- og bótakerfið geri það á gjaldahliðinni. Bent er á að skatt- og bótakerfið í Svíþjóð dragi mun meira úr ójöfnuði en í Bandaríkjunum þótt skattstiginn sé mun brattari í síðarnefnda ríkinu. Varað er við of mikilli stighækkun skatta sem dragi úr tekjuöflun þegar farið er yfir tiltekin mörk.

Hér er á ferðinni vönduð og yfirgripsmikil úttekt á íslenska skattkerfinu og afar gagnlegur samanburður við skattkerfi nágrannalanda okkar. Í skýrslu AGS kemur fram stuðningur við flest þau sjónarmið sem SA hafa áður lýst í umræðum um íslenska skattkerfið. Sérstaklega er fagnaðarefni hversu ríka áherslu AGS leggur á að allar breytingar á skattkerfinu séu gerðar að vandlega yfirveguðu ráði og í góðu samráði við hagsmunaaðila.

Skattahækkanirnar sem valda minnstum skaða að mati AGS

Í skýrslu AGS er bent á nokkrar leiðir til þess að auka tekjur ríkissjóðs ef stjórnvöld telja það óhjákvæmilegt. Tillögunum er ætlað að valda sem minnstu tjóni og byggjast á breikkun skattstofna og einföldun skattkerfis í stað hækkunar hlutfalla. Lagt er til eitt þrep í VSK, afnám vörugjalda á matvæli, hækkun eldsneytisskatta og fækkun skattþrepa í tekjuskatti einstaklinga í tvö. Þá varar AGS við því að skattleggja fjármagnstekjur með sömu prósentu og atvinnutekjur.

Skattalegt umhverfi fyrirtækja

Í skýrslunni eru margvíslegar tillögur sem snúa að tæknilegum endurbótum. Lagt er til að hagnaður fyrirtækja í ársreikningi, samkvæmt stöðlum alþjóðlega reikningsskilaráðsins, myndi stofn fyrir tekjuskatt fyrirtækja. Lagt er til að nýleg regla um 15% afdráttarskatt á vexti til erlendra lánveitenda íslenskra fyrirtækja verði milduð verulega. Lagt er til að skilyrði fyrir skattfrelsi argreiðslna milli móðurfélags á Íslandi og dótturfélags erlendis verði rýmkuð. Lagðar eru til leiðir til þess að forðast það að raunverulegar atvinnutekjur í einkahlutafélögum séu skattlagðar sem fjármagnstekjur. Framangreindum tillögum og fleiri ber að fagna enda eru þær mikilvægt innlegg í umræðu um endurskoðun skattkerfisins.

Sjá nánar:

Áskriftarvefur Viðskiptablaðsins

Samtök atvinnulífsins