Fréttir - 

08. október 2014

Unnið að nýju frumvarpi um fiskveiðistjórnun

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Unnið að nýju frumvarpi um fiskveiðistjórnun

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, greindi frá því á Sjávarútvegsdeginum sem fram fór í Hörpu í morgun að unnið væri að gerð nýs frumvarps um fiskveiðistjórnun. Það felur í sér að gerðir verða samningar við útgerðarfélög um afnot af auðlindinni til ákveðins tíma gegn greiðslu. „Gjaldið má ekki vera of hátt svo það hamli fjárfestingu og dragi úr samkeppnishæfni sjávarútvegsfyrirtækja sem eru í harðri samkeppni á alþjóðlegum markaði. En heldur ekki það lágt að fólki finnist sem verið sé að gefa verðmæti,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, greindi frá því á Sjávarútvegsdeginum sem fram fór í Hörpu í morgun að unnið væri að gerð nýs frumvarps um fiskveiðistjórnun.  Það felur í sér að gerðir verða samningar við útgerðarfélög um afnot af auðlindinni til ákveðins tíma gegn greiðslu. „Gjaldið má ekki vera of hátt svo það hamli fjárfestingu og dragi úr samkeppnishæfni  sjávarútvegsfyrirtækja sem eru í harðri samkeppni á alþjóðlegum markaði. En heldur ekki það lágt að fólki finnist sem verið sé að gefa verðmæti,“ sagði Sigurður Ingi.

Í setningarávarpi sagði Sigurður Ingi sjávarútveg hryggjarstykkið í íslensku efnahagslífi. Það væri hagsmunamál allra, ekki síst þeirra sem búi úti á landi, að sjávarútvegur sé rekinn með arðbærum hætti þar sem það efli byggðir landsins.

Sigurður Ingi vék að afkomu greinarinnar. „Afkoma sjávarútvegsfyrirtækja er mér hugleikin og hefur verið um alllangt skeið. Það hefur verið eitt stærsta verkefnið í ráðuneyti sjávarútvegs að semja nýtt fiskveiðistjórnunarfrumvarp og það hefur ekki gengið alveg þrautalaust. Ein ástæða þess er einmitt afkoma sjávarútvegsfyrirtækja.“

Sjávarútvegsráðherra sagði að þrátt fyrir mikla umræðu í þjóðfélaginu vanti oft heildarmyndina.  „Góð afkoma nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja gefur ekki tilefni til þeirrar ályktunar að allir í sjávarútvegi geti greitt það sama til samfélagsins.“

Sigurður sagði að þeir sem væru óþreyjufullir að bíða eftir nýja frumvarpinu þyrftu engu að kvíða, verkstjórnin við vinnslu þess væri í góðum höndum. Um kröftuga nýsköpun í greininni sagði hann þetta.

„Sjávarútvegurinn, eins yfirgripsmikill í íslensku efnahagslífi og hann er, hefur áhrif langt út fyrir veggi sjávarútvegsfyrirtækjanna. Á undanförnum mánuðum hafa verið fluttar fréttir af því að fjárfesting í sjávarútvegi sé að aukast mjög. Ný skip eru í smíðum og þau þarf að hanna og „græja upp“ og oftar en ekki eru það íslensk fyrirtæki sem sjá þann hluta, þótt skrokkar séu smíðaðir í fjarlægum löndum.“ Sigurður Ingi sagði þetta smita út frá sér í allar áttir, gangverk þjóðfélagsins sé beintengt afkomu sjávarútvegsfyrirtækja með áþreifanlegum hætti.

Samtök atvinnulífsins