Efnahagsmál - 

01. Desember 2008

Tækifæri til að auka þjónustuviðskipti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tækifæri til að auka þjónustuviðskipti

Möguleikar íslenskra fyrirtækja til að bjóða þjónustu sína í Evrópu munu aukast eftir að þjónustutilskipun ESB hefur verið innleidd í íslensk lög á næsta ári. Jafnframt mun erlendum fyrirtækjum reynast auðveldara að sækja inn á íslenskan markað. Stefnt er að því að minnka reglubyrði og einfalda samskipti stjórnvalda og fyrirtækja til að auðvelda samkeppni fyrirtækja milli landa þannig að neytendur njóti aukinna gæða og hagstæðara verðs á þjónustu. Umbætur á lögum og reglum koma jafnframt þjónustuveitendum á innlendum markaði til góða. Þetta kom fram á morgunfundi SA um þjónustutilskipun ESB sem fram fór á föstudag.

Möguleikar íslenskra fyrirtækja til að bjóða þjónustu sína í Evrópu munu aukast eftir að þjónustutilskipun ESB hefur verið innleidd í íslensk lög á næsta ári. Jafnframt mun erlendum fyrirtækjum reynast auðveldara að sækja inn á íslenskan markað. Stefnt er að því að minnka reglubyrði og einfalda samskipti stjórnvalda og fyrirtækja til að auðvelda samkeppni fyrirtækja milli landa þannig að neytendur njóti aukinna gæða og hagstæðara verðs á þjónustu. Umbætur á lögum og reglum koma jafnframt þjónustuveitendum á innlendum markaði til góða. Þetta kom fram á morgunfundi SA um þjónustutilskipun ESB sem fram fór á föstudag.

Viðskiptahindranir felldar niður
Í nýrri úttekt BUSINESSEUROPE (Evrópusamtaka atvinnulífsins) kemur fram að þjónusta er stærsta atvinnugreinin innan Evrópu. Um 70% starfa er að finna innan greinarinnar og hlutur þjónustu af efnahag ríkja Evrópu er einnig um 70%. Langflest ný störf verða til við þjónustu en skrifræði og ýmis konar hindranir stjórnvalda takmarka og jafnvel koma í veg fyrir að fyrirtæki geti boðið neytendum þjónustu utan heimalands síns. Þjónustuviðskipti eru t.d. aðeins 20% af utanríkisviðskiptum milli Evrópuríkja.  

Carloz Almaraz frá BUSINESSEUROPE

Á fundi SA fjallaði Carloz Almaraz, sérfræðingur hjá BUSINESSEUROPE, um áhrif þjónustutilskipunarinnar á atvinnulífið og þau tækifæri sem í henni felast - einkum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Benti hann t.a.m. á að í tengslum við innleiðinguna skuli setja upp í hverju landi sérstaka upplýsinga- og þjónustumiðstöð þar sem þjónustuveitendur erlendir og innlendir geti átt öll samskipti við stjórnvöld á einum stað. BUSINESSEUROPE telja innleiðingu þjónustutilskipunarinnar mjög mikilvæga til að tryggja frjáls þjónustuviðskipti í Evrópu og kærkomið tæki til að einfalda lög og reglur sem snúa að atvinnulífinu.

Ekki ný löggjöf
Gunnar Þór Pétursson, sérfræðingur við lagadeild HR, skýrði bakgrunn þjónustutilskipunar ESB og ræddi helstu þætti hennar. Benti Gunnar m.a. á að ríki hafi visst frelsi við innleiðingu tilskipana ESB. Þær þurfi ekki að innleiða orðrétt heldur aðeins efnislega og á réttum tíma. Tilskipanir ESB hafi hins vegar verið meira og minna innleiddar orðrétt á Íslandi. Undirstrikaði Gunnar að ekki væri um nýja löggjöf að ræða heldur feli tilskipunin í sér skrásetningu á dómafordæmi dómstóls ESB og ákvarðana framkvæmdastjórnar sambandsins. 

Um 60 manns sóttu fund SA

Innleiðingin á Íslandi hafin
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að hafa innleitt þjónustutilskipun ESB í íslensk lög fyrir árslok 2009. Valgerður Rún Benediktsdóttir, lögfræðingur hjá viðskiptaráðuneytinu, fór yfir stöðu málsins en í máli hennar kom m.a. fram að innleiðing tilskipunarinnar kalli á samvinnu allra ráðuneyta og sveitarfélaga þar sem farið verði yfir með ítarlegum hætti ýmsa löggjöf og rammalöggjöf.

Valgerður vísaði m.a. til þess að þjónustutilskipun ESB feli í sér að einfalda skuli öll leyfisferli og afnema ef mögulegt er. "Sem dæmi um einföldun má nefna að aðildarríki geta nú ekki krafist þess að skjöl sem fylgja þurfa umsókn um leyfi til að veita þjónustu séu í frumriti, staðfestu endurriti eða löggiltri þýðingu nema það réttlætist af mikilvægum almannahagsmunum," sagði Valgerður.

Frummælendur, Carloz, Gunnar og Valgerður

Stefnt er að því að drög að frumvarpi um innleiðingu þjónustutilskipunar ESB á Íslandi verði tilbúin í byrjun árs 2009. Upplýsinga- og þjónustuveita fyrir Ísland verður opnuð á vefnum island.is en þar verður hægt að nálgast allar upplýsingar um  hvað þarf að gera til að geta veitt þjónustu á Íslandi. Einnig verður hægt í gegnum vefinn að sækja um öll nauðsynleg leyfi og skila inn nauðsynlegum gögnum. Evrópusambandið mun síðan safna saman á eina síðu tenglum á allar þjónustuveiturnar svo að auðvelt á að vera fyrir þjónustuveitanda að finna veitu hvers og eins lands.

Valgerður sagði ekki auðvelt að meta hversu mikil áhrif tilskipunin muni hafa á Íslandi en ljóst sé að hún feli í sér ákveðin tækifæri til sóknar fyrir íslenska þjónustuveitendur ásamt því að auðelda erlendum aðilum að bjóða þjónustu sína á Íslandi.

Glærur ræðumanna má nálgast hér að neðan en um 60 manns sóttu fundinn.

Sjá nánar:

Carloz Almaraz (PPT)

Gunnar Þór Pétursson (PDF)

Valgerður Rún Benediktsdóttir (PPT)

Nýtt rit BUSINESSEUROPE (PDF)

Samtök atvinnulífsins