Menntamál - 

16. Desember 2019

Það vex sem við veitum athygli

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Það vex sem við veitum athygli

Námsárangur íslenskra nemenda í nýbirtri PISA-könnun sýnir umtalsverð tækifæri til að gera betur í íslenskum skólum. Þrátt fyrir að við höfum um árabil lagt meira fé til grunnskólanna en nokkurt annað ríki endurspeglar árangurinn það ekki. Við hljótum að spyrja. Af hverju?

Námsárangur íslenskra nemenda í nýbirtri PISA-könnun sýnir umtalsverð tækifæri til að gera betur í íslenskum skólum. Þrátt fyrir að við höfum um árabil lagt meira fé til grunnskólanna en nokkurt annað ríki endurspeglar árangurinn það ekki. Við hljótum að spyrja. Af hverju?

Það blasir við að vandinn hefur ekkert með frammistöðu einstaklinga að gera. Hvorki kennara né nemenda. Það er skylda okkar og sameiginlegt verkefni að endurskoða skólastarfið og þróa þannig að nemendurnir geti náð góðum árangri.  Það nægir ekki að gera hlutina rétt við verðum að gera réttu hlutina. Til staðar er vilji, fjármagn og metnaður. Jarðvegurinn er frjór. Það skortir helst hugrekki og nýja hugsun. Við getum ekki haldið áfram að plástra, þegar uppskurðar er þörf.

Nýverið kynntu Samtök atvinnulífsins áherslur sínar í menntamálum. Þar koma fram fjölþættar tillögur sem snúa að skólunum okkar, sumar að kerfislægum vanda, aðrar að vanda einstakra greina og loks er farið yfir faglegar áskoranir. Nú þegar niðurstöður nýrrar PISA-könnunar eru skoðaðar er einkum þrennt í þessum tillögum sem vert er að draga fram.

Fyrst má nefna að stórir hópar nemenda eiga erfitt með  máltöku, lestur og lesskilning.  Án þess að töfralausn sé kynnt til sögunnar má benda á mikilvæg verkefni sem ætla má að geti hjálpað mörgum til að ná betri árangri. Grunnskólanemendum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli hefur fjölgað úr 1% árið 1997 í 11% 2018. Þetta gerir kröfur um nýja og breytta nálgun. Að auki koma löng sumarfrí sérlega illa við þennan hóp og aðra sem standa félagslega höllum fæti. Úr þessu þarf að bæta. Annar stór hópur, sem telur allt að 20% nemenda, glímir við lesblindu að einhverju marki. Þessum hópi þarf að sinna með nýrri hugsun og aðferðafræði.

Annar veigamikill þáttur til betri árangurs í menntakerfinu snýr að starfsumhverfi kennara, starfsháttum, vinnutíma og menntun. SA leggja ríka áherslu á að þar verði ný hugsun og hugrekki leiðandi. Sjónarmið í þessa veru má einnig finna í greinargerð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birtist nýlega en þar er einnig bent á að betri skólar hafi jákvæð efnahagsleg áhrif.

Í þriðja lagi er hlutfall afburðanemenda einungis 7% hér en 9% að meðaltali í OECD ríkjunum. Mikil áhersla er lögð á það í skólunum okkar að skima fyrir veikleikum, greina þá  og bregðast við þeim. Auðvitað skiptir þetta máli. Það má þó ekki verða til þess að við skimum ekki eftir styrkleikunum og veitum þeim sömu athygli og ræktarsemi.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. desember 2019.

 

Samtök atvinnulífsins