16. desember 2022

Traust er þungavigtarhugtak

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Traust er þungavigtarhugtak

Virðist ríkjandi viðhorf að ríkið og stofnanir þess séu til fyrir starfsfólkið

Samtök atvinnulífsins hafa undirritað kjarasamninga við samflot verkafólks, verslunarmanna og iðnaðarmanna hringinn í kringum landið. Samningar hafa náðst við 80 þúsund manns með stefnumarkandi kjarasamningum sem leggja grunn að öllum kjarasamningum í þessari samningalotu bæði á almennum og opinberum markaði. Engin verðmæti verða til við undirritun kjarasamninga. Kjarasamningar snúast um að skipta þeim verðmætum sem verða til í atvinnulífinu. Því er afar mikilvægt að gætt sé sanngirni og samkvæmni í þeim kjarasamningum sem gerðir eru. Trúnaður Samtaka atvinnulífsins er gagnvart fólkinu í landinu. Þau sem semja við SA verða að geta treyst því að þær meginlínur sem samflotskjarasamningar marka verði varðar af Samtökum atvinnulífsins. Þar er trúverðugleiki SA sem stærsta samningsaðila á landinu að veði.

Ferð opinberra aðila án fyrirheits 

Kjarasamningar taka til fjöldamargra annarra þátta en launaliðar. Við gerð Lífskjarasamningsins 2019-2022 var innleidd vinnutímastytting hjá flestum viðsemjendum með upptöku á virkum vinnutíma, sem í öllum meginatriðum kom til framkvæmda án vandkvæða á almennum vinnumarkaði. Önnur saga er að birtast okkur á opinberum vinnumarkaði.

Ný skýrsla KPMG um vinnutímastyttingu hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins hlýtur að vera áfall bæði fyrir þá sem annast yfirstjórn ríkisins og ekki síður fyrir okkur skattgreiðendum landsins.

Í nánast öllum einkafyrirtækjum landsins er fylgst vel með hvernig reksturinn þróast. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði taka síðan mið af undirliggjandi rekstri fyrirtækja í landinu. Hvert er hlutfall aðfanga í kostnaði? Er launakostnaður að hækka eða lækka? Er annar rekstrarkostnaður innan settra marka? Er framlegð einstakra vörutegunda að breytast? Hver er kostnaður við veitta þjónustu? Eru viðskiptavinirnir ánægðir? Fá þeir rétta vöru eða þjónustu á réttum tíma? Eru gæðin í lagi?

Einnig er fylgst með starfsánægju, fjarvistum frá vinnu, veikindahlutfalli, starfsmannaveltu, öryggi, hollustuháttum og öðrum þáttum sem tengjast líðan fólks á vinnustað.

Svona einfaldar grundvallarspurningar nýta stjórnendur til að taka á hugsanlegum vandamálum sem upp kunna að koma. Upplýsingarnar segja til um hvar megi gera betur. Hvar séu möguleikar til nýrrar vöruþróunar, hvar þurfi frekari rannsóknir, hvar sé unnt að sækja fram á markaði og hvar liggja tækifærin til skemmri og lengri tíma.

Laust taumhald 

Það vekur strax athygli í skýrslu KPMG hverjir teljist hagaðilar en það eru fjármála- og efnahagsráðuneytið, kjara- og mannsauðssýslan, önnur ráðuneyti, stofnanir og starfsfólk. Skattgreiðendur koma ekki við sögu. Lauslega er fjallað um viðskiptavini en talið að vísbendingar séu um að gæði þjónustu hafi versnað (þjónusta versnar hjá 13 af 15 stofnunum í samanburði). Flestir yppta öxlum yfir þeirri staðreynd. Þeir sem fylgjast með vita að víða er óánægja með hve langan tíma tekur að fá niðurstöðu í mál hjá stofnunum ríkisins, t.d. leyfi, úrskurði og almennar afgreiðslur fjölda mála sem veldur verulegum samfélagslegum kostnaði.

Enda er bent á það í skýrslunni að „(s)tofnanir hafa litla yfirsýn yfir skilvirkni og gæði þjónustu. Þær byggja flestar mat sitt á tilfinningu. Almennt eiga stofnanir erfitt með að setja fram mælikvarða sem sýna árangur verkefna og misvel gengur hjá þeim að mæla lykilþætti mannauðs og rekstrar í starfsemi sinni. [...] Almennt eru stofnanir ekki að mæla árangur verkefna eða hvort þarfir viðskiptavina séu uppfylltar. Áherslur stofnana síðustu ár hafa verið að kanna ánægju starfsfólks með tíðum mannauðsmælingum. Þær hafa haft gott aðgengi að ýmsum tólum og má segja að heilt yfir sé starfsánægja sá hluti í starfsemi stofnana sem hvað best sé fylgst með. Reglubundnar mælingar í rekstri skortir og ekki er vitað hvort fjárfestingar í verkefnum og umbótum séu að skila sér til baka.“

Viðskiptavinurinn er aukaatriði 

Svo virðist sem starfsmenn hafi ráðið för um styttingu vinnutímans og að mest hafi verið rætt um fyrirkomulag kaffi- og matartíma. Niðurstaðan hafi verið sú að flestar stofnanir réðust strax í hámarks styttingu án þess að skilgreina markmið og leiðir. Þrátt fyrir að stjórnendur ríkisstofnana hafi fengið ráðleggingar um að fara hægt í sakirnar. Þau varnaðarorð voru að engu höfð: Enda eru starfsmenn ánægðir með vinnutímastyttinguna. Áherslur yfirstjórnar ríkisins endurspeglast í því að þegar valin er stofnun ársins þá er einungis starfsfólkið spurt. Það virðist ríkjandi viðhorf að ríkið og stofnanir þess séu til fyrir starfsfólkið. Hér sem fyrr hafa viðskiptavinirinir og við skattgreiðendur ekkert um málið að segja. Viðskiptavinurinn er aukaatriði.

KPMG leggur fram í skýrslu sinni margar tillögur til umbóta sem vonandi verða ekki einungis skúffumatur í ráðuneytinu. Hér þarf að grípa inn í mikla óheillaþróun ef ekki á illa að fara. Verkefnin eru mörg, þau eru mikilvæg og þau varða okkur öll sem nýtum þjónustu ríkisins og greiðum skatta og gjöld. Við verðum að geta treyst því að þær meginlínur sem markaðar eru á almennum vinnumarkaði við gerð kjarasamninga séu virtar af opinberum aðilum. Það er spurning um traust.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins